Ég og hjásvæfan fórum út að skemmta okkur á föstudaginn (einu sinni sem oftar). Við tókum leigubíl heim seint á föstudagskvöldið... tjah, eða snemma á laugardagsmorguninn; eftir því hvernig á það er litið.
Eníhú... ég er búin að komast að því að hjásvæfunni finnst óþægilegt að sitja í þögn í leigubíl og hann virðist líta á það sem heilaga skyldu sína að spjalla við bílstjórann á leiðinni... eitthvað sem ég nenni nú yfirleitt ekki að gera. A.m.k. ekki á leiðinni heim af djamminu þegar maður er dauðþreyttur og lítur út eins og Courtney Love á slæmum degi.
Ekkert að þessu svosem, nema... hvað talar hjásvæfan um á þessum heimferðum? Jú, hann byrjar alltaf að babbla eitthvað um hestöfl, tog og knastása. Ég veit ekki hvaðan þetta bílaröfl kemur því eftir því sem ég best veit hefur hjásvæfan nákvæmlega engan áhuga á bílum; hefur átt eina Micru-druslu á ævi sinni og myndi ekki þekkja spindilkúlu þótt hún sparkaði í rassinn á honum.
Þess vegna er mér alveg fyrirmunað að skilja hvaða karlmennskuflóðgáttir opnast um leið og við setjumst inn í leigubíl. Annað hvort heldur hann að leigubílstjórar hafi ekki áhuga á neinu nema bílum, eða þá að hann er laumubílaáhugamaður og þetta eru hans einu tækifæri til að ræða... ahm, hestöfl og tog við einhvern. Ég held að það sé hið fyrra.
Reyndar var þetta hin besta skemmtun... ég hélt svei mér þá að ég myndi drepast við að halda niðri í mér hlátrinum, enda hef ég bara aldrei heyrt annað eins.
<< Home