Harmsögur ævi minnar

26.5.10

Ég hjólaði í gegnum Nauthólsvík með Sambó á sunnudaginn. Það var kostulegt. Allt skítstappað af fólki á sundfötum... samt var svona tólf stiga hiti. Það sem vakti hjá mér mestan óhug var þessi ferkantaði heitipottur þarna upp við húsið. Ofan í honum voru svona 130 manns, allir ógeðslega klesstir upp við næsta mann. Svo glampaði á húðfitubrákina ofan á vatninu. Oj bara. Ég er ekki einu sinni viss um að það sé klór þarna ofan í en endilega skellið ykkur út í ef þið hafið lyst (og ef það er pláss). Svo hjóluðum við suður í Hafnarfjörð og viti menn - það er önnur manngerð strönd á höfuðborgarsvæðinu og það í Garðabæ af öllum stöðum. Þar var enginn og allt miklu snyrtilegra. Ég veit samt ekki hvort það er heitt vatn þar. Kannski get ég bara fengið fengið mér kajak og siglt beint þangað heiman frá mér í þessa þrjá daga á ári sem hægt er að liggja í sólbaði á þessu landi.

13.5.10

Mikið var síðasta sumar dásamlegt.


Ég held að þetta sumar verði gott líka.

4.5.10

Ég hef verið svo miður mín yfir þessu klúðri hjá YouTube að ég hef ekkert getað bloggað. Hvernig dirfast þeir að láta myndbandið ekki passa á síðuna mína? Dusilmenni.

Annars var ég að klára bækurnar um Þórberg eftir Pétur Gunnars og datt í hug hvort maður ætti ekki að henda sér í dálítið ítarlegri dagbókarskrif, rétt eins og Þórbergur. T.d. „14:35 Hafði hægðir. 17:10 Fór í klippingu.“ o.s.frv. Það yrði æsispennandi lesning fyrir barnabörnin. 
Ég held nú reyndar óhefðbundna dagbók, eiginlega svona jafnvægisdagatal. Grænt er merkt við daga sem innihalda hreyfingu. Gult er merkt við daga sem innihalda bjór. Stefnan var að grænu dagarnir yrðu fleiri en gulu dagarnir. Niðurstaðan er því miður allt önnur. Augljóslega. Ég verð að hætta að níðast á mér með markmiðum sem ég mun aldrei ná. Eina sem ég uppsker er líf í stöðugu samviskubiti. Ég held hreinlega að ég ætti að taka upp kaþólska trú.