Harmsögur ævi minnar

13.1.08

Jæja... nýja árið byrjaði ægilega heilsusamlega en núna liggjum við hjónaleysin uppi í sófa, nýbúin að troða í okkur sveittum beikonborgara og ís, með tveggja lítra kókflösku og öskubakka á milli okkar. Kósý. Skvassspaðarnir sem við keyptum um daginn eru strax byrjaðir að safna ryki en það þýðir nú ekkert að gefast upp strax, seiseinei... þetta verður bara tekið með trompi strax á morgun.

Ég get kannski grafið upp gamla eldflaugar-magaþjálfann sem ég pantaði úr sjónvarpsmarkaðinum í einhverju fitubollukasti fyrir mörgum mörgum árum. Þó held ég að pabbi hafi hent honum... enda gerði hann ekki mikið annað en að merja í manni líffærin. Þ.e.a.s. magaþjálfinn ekki pabbi.

Mig langaði líka einu sinni ógeðslega mikið í Tae-Bo spólurnar sem voru til sölu í sama sjónvarpsmarkaði. Fyrrverandi tók það ekki í mál að eyða peningi í svona vitleysu sama hversu mikið ég henti mér grenjandi í gólfið og lofaði að Tae-Bo-ast öllum stundum ef ég mætti fá þetta. Ég er dauðfegin að hann sagði nei og ég er sem betur fer ekki jafn ginnkeypt fyrir svona drasli í dag.

Sérstaklega langar mig ekki í kandíflossvélina í Vörutorgi. Kandíflossvél??? Tilvalin í barnaafmælið... je ræt, glætan að ég myndi leyfa kandíflosskámugum smákrökkum að hlaupa um heima hjá mér og klína út um allt. Bjakk. Má ég þá frekar biðja um hressandi Tae-Bo æfingu.