Harmsögur ævi minnar

7.2.07

Heyrðu já, piparmyntudúddi bankaði uppá hjá mér á sunnudaginn þegar ég var sem verst. Ég dröslaðist framúr, nær dauða en lífi. Hann spurði: "Jæja, hvernig hefurðu það?" (Hvernig hef ég það?? Ég leit út eins og hundaskítur með lifrarbólgu!),
D: "Tjah, frekar skítt bara",
P: "Heyrðu, hvenær ætlarðu að koma á sýninguna hjá okkur?",
D: "Öööö, bara, hmmm, þegar ég kemst kannski... ha, já ef ég verð enn á lífi",
P: "Ok, frábært, sjáumst þá".

Nú vil ég undirstrika... ekki HVORT heldur HVENÆR ég kem á sýninguna. Ég hef áður sagt frá því að ég er ekki hrifin af söngleikjum en braut þó odd af oflæti mínu um daginn og fór. Er ég núna semsagt skuldbundin að fara á hverja einustu sýningu sem hann kemur nálægt bara af því við búum í sama húsi? Það þykir mér afskaplega glatað og sérstaklega þar sem ég þoli ekki að þurfa að gera eitthvað. Þá kemur upp í mér mótþróapúki mikill. Og mig langar ekkert að fara á þetta drasl. Kannski sjálfri mér að kenna, þar sem ég sagðist hafa skemmt mér konunglega á hinni sýningunni, meðan mér fannst hún í besta falli þolanleg.