Harmsögur ævi minnar

29.5.08

Loksins, loksins tókst mér að sigrast á helvítis draslinu hérna. Ég tók samt ekkert til, ég tók bara þá ákvörðun að reyna að venjast ruslinu í staðinn. Það gengur bara ágætlega og ég finn hvað ég er miklu afslappaðri. Ég meira að segja finn allt... svona næstum því. Það tekur bara aðeins lengri tíma. Og ef ég finn hreinar nærbrækur í fyrramálið þá gæti lífið hreinlega ekki orðið betra.

28.5.08






27.5.08

Jedúddamía, ég get varla einbeitt mér að því að hanga á netinu með öll þessi æluhljóð í bakgrunninum.

Hjássi er með gubbupest og hélt fyrir mér vöku í alla nótt með hlaupum á klósettið. Það var því sybbin og stúrin Deeza sem mætti alltof seint í vinnu í morgun. Dagurinn var semsagt hálf glataður en þó ekki alveg vegna þess að indverska prinsessan Leoncie kom mér til bjargar með laginu Enginn þríkantur hér. Þetta er svo hryllilega mikil snilld að ég á bara ekki til orð. Sendum hana í Eurovision næst og ekki orð um það meir.

Svo ætlaði ég nú að henda inn nokkrum myndum úr júrópartýinu en ég nenni því ekki núna. Ef ég þekki mig rétt gerist það aldrei. Ef ég ætla að gera eitthvað á annað borð ætti ég sennilega að vaska upp eitthvað af þessu rusli, taka til eða brjóta saman þvott. Nema ég biðji bara skítagerlana um að brjóta saman þvottinn fyrir mig. Það væri aldeilis hentugt. Mig langar í ís.

25.5.08

Váááá hvað það var gaman í gær. Reyndar er ég að drepast úr þynnku og hjássi nennir ekki að fara á lappir og ná í pítsu fyrir mig. Hann liggur bara þarna. Meeeen.

22.5.08

Oooo, ég er yfir mig glöð yfir því að við komumst áfram! Pahhhteeeyy!

21.5.08

Djöfulsins gubbudrulla er þetta veður. Er það nokkur furða að maður dagi uppi í sófanum í fullkomnu andleysi? Eins gott að hjássi fari að drulla sér heim svo að legusárin á mér verði einhvern tímann þrifin.

Eða nei annars... United vann víst þennan leik sem hann var að glápa á svo hann verður blindfullur og leiðinlegur og óóólmur í að segja mér frá öllu í smáatriðum. Geeeeeisp. Best að vera tilbúin með æsispennandi dömubindasögu á móti.

20.5.08

Ég er að horfa á Eurovision-undankeppnina og annaðhvort er ég með svona mikinn athyglisbrest eða öll atriðin alveg ógeðslega léleg... ég er a.m.k. búin að gleyma öllum lögunum og það er ekki einu sinni búið að kjósa.

Samt finnst mér Eurovision skemmtilegt og ég drulluhlakka til að fara í kokkteilapartý á laugardaginn. Það væri náttúrulega skemmtilegra að hafa Ísland með en fokkitt... það eru allir alltaf orðnir blindfullir áður en stigagjöfin byrjar hvort eð er.

Ég hlakka extra til núna því ég hef alltof oft misst af Euro út af einhverjum fáránlegum búsetum í útlöndum. Ég gerði heiðarlega tilraun til að horfa í fyrra. Þá hjólaði ég ofurölvi á pöbb í Cambridge með hollenskum meðleigjanda mínum (eftir að við höfðum hitað upp heima með rommi í hvítvín). Þar náði ég að panta einn bjór og sjá tvær þjóðir gefa stig áður en ég ruslaðist heim aftur á hjólinu og sofnaði í öllum fötunum ofan í kebabið mitt. Classy. Í ár ætla ég að minnsta kosti að komast úr skónum áður en ég drepst með einhvern helvítis skyndibita í fanginu.

19.5.08

Af hverju segir fólkið í sjónvarpinu alltaf Evróvision? Ætti ekki að þýða annað hvort báða helminga nafnsins eða hvorugan? Evrósýn/Evrusýn eða Eurovision? Ætti ég kannski að fá mér ketti og kvennahlaupsbol svo ég verði almennileg nöldurkelling?

14.5.08

Ég er búin að horfa á trilljón þætti af America's Next Top Model og í hvert einasta skipti verð ég jafnhissa á því hvað Tyra Banks er viðurstyggilegt fyrirbæri.

Hún og Rachael Ray eru saman á listanum yfir fólk sem fær stefnumót við hnefann á mér, þegar og ef tækifæri býðst.

13.5.08

Hjásvæfan er uppi í skóla að læra fyrir próf og ég er ein heima...JIBBÍ!!! Ekki misskilja mig... hjássi er svosem ágætur en mér finnst yndislegt að hafa holuna fyrir sjálfa mig. Við erum nefnilega alltaf með nefið ofan í hvort öðru þegar við erum bæði heima, enda svosem ekki annað hægt á öllum þrjátíuogeitthvað fermetrunum. Mikið langar mig að vera með herbergi fyrir mig... dææææs.

Eníhú, þegar maður er einn heima er hægt að rifja upp hin ýmsustu áhugamál eins og t.d. að

...reyna að krækja hnjánum utan um hálsinn á sér (sama í hvora áttina það er)
...reyna að blása sígarettureyk út um eyrun
...reyna (árangurslaust) að finna upp fullkomið flokkunarkerfi fyrir alltof litla bókahillu
...nudda límleifar af ikea-húsgögnum með hreinsuðu bensíni
...setja persónulegt met í að halda niðri í sér andanum
...henda mygluðu grænmeti úr ísskápnum (af hverju ætli það sé aldrei myglað súkkulaði til að henda?)
...láta smella í kjálka og hnjám

Þetta er alveg hreint dásamlegt.

Jæja þá er maður búinn að losa sig við alla óhollustu: út með mjólkurvörur, slæm kolvetni og sykur - inn með gufusoðið grænmeti og þurrar kjúklingabringur. Nei nei, þetta er auðvitað haugalygi. Hins vegar fékk ég mér kók light í staðinn fyrir venjulegt. Ég veit samt ekki hvort það er betra að drepast úr aspartam-krabbameini en kransæðastíflu.

12.5.08

Hollusta smollusta. Ég get ekki látið mig hætta að dreyma um þeyting úr gamla ísnum í vesturbæjarísbúðinni (sem ég veit ekki hvað heitir). Með bounty og smartís... smartísið gerir hann nefnilega svo fallegan og skrýtinn á litinn. Og hann er íííískaldur og yndislegur.

Verst að það er alltaf röð út úr dyrum í þessari pínkulitlu búllu. Ég kann ekki við að standa lengi í röð með geðveikisglampa í augunum til að fá fixið mitt. Sennilega yrði ég fljótari að redda mér heróíni. En ég þori að veðja að það er ekki nærri því jafn gott.

Off I go then...

Í dag er mánudagur og sem betur fer frídagur því ég er rétt að ná mér eftir gærdaginn. Ég gerði semsagt heiðarlega tilraun til að éta mig til ólífis, og er ég þá kannski ekki að tala um magn heldur frekar (ó)gæði draslsins sem ég setti ofan í mig. Það var eitthvað á þessa leið: pítsa, snickers, brauðstangir, kaka, pulsur. Enda hneig ég niður í sófann algerlega orkulaus eftir kvöldmat og svaf í marga tíma. Viðbjóður viðbjóður. Nú er ég búin að taka fram heilsubókina og henda bjórnum og vodkanum úr grænmetisskúffunni í ísskápnum. Þetta gengur ekki.

Annars er það helst í fréttum að ég fjárfesti í bókinni um Dísu Ljósálf um daginn. Hún var alveg jafn hryllileg og mig minnti en samt æði. Ég held að flestir sem lásu þessa bók sem börn hafi skaðast fyrir lífstíð. Hvers konar skítapakk klippir vængi af ljósálfi og rífur gullstjörnuna úr hárinu?! Þvílík illska!




5.5.08

Mikið er lífið óréttlátt. Rauðvín er eitt það besta sem ég fæ en ég get ekki drukkið það án þess að tennurnar í mér verði kolsvartar og viðbóðslegar. Eftir eitt glas í útskriftarveislu frænku minnar í gær leit ég út eins og ég hefði verið í berjamó allan daginn. Eftir fimm glös leit ég út eins og skrattinn sjálfur hefði kúkað framan í mig. Við slíkar aðstæður er algjörlega ómögulegt að eiga í eðlilegum samræðum við fólk þar sem þær snúast bara um það að tennurnar á mér séu svartar. Gaman gaman. Ég verð bara að fara að ganga með tannbursta á mér.