Harmsögur ævi minnar

27.10.04

Tók strætó snemma í morgun upp í Auchan (Hagkaup Sardiníubúa) til að næla mér í 200 GB harðan disk fyrir 149,90 evrur. Ekkert smá ánægð með þetta; loksins getur maður byrjað að dánlóda klámi eins og fagmaður.

Tölvudruslan var að drepast úr plássleysi, enda gömul lufsa (á tölvumælikvarða) og ekki nema 20 GB, puuhhh. Kettlingur.

Á leiðinni heim úr búðinni var allt of mikið af fólki í strætó fyrir minn smekk. Maður hefur svosem lent í því heima líka (140 Hafnarfjörður-Garðabær-Kópavogur-Siðmenning var nú oft ansi þéttsetinn hérna í den). Gallinn er bara sá að Sardiníubúar kunna ekki alheimsstrætóreglurnar sem allir fara eftir. Semsagt:



  1. Þú horfir ekki í augun á neinum.
  2. Þú talar ekki við neinn.
  3. Þú stendur/sest ekki nálægt neinum ef það er ekki alveg nauðsynlegt.

Nei nei, ekkert svona takk fyrir. Það er bara troðist inn, beint inn í persónulegu loftbóluna, og andlitinu jafnvel snúið að manni. AÐ MANNI!!! Þannig að ef maður rekur út úr sér tunguna sleikir maður ennið á hálfvitanum sem tróð sér upp að manni. Svo andar þetta framan í mann. Ógeðslegt. Og alveg óásættanlegt fyrir tilfinningafrosinn og líkamsfælinn Norðurlandabúa. Eins gott að ég þarf sjaldan að taka strætó.