Harmsögur ævi minnar

29.8.07

Viktor litli bróðir minn



Þetta er Viktor, hundurinn hennar mömmu. Hann er ótrúlega sætur og mjúkur og við erum öll ástfangin af honum. Þó sérstaklega mamma. Milli þess sem hún öskrar á hin systkinin mín segir hún krúttulega við hann: "Á mamma búa til kæfu fyðið Vittor litla" eða "Mamma ætlað að boðða þig, þú ett so dætur" (þýðing: "Á mamma að búa til kæfu fyrir Viktor litla" og "Mamma ætlar að borða þig, þú ert svo sætur"). Það er nokkuð ljóst að móðir mín hefur loksins eignast draumabarnið sitt; barn sem gefur skilyrðislausa ást, rífur ekki kjaft og biður aldrei um pening.

Það kom bersýnilega í ljós um daginn hvern hún elskar mest. Við mamma, Sandra systir, hjásvæfan og gulldrengurinn (téður Viktor) fórum á Þingvelli í sunnudagsferð. Eftir dágott rölt rákumst við á fallegt berjalyng og hófumst handa við að tína upp í okkur. Eftir smá tíma tókum við eftir því að berjalyngið var sennilega staðsett ofan á geitungabúi því að það var allt morandi í þessum viðbjóði. Nema hvað að mamma þreif hundinn upp á hnakkadrambinu og hljóp á methraða út úr geitungagerinu í öruggt skjól. Eftir stóðum við systurnar eins og sauðir, berskjaldaðar og mömmulausar. Haldiði að það sé? Ég er viss að hundspottið á eftir að erfa kellinguna.