Harmsögur ævi minnar

22.2.10

Jæja, fimm dagar liðnir og ég hef barasta ekkert skitið á mig. Það er afrek, a.m.k. ef eitthvað er að marka minn sjúka sambýlismann, og þar sem ekki er frekari afrekum fyrir að fara í lífi minu þessa stundina ætla ég bara að vera stolt af því. Annars er það helst að frétta að fólk fer dálítið í taugarnar á mér, þá sérstaklega reyndar vitlaust fólk en það ættu nú flestir að skilja. Nema þessir vitlausu.

Samstarfskona mín hafði orð á því í dag að það væri orðinn eitthvað stuttur í mér þráðurinn. Sennilega verður maður þannig af því að vera ríkisstarfsmaður. Að auki hrjáir mig vangefin vöðvabólga... en það er nú sennilega algengt hjá skrifstofublókum um heim allan, ekki bara ríkisstarfsmönnum. Það gæti nú samt útskýrt pirringinn að einhverju leyti. Ég náði þó að krypplast heim, hvar Sambó gaf mér öfgasterkt lyfseðils-íbúfen sem hann fékk einhvern tímann og er nú nokkuð slök. Mest langar mig að glápa á sjónvarpið en það er mjög erfitt þegar maður á ekki sjónvarp. Ætli ég haldi þá ekki bara áfram með bækurnar hans Péturs Gunnars um Þórberg. Fínt stöff en mikið kvartar Þórbergur og kveinar. Það er sennilega ekki tekið út með sældinni að vera listamaður. Sei sei nei.