Harmsögur ævi minnar

17.6.11

Ég fagnaði víst of snemma. Ég er ennþá með hita og munu stórhættulegar rassamælingar því verða stundaðar áfram á Eggertsgötunni.

Jæja, ég held að ég sé aðeins að skána af hörmulegum veikindum mínum. Það er gott. Aðallega vegna þess að það er viðbjóður að vera veikur en líka út af því að ég hef alltaf svo miklar áhyggjur af því þegar ég er að mæla mig að rassinn á mér herpist óvænt saman og brjóti mælinn. Það er örugglega ekkert gaman að vera með þarmana fulla af kvikasilfri og pínkulitlum glerbrotum. Nú get ég hætt að hafa áhyggjur af því.

15.6.11

Nú er miður júní og í stað þess að njóta fyrstu sumardagana (loksins!) þá ligg ég veik. Þetta er rosa kát pest: kvef og beinverkir og stíflaðar ennis- og kinnholur, og svo óvænt aukaeinkenni á hverjum degi. Í gær fékk ég t.d. niðurgang sem var sérlega hressandi viðbót. Í ofanálag er ég að sálast úr áhyggjum yfir vinnunni af því að þar kemur ekki maður í manns stað... þ.e. allt sem á eftir að gera bíður eftir mér þar svo ég þarf að ráðast á megastafla og 700 tölvupósta þegar mér batnar. EF mér þá batnar.
Litla systir mín ætlar að fara með mig til læknis í kvöld sem mér er meinilla við. Ég held alltaf að ég sé að drepast úr alnæmi eða malaríu eða heilaæxli þegar eitthvað er að mér en hei, sennilega er best að vita það þá strax.