Harmsögur ævi minnar

24.1.06

Jæja, rólegt hérna. Það er heldur ekkert búið að vera í gangi hjá mér fyrir utan slæmar fréttir, sorg og almennt andleysi sem fylgir svoleiðis.

En... lífið heldur áfram og kominn tími til að hysja upp um sig brækurnar.

Þau undur og stórmerki áttu sér stað í dag að ég hélt áfram með ítölskuritgerðina mína. Það er svo langt síðan ég opnaði skjalið að tölvan slökkti á sér af áreynslu þegar ég ég smellti á það. En þetta hafðist á endanum og ég er í rjúkandi stuði alveg. Ætli ég klári hana bara ekki í mánuðinum? Eða tjah, kannski aðeins of mikil bjartsýni.

Svo er ég bara byrjuð að borða á fullu... þýðir náttúrulega ekkert annað ef maður ætlar að standa við áramótaheitið: Þriggja stafa tala á vigtinni fyrir útskrift. Nema ég útskrifist í október, þá hef ég auðvitað sumarið til að troða í mig líka. Bónus er alveg að bjarga mér í þessu, pakki af Maryland kexi kostar bara fimmtíu og eitthvað kall, enda étið í morgun-, hádegis- og kvöldmat.

Já, og ég tók þátt í netkosningu um kynþokkafyllsta mann Íslands í einhverri netkosningu (ekkert diss, var í sígópásu!). Ég kaus Hilmi Snæ því hann er sjúklega kynþokkafullur. Var reyndar ekki viss hvort ég ætti kannski að kjósa Eið Smára. Mér finnst hann ekkert brjálæðislega flottur en mig dreymdi í fyrrinótt að ég hefði sofið hjá honum. Ætli hann verði fúll af því að ég kaus hann ekki? Þetta var nú bara einnar nætur gaman sko, ég lofaði engum neinu.