Harmsögur ævi minnar

8.5.06

Þegar ég var lítil átti ég beibídúkku svokallaða en það voru dúkkur með haus og útlimi úr plasti en mjúkum búk. Þær voru líka með einn asnalegan lokk upp úr enninu. Þetta þótti gríðarlega fínt og hipp og kúl. Mín dúkka hét Ólöf Andra og ég var hæstánægð með hana.

Einn daginn tók lítil frænka mín upp á því að krota framan í Ólöfu. Því miður reyndist ekki mögulegt að ná pennastrikunum framan úr henni með nokkru móti. Það endaði með því að móðir mín skar þau framan úr henni. Ekki varð hún frýnileg eftir aðgerðina blessunin og var upp frá því kölluð Óla Scarface eða Lóa kuti.

Ég hef ekki séð Ólöfu Öndru í nokkurn tíma. Ef ég finn hana skal ég setja inn myndir af útskornu smettinu á henni.