Harmsögur ævi minnar

8.2.08

Gaavööð minn góður! Ég var að þvo mér um hendurnar inni á baði áðan og varð litið í spegilinn (já ég veit, glatað). Nema hvað að mér varð starsýnt á hársvörðinn á mér og tók eftir því að fallegu ljósu strípurnar mínar eru orðnar frekar úrvaxnar. Venjulega þegar slíkt gerist kemur upp vænn bútur af mínum náttúrulega háralit sem er þessi líka fallegi ekki-litur sem mér skilst að sé algengur á íslenskum hausum. Svona grá-gubbu-ljósbrúnn einhvern veginn. En svo var ekki nú, ó nei. Ég gat ekki betur séð en að það væri rauður blær á strýinu sem upp er að koma. Rautt! Ég hef nú látið ýmislegt yfir mig ganga í gegnum tíðina; ég er hjólbeinótt, með frekjuskarð, alltof litlar lappir og ýmislegt fleira smálegt. En túrhaus?! Það sem á mann er lagt. Mig svosem grunaði að þessi fjölskyldusjúkdómur ætti eftir að ná í skottið á mér (reyndar hætti pabbi að vera rauðhærður í kringum fertugt þannig að ef ég er heppin verða þetta bara rétt 10 ár). En kannski er ástæðan bara sú að ég drekk of mikið rauðvín. En þetta er klárlega hið versta mál.