Harmsögur ævi minnar

2.3.08

Auðvitað er skítaveður í dag þegar ég var að spá í að drífa mig út. Kvefið ennþá á sínum stað auðvitað, ég losna sennilega við það í júní. Best að drífa sig bara á bókamarkaðinn í dag fyrst ég fór ekki í gær... ég er að vona að nýjasta Nönnubókin sé til þar þó ég efist nú um það.

Eeeen svona til að drepa tímann meðan hjásvæfan finnur sig til þá eru hérna nokkrar staðreyndir um sjálfa mig (þ.e.a.s. þegar ég var krakki - held ég sé nú vaxin upp úr þessu flestu):

  • Ég var fáránlega sýklahrædd og gat t.d. ekki drukkið úr sama glasi og neinn fyrr en ég varð 15 ára.
  • Ég hringdi iðulega hágrátandi í vinnuna til mömmu og pabba út af því að:
    • Ég var viss um það væru ljón á leiðinni heim til mín til að éta mig.
    • Ég var viss um að ísbirnir á fljótandi rekís væru að leggja að í Hafnarfjarðarhöfn og myndu koma heim til mín og éta mig.
  • Ég hékk nokkrum sinnum grenjandi í löppunum á mömmu þegar hún var að fara í vinnuna því ég var viss um að ég yrði grafin lifandi eða yrði að beinagrind.
  • Ég fór í fýlu út í mömmu því hún vildi horfa á Eurovision '82 í steríó, þ.e.a.s. með kveikt á útvarpinu líka. Ég vildi bara hafa hljóðið í sjónvarpinu.
  • Á ferðum út úr bænum þurfti ég alltaf að bíta saman tönnunum á milli vegstika.
  • Oft gat ég ekki stigið á neins konar línur á gangstéttum án þess að finna sársauka í iljunum.
  • Ef ég meiddi mig eða rak mig í öðrum megin þurfti ég að gera það hinum megin líka.
Gaman að þessu... gæti sjálfsagt rifjað upp fleira en er að spá í að drífa mig út. Stundum er betra að segja ekki frá öllu.