Ég er stöðugt að lenda í þrasi við ástmanninn því hann saknar gamla bílsins síns. Samkvæmt honum er það mér að kenna að hann þurfti að henda honum (lygi, lygi!). Og þrátt fyrir að við (ég) eigum glænýjan bíl með góðum dekkjum og risaskotti var allt betra í gamla bílnum.
Gamli bíllinn var viðbjóðsleg Micru-niðursuðudolla sem angaði af fiski-, svita- og ruslafýlu, með ónýtri kúplingu og öllum mælum biluðum og þar að auki ónýtri miðstöð. Ruslafata á hjólum. Og það lélegum hjólum. Hins vegar þreytist hann ekki á því að hamra á því að það hafi verið hiti í sætunum og ýmislegt þetta og hitt.
Ef þetta var svona frábær bíll, af hverju þurfti hann þá að henda honum? Jú, því það hefði enginn heilvita maður borgað krónu með gati fyrir þennan skrjóð. Og af hverju var þá ekki bara gert við það sem var bilað fyrst það var nánast allt í lagi með hann? Það veit enginn... ekki lufsaðist hann einu sinni til að skola af honum mesta fiskislorið. Fjarlægðin gerir fjöllin svo sannarlega himinblá.
(Svo finnst mér hiti í sætum vera stórlega ofmetinn - mér líður alltaf eins og ég sé búin að pissa í buxurnar þegar ég sit í svoleiðis bílum.)
<< Home