Harmsögur ævi minnar

25.3.08

Jæja, þá er maður snúinn aftur úr útlegðinni. Ég dvaldi um helgina á hjara veraldar, eða nánar tiltekið hjá móður minni á Höbbn í Hoddnafirði, ásamt systur, bróður, mömmukærasta og tveimur stjúpbræðrum. Það var algjörlega frábært... ég hef ekki legið svona mikið í leti síðan ég fékk lungnabólgu '81. Reyndar bar ég inn í húsið tvær 200 kílóa marmaraborðplötur (ekki alveg ein samt) og u.þ.b. 120 pakkningar af níðþungum leirflísum en það var svosem ekki vanþörf á að brenna öllu súkkulaðinu.
---
Og ég er hæstánægð með það að þó ég sé að verða þrjátíuogeins fékk ég samt að leita að páskaegginu mínu eins og hinir litlu krakkarnir. Það er kannski aðeins skammarlegra að segja frá því að ég opnaði það ekki heldur át frá systkinum mínum. En ég nennti bara ekki að fá páskaegg út um alla tösku í fluginu heim. Alveg satt.
---
Svo brenndi ég mig þegar ég var að gera sósu með hátíðarmatnum. Helvítið bullsauð og slettist á hendina á mér og DJÖFULL sem það var vont... og það allt helvítis kvöldið. Í gær fékk ég svo þessar fínu risablöðrur á baugfingur vinstri handar. Nú er mér ekki lengur illt en ég er gjörsamlega heilluð af sárunum. Þetta er rautt og hvítt og svo leka allskyns vessar úr þessu lon og don. Ég ætlaði varla að geta einbeitt mér að vinnu í dag, mér finnst þetta svo merkilegt.
---
Óóójá, svo átti nú aldeilis að taka á því í ræktinni í dag en í staðinn fékk ég mér rauðvín og páskaegg. Ég sver það, við þurfum að fara að sækja um aðra stúdentagarðaíbúð fyrir bumbuna á mér.
---
Mínus vikunnar fær svo hjásvæfan fyrir það að leirtauið var ennþá skítugt í vaskinum í gær þegar ég kom heim. Leirtauið síðan á miðvikudaginn sko. Eins og hann er nú oftast duglegur þessi elska. Ég skal taka það með í reikninginn að hann vissi ekki hvenær ég kæmi; það var nefnilega bara laust flug um morguninn og ég vildi ekki vekja hann
alveg skelþunnan kl. 8. En það er þá klárt mál að hann er ekki duglegur af því að hann er snyrtilegur heldur bara af því að a) hann vill vera góður við mig, eða b) hann þorir ekki öðru. Mér er svosem sama hvort það er.
---
Og þúsund þakkir fyrir allar fallegar kveðjur út af ömmu.