Harmsögur ævi minnar

4.3.07

Oj, það er farið að leka súkkulaði út úr eyrunum á mér. Hingað og ekki lengra, nú léttist ég um 10 kíló áður en ég kem heim. Sem er einmitt... 20. MARS!!! Jibbí jei, og það í heilan mánuð. Ofsalega verður það fínt. Ég er svo keleríssvelt að ég nota hvert tækifæri til að snerta bekkjarfélaga mína við misgóðar undirtektir. Sumir eru þó orðnir vanir og kippa sér lítið upp við faðmlögin og káfið frá mér.

°°°

Engar einkunnir komnar enn, en orðið á götunni er það að allir hafi náð ritgerðunum. Þá bara segjum við það þangað til annað kemur í ljós.

°°°

Hingað er fluttur nýr meðleigjandi, rúmlega tveggja metra hár Hollendingur sem virðist hress við fyrstu kynni. Veitir svosem ekkert af því að hrista aðeins upp í þessum dauðyflum í húsinu mínu. Þó vil ég halda drykkju og saurlifnaði í lágmarki því ég þarf jú að læra líka. Same old same old.

°°°

Mér reiknast til að ég eyði þriðjungi námslánanna minna í Subway. Subway er nálægt mér og hentugt að hlaupa þangað þegar mig langar ekki í grænmetisruslið sem ég er alltaf að kaupa og tel sjálfri mér trú um að ég eigi eftir að borða. Really? Nei takk. Á Subway vinnur fólk sem er ekkert gríðarlega sleipt í ensku. Af því leiðir að ég fæ stundum viðbjóð eins og gulrætur, maís og jalapeno á bátinn minn, en engar ólífur og alls konar sem mér finnst gott. Það er leiðinlegt. Eeeen ekkert lífshættulegt.