Harmsögur ævi minnar

20.10.04

Hún Rita landlady (sem býr einmitt í íbúðinni á móti) er ágætis kelling fyrir utan það að hún er gjörsamlega þrifasjúk. Ég er engin subba svosem en öllu má nú ofgera. Hún sendi e-a kellingu til að þrífa hjá okkur um daginn, hún gerði það ekki nógu vel svo hún sendi aðrar tvær; ekki gekk það nú heldur, svo að á endanum kom sú fjórða og þá loksins varð mín ánægð. Þetta var, að hennar sögn, til að ná upp uppsafnaðri fitu og ryki eftir misþrifasama leigjendur. Jú jú allt ágætt með það... nema þegar hún byrjar að segja við okkur: "Svo er mjög mikilvægt að hver og einn þrífi eftir sig og gangi frá og svona... og helst ættuð þið að hafa eitthvað system á þrifunum líka."

What??? Þetta er bara nákvæmlega eins og það er hjá okkur, hver gengur frá eftir sig (augljóslega...) og svo þrif einu sinni í viku. Mind your own business kellingartuðra, það er ekki okkur að kenna að Michael Þjóðverji komi hérna þrisvar á ári og maki íbúðina út í steikingarfitu og óhreinum diskum.

Um daginn (eftir ræstingakonu nr. 2) kom Rita yfir, ég var ein heima og nýbúin að steikja mér kjúkling og kartöflur sem voru í pönnu á eldavélinni. Hún fer að rannsaka eldhúsið og kemur augu á einhverja fitubrák á borðinu fyrir ofan ofninn. Og herregud... það var bara eins og hún yrði andsetin af djöflinum sjálfum. Hún hljóp fram, náði í kassa af brúsum með ammoníaki, klór og alls konar óefnum og byrjaði að úða yfir allt saman (þar á meðal kvöldmatinn minn). Eftir þriggja kortéra skrúbb varð hún sátt og drullaði sér heim til sín með hreinsiefnin. Eins gott þar sem ég var komin að yfirliði af hungri (og já, ég át kjúllann samt... kaldan í ammoníakslegi).

En ég get sagt ykkur það, að það sem ég sá í augunum á þessari konu þetta kvöld, var ekki mannlegt.