Harmsögur ævi minnar

1.2.03

Jæja mamma reddaði nú aldeilis kúrekaoutfitti fyrir gærkvöldið.... kom færandi hendi með þessi fínu kúrekastígvél (sem voru ekki einu sinni neitt drasl heldur bara Ecco-gæðaskór takk fyrir!), æðislega skyrtu, brúnt vesti og tóbaksklút um hálsinn. Hana minnti meira að segja að hún ætti spora e-s staðar en fann þá því miður ekki! Svo ég skellti mér í múnderinguna, girti gallabuxurnar ofan í bootsin, túperaði á mér hárið (þið munið kannski eftir Hófí-vængjunum...) og setti vel af andlitsfarða í ýmsum litum. Svo í ofanálag skutlaði hún mér í partýið svo ég og rauðvínsflaskan kæmumst heilar á húfi á áfangastað. Já hún mamma mín getur nú verið mesta gæðablóð!

Nema hvað að ég mætti galvösk í veisluna, það var enginn mættur sem ég þekkti en það sem verra var er að það var enginn í kúrekabúningi!!! Gestgjafinn Tinna var reyndar í kúrekagalla og seinna um kvöldið kom stelpa með kúrekahatt. Andskotans pakk! Ef það er þemapartý þá auðvitað klæðir maður sig eftir því - annað er nú bara glataður mórall! Mér leið hálf afkáralega svona ein í búningi - soldið eins og Bridget Jones þegar hún mætti í garðveisluna í Playboy-bunny fötunum. Ég reyndi því að láta lítið fyrir mér fara en það tókst ekki því það glumdi í cowboy stígvélunum við hvert fótspor.

Við enduðum svo bara á því að skemmta okkur þrælvel og hinir voru frekar sauðslegir yfir því að hafa ekki komið í uniformi. Það er heldur ekkert annað að gera í svona stöðu en að stinga þumalputtunum í buxnastrenginn og línudansa inn í nóttina eins og versta hjólhýsapakk. Og kæra sig kollóttan um annarra álit.