Harmsögur ævi minnar

5.2.08

Bolla bolla bolla. Við vorum að enda við að sporðrenna síðustu bollunum í kvöldmat. Nei ekki fiskibollum heldur rjómabollum. Það er namminamm en maginn á mér er ekki í stuði fyrir svona stanslaust rjómasull.

Þá yfir í annað (en tengt) málefni. Þegar ég og hjásvæfan vorum nýbyrjuð saman höfðum við bæði mikla andúð á fólki sem fitnar um leið og það byrjar í sambandi. "Hrein og klár óvirðing við makann!", æptum við hvort ofan í annað. "Af hverju ætti maður ekki að vilja líta vel út þó maður eigi kærasta eða kærustu?", spurðum við í forundran. Og ég er svosem alveg sömu skoðunar ennþá. Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að við erum bæði búin að spik-fokkíng-fitna síðan við byrjuðum saman. Ég veit svei mér þá ekki hvernig stendur á þessu.