Harmsögur ævi minnar

18.5.05

Jæja þá er komið að því. Neutral-maðurinn píndi mig til að byrja á kössunum í geymslunni. Ég á ótrúlega mikið af drasli sem aðrir eru að geyma fyrir mig og þar sem Neutral-maðurinn er að fara að flytja í sumar vildi hann að ég grynnkaði á kassastaflanum.

Ég er nú búin að vera að humma þetta fram af mér en sá í gær að það var engrar undankomu auðið. Það er ekki það að ég nenni ekki að taka til í þessu, það er meira það sem ég er hrædd við að finna í kössunum. Þarna er nefnilega öll mín fortíð, góðir tímar og slæmir og ég hef stundum svo lítið hjarta að það fer alveg með mig að fara í gönguferð niður minningastíginn. Svona tiltekt endar yfirleitt í því að ég sit með nostalgíublik (og tár) í augum og skoða gamlar myndir, tónleikamiða, skólablöð, bréf og alls konar dót.

Það er sérstaklega ömurlegt að skoða dót úr grunnskóla. Þegar maður var ungur og saklaus og fannst sér allir vegir færir. Allt lífið framundan og ekkert ómögulegt.

Svo náttúrulega kemst maður að því hvað lífið er mikill skítaskurður.