Harmsögur ævi minnar

23.3.04

Ég er búin að þjást núna í tvo daga af leiðinda magaverk. Ekki svona venjulegum heldur svona sting ofarlega í kvikindinu... eins og einhver sé að pota í innyflin á mér með stórum prjóni.
Nú, ég er helst á því að ég sé með blæðandi magasár eða krabbamein þótt aðrir í kringum mig komi með minna dramatískar skýringar á óþægindunum. Móðir mín sagði t.d.: "Hvah, er'etta ekki bara skitustingur? Þú losar þetta í fyrramálið." Fylltist ég þá miklum kvíða því síðast þegar móðir mín sagði þessi orð fékk ég að þjást óbærilega í heila nótt þar til ég var loksins flutt á spítala með botnlangabólgu og allt skorið upp med det samme. Kannski hefur vaxið á mig nýr botnlangi og nú er komin bólga í hann. Já, fyrst það gat vaxið nýtt sett af nefkirtlum inni í mér sé ég enga ástæðu til að útiloka þetta. Ja, nema þetta sé bakflæði, soldið fúlt sko þar sem það var voðaleg í tízku hérna fyrir nokkrum árum en er eiginlega ekkert inn lengur. Hmmm....