Harmsögur ævi minnar

30.1.07

Ég fór í ræktina áðan. Ég ætlaði nú bara reyndar að rolast einhvers staðar úti í horni á hlaupabretti en það var ekki hægt. Ég þurfti að búa til eitthvað megaprógram með ótrúlega hressum fitness-gaur. Hann var sko næstum því jafnhress og Magnús Scheving. Hann kenndi mér fullt af rosalegum æfingum með risastórum gúmmíbolta og sagði mér nákvæmlega hvað ég ætti að gera og hversu oft. Alveg súper. Ég gerði þetta samt ekkert allt, prófaði bara hitt og þetta (og leit út eins og algjör bjáni á meðan), fór svo heim og át næstum heilan lítra af ís. Prótín sko, prótín.

Ég fékk líka þennan fína bakpoka með svona líkamsræktarfylgihlutum í; vatnsbrúsa og handklæði og svoleiðis. Ekki það að ég hafi nokkuð svitnað. Og takmarkað notagildi því ég læt ekki sjá mig á meðal eðlilegs fólks með bakpoka sem er merktur LA FITNESS í bak og fyrir. En það er svosem fínt að fá sér pakpoka í ræktina því að þá þarf ég ekki að tæma skólabakpokann í hvert skipti.

Svo er snyrtistofa þarna líka og ég er alvarlega að spá í að fara í brasilískt vax. Þó ekki væri nema bara til þess að komast að því hvort það er ekki ótrúlega fáránlegt að vera bara á pjöllunni fyrir framan einhverja konu. Sem þar að auki er eitthvað að mixa þarna niðri. Og þó, það er nú ekkert tiltökumál að fara til kvensjúkdómalæknis. Verð að komast að þessu. Þetta er samt örugglega vibbavont.