Harmsögur ævi minnar

30.6.08

Jæja, það er ekki seinna vænna að fara að undirbúa sig fyrir humarhátíð á Höbbn um næstu helgi. Ég hef ekki sótt slíka hátíð áður en skilst að þetta séu nokkurs konar réttir með humrum í stað kinda. Ég er þrælvön réttamanneskja svo þetta verður lítið mál. Helst hef ég áhyggjur af því að humarrétt sé heldur lítið mannvirki fyrir brussu eins og mig og svo veit ég ekki heldur hvernig þeir merkja humrana. Kannski merkt á hala í stað eyra. En þetta kemur væntanlega allt í ljós.

Hér kemur svo skemmtilegt lag sem varð þess heiðurs aðnjótandi að vera síðasta lag partýsins einhvern tímann á laugardagsmorguninn. Yndislegt lag. Yndislegt fólk. (Þá á ég að sjálfsögðu við fólkið mitt, ekki Bryan Ferry & co., án þess þó að ég viti nokkuð um þeirra yndislegheit.)