Harmsögur ævi minnar

22.3.10

Ég er í frí-krísu (frísu?). Ég var búin að lofa sjálfri mér að fara ekkert til útlanda í sumar. Aðallega vegna þess að ég var í þrjá mánuði að borga kreditkortareikninginn minn eftir ferðina síðasta sumar. Núna er ég samt alveg að drulla í brækurnar, mig langar svo mikið út. Ég er búin að vera að glugga í gegnum orlofshúsasíðuna hjá stéttarfélaginu mínu í von um að sjá eitthvað girnilegt innanlands í staðinn. Ég er reyndar ekkert viss um að það kosti minna og svo er það líka hægara sagt en gert þegar maður er bíllaus. En hvað um það, ég stakk upp á því við Sambó að við myndum leigja okkur hús í Hrísey. Það er örugglega geggjað kósí og rómantískt. Yfir því fussaði hann og sveiaði eins og enginn væri morgundagurinn. Hann væri hugsanlega til í viku á Akureyri... en helst vill hann halda sig við suðvesturhornið. Köfun á Bali verður víst bara að bíða... ætli ég neyðist ekki til að hanga í sjoppunni á Laugarvatni í staðinn. Í sárabætur mun ég leyfa mér að ganga allan daginn í flíspeysu og borða mikið af kokkteilsósu.