Harmsögur ævi minnar

15.3.05

Ég vann stórsigur á sjálfri mér í morgun, stórsigur segi ég.

Eins og allir vita geta kellingar ekki bakkað í stæði og er undirrituð þar engin undantekning. Á Íslandi er þetta yfirleitt ekki vandamál þar sem nóg er af plássi og ef maður kemst ekki inn í bakk-stæði finnur maður bara annað sem hægt er að keyra beint inn í.

Annars staðar í heiminum er þetta yfirleitt ekki svo auðvelt og stóð ég einmitt frammi fyrir slíku vandamáli í morgun. Ég var að fara að passa og eina bílastæðið í 5 kílómetra radíus frá heimili barnsins var oggulítið bil milli tveggja bíla sem var lagt upp við gangstétt.

Mín helsta hræðsla í þessari aðstöðu eru viðbrögð annarra ökumanna, sem byrja að flauta og öskra á mann um leið og maður tefur umferðina í 2 sekúndur. Það er sko ekki til að auðvelda manni verkið og ég hrökklast yfirleitt taugaveikluð og niðurlægð í burtu, með tárin í augunum.

Í morgun var hins vegar ró og næði því klukkan var ekki orðin 6 og ekki sála á ferli. Ég hafðist því handa, bakkgír, 1. gír, byrjað frá upphafi, bíllinn fyrir aftan aðeins snertur, bakkgír o.s.frv., o.s.frv... og VOILÁ, allt í einu var ég búin að leggja bílnum fullkomlega í ör-stæðið. Það voru í mesta lagi 3 sentimetrar sitt hvorum megin í næsta bíl; algjör snilld. Ég sá mest eftir því að hafa ekki verið með myndavélina á mér til að sanna mál mitt; mér á sjálfsagt aldrei eftir að takast þetta aftur... hef ekki hugmynd um hvernig ég fór að þessu.

Já, það eru þessir litlu sigrar sem gera lífið þess virði að lifa því.