Harmsögur ævi minnar

9.1.08

Þar sem ég bý á 35 fermetrum háir það mér svolítið að ég er með króníska krukku- og boxasöfnunaráráttu. Hér má ekkert kaupa í neins konar íláti án þess að ég skrúbbi og nuddi límmiðana af og geymi svo umbúðirnar, svona til öryggis ef ég færi allt í einu að taka upp á því að búa til rifsberjahlaup eða ógeðslega mikið af kanilsnúðum.

Í gær komst ég í feitt í vinnunni þegar ég sá öll tómu smákökuboxin sem var verið að fara að henda. Einmitt það sem mig vantaði undir heimatilbúið múslí! Ég minntist á þetta við ástmanninn en hann harðbannaði mér að hirða boxin. Ég stalst samt til þess að taka þau í dag... laumaði þeim inn í úlpuna þegar hann kom að sækja mig og faldi svo góssið þar sem ég veit að hann mun aldrei finna það... í óhreinatauskörfunni. Ég er yfir mig ánægð með þetta útsmogna ráðabrugg, en hins vegar verða blessuð boxin sennilega í óhreinatauskörfunni þangað til við flytjum. Það er nefnilega alls ekkert pláss fyrir þau neins staðar.