Í gær gerðust þau undur og stórmerki að ég eldaði í fyrsta skipti lambalæri með brúnuðum kartöflum og brúnni sósu. Þó að ég sé orðin þrítug, hafi flutt að heiman fyrir trilljón árum og sé meira að segja vel mellufær í eldhúsinu þá kann ég bara ekki að elda venjulegan, íslenskan hátíðarmat. Mér er alltaf boðið í mat til skyldmenna eða tengdafólks á jólum og páskum og svoleiðis partýdögum þannig að ég hef í mesta lagi hjálpað mömmu með sósuna og svo ekki söguna meir.
Nema hvað að við hjásvæfan áttum þetta fína læri ofan í frystikistu og það var barasta ekki eftir neinu að bíða. Við vorum reyndar með mömmu stanslaust í símanum og hún leiddi okkur í gegnum þetta skref fyrir skref. Svo buðum við Glókolli og Snorra í sunnudagslæri og meððí og Royal-búðing með þeyttum rjóma í eftirrétt. Þjóðlegra gerist það nú varla.
Ég gerðist meira að segja svo kræf að nota sparistellið sem ég var pínd til að byrja að safna þegar ég var í sambúð með öðrum manni (ekki af honum þó heldur ömmu og föðursystrum), en hef aldrei, ALDREI notað. Það er nú bara af því að ég er alltaf á flakki og allt draslið mitt í kössum. Og líka af því að það er rán-fokkíng-dýrt og ég er skíthrædd um að brjóta eitthvað úr því. En það brotnaði ekki neitt og það var bara þrælgaman að borða matinn sinn af svona ljómandi fallegu stelli.
Nú þarf ég bara að læra að elda hamborgarhrygg og þá er ég alveg skotheld.
<< Home