Harmsögur ævi minnar

31.8.07

Síðustu nætur hafa verið hörmulegar. Hjásvæfan er farin að taka upp á því að hrjóta, eða a.m.k. gefa frá sér of hávær öndunarhljóð fyrir minn smekk þegar hann sefur. Ég þarf því að dunda mér við það að halda fyrir nefið á honum, sparka í hann og reyna að fá hann til að snúa sér á hliðina til að minnka óhljóðin. Í gær tókst mér að fá hann til að snúa sér, en þá sneri hann sér að mér og andaði bjórfnyk á mig sem var ekki til að bæta ástandið.

(Smá útúrdúr: Bjórfnykur eður ei; mér finnst aldrei þægilegt þegar fólk andar á mig. Þess vegna voru fjölskylduútilegur algjört hell fyrir mig. Sex manns í einu litlu A-tjaldi og allir með hausinn í áttina að mér... þvílíkur hryllingur.)

Eins og þetta sé ekki nóg til að æra óstöðugan þá er líka eitthvað að nýja svefnsófanum okkar. Ég nenni ekki að útskýra það í smáatriðum, en til þess að grindin detti ekki niður á gólf þarf léttari aðilinn (ég... ennþá) að sofa á blákantinum á útdregna hlutanum og hreyfa hvorki legg né lið.

Síðustu nótt lá ég einmitt á þessum kanti, hundþreytt en dauðhrædd við að snúa mér eða bylta. Þá fékk ég einmitt þá flugu í hausinn að mér væri illt í maganum vegna þess að ég væri örugglega með ristilkrabbamein eða alnæmi.

Til þess að koma í veg fyrir fleiri geðsjúkar svefnleysishugmyndir ákvað ég að eyða þessari nótt í að taka til í geymsludraslinu mínu. Það er kreisí gott/vont. Vont því það er leiðinlegt, en gott því maður rekst á gullmola eins og skilaboðakrot úr menntaskóla um hvort einhver hafi kysst þennan og hinn, gömul nafnskírteini og alls konar fyllerísminjagripi.

Eitthvað gengur nú samt hægt að grynnka á draslinu þrátt fyrir fögur fyrirheit.