Harmsögur ævi minnar

6.9.07

Ég byrjaði í gríðarlegu heilsuátaki í dag því ég sá svo fallegan kjól í gær sem mig langar til að vera í á afmælinu mínu. Með gríðarlegum viljastyrk horfði ég á hjásvæfuna slafra í sig pepperónípítsu í hádegismat meðan ég át surimisalat og egg. Eftir mat fór ég með fjölskyldunni að heimsækja ömmu í sumarbústað. Amma var búin að elda lambalæri og með því sem ég neyddist auðvitað til að borða. Bömmer. Og fyrst að dagurinn var hvort eð er ónýtur fékk ég mér tvær tegundir af ostaköku í eftirrétt. Og nammi á leiðinni heim. Og popp og kók í bíó áðan á Astrópíu (sem er mjög skemmtileg b.t.w.).

Þá byrja ég bara hollustuna galvösk á morgun og vona að átsjúkir ættingjar reyni ekki að draga mig með sér í svaðið. Þetta lið sko og það sem á mann er lagt. En ég er að minnsta kosti ekki jafn óheppin og Öli vinur minn sem má ekki krossleggja lappirnar það sem eftir er því þá deyr hann.