Harmsögur ævi minnar

18.11.06

Hljóðfræðikennarinn minn (eins mikið og ég dýrka hann) hefur greinilega smitast af einhverri illkvitni eftir Harry Potter ævintýrið. Ég fór nefnilega til hans í gær og sagðist vilja skrifa stærri ritgerðina mína um hljóðfræði, og þá helst íslenska. Rauk hann þá á fætur, sagði að það væri lítill tími til stefnu (við eigum að skila ritgerðartitlum á mánudag), plantaði mér fyrir framan tölvu og sagði mér að taka upp fullt af drasli sem ég veit ekki hvað heitir á íslensku. Nú ég tók mig upp alveg hægri vinstri og bjó svo til spektrógröm og mældi alls konar drasl, mjög áhugavert allt saman... EN það var nú föstudagur! Og ég komst ekki heim fyrr en um kvöldmat. Stalst svo út í 3 bjóra með Söru, kærastanum hennar og Tim. En ég má víst ekkert fara út meira, eða svo sagði allaveganna kennarinn. Ekki einu sinni þegar ég fer til Íslands... piff, sjáum nú til með það góði minn.

En nú þarf ég að lesa doktorsritgerð eftir einhvern dúdda í Svíþjóð. Ég veit ekki hvað ég er búin að koma mér í. Helst dettur mér í hug að það hafi verið stór mistök að fara í mastersnám. Sérstaklega svona gríðarlega praktískt mastersnám eins og ég er í. Ætli það séu lausar stöður á McDonalds?