Harmsögur ævi minnar

30.3.09

Í tilefni af því að við fjölskyldan fórum á Austur Indía fjelagið áðan sagði systir mín ótrúlega fyndinn brandara sem var í einhverri Hugleiks-bókinni:

Af hverju er Eyþór Arnalds kallaður Tandoori-ofninn?
Af því að hann söng „Ég brenni Naan í mér“

Barammm tissssj!

29.3.09


Djöfull er slúðurbloggið hjá Perez Hilton slappt maður... algjör æla. Og mikið vildi ég að ég hefði borðað aðeins minna af pizzu/súkkulaðikexi í morgunmat því nú er mér er eiginlega illt í maganum.
***
Gettu Betur hættir ekki að vera snilldin ein... ánægð með MR í gærkvöldi, þó mér sé svosem nokkuð sama hver vinnur, þetta er samt sem áður bráðskemmtilegt sjónvarpsefni. Davíð Þór er skemmtilegur og stigavörðurinn æði. Eva María stendur sig mjög vel þó hún blaðri stundum fullmikið um ekki neitt á milli atburða. Það er sko ekkert hættulegt þó það komi smá þögn. En í heildina er þetta gaman gaman.
***
Sjónvarpslaust líf er svo mikil dásemd. Ég þarf ekki lengur að pirra mig á Rachael Ray, Jay Leno, One Tree Hill, ANTM og öllu hinu ruslinu. Það sem maður vill sjá horfir maður svo bara á á netinu. Ég finn bara hvað ég er miklu stabílli í skapinu. Oj, ég fæ kvíðahnút í magann bara af því að tala um þetta.
***
Tíminn líður á ógnarhraða svo það er ekki seinna vænna að hefja skipulagningu sumarfrís, þó það sé kreppa. Gróf áætlun er svona: Þrítugsafmæli í Graz (Austurríki) - Vínarborg - Tsjill með Sindra í Mílanó - Sardinía. Ég á reyndar eftir að heyra aftur frá sardiníska tengiliðnum mínum í sambandi við gistingu þannig að þetta er allt á teikniborðinu ennþá. En mikið þrái ég sól og sand. Og hvar er vorið?!

22.3.09

Ég veit að það eru örugglega allir í heiminum búnir að sjá þetta en þetta er bara svo dásamlegt. Sú manneskja sem ekki bráðnar við þetta er dáin að innan, dáin að innan segi ég!


21.3.09

Mikið var nú hressandi að sjá á skattaskýrslunni að ég skulda Lánasjóði íslenskra námsmanna tæpar sjö millur. Á móti á ég eldhúsborð, svefnsófa og rándýrt matarstell fyrir sex manns. En það þarf nú meira en svona smotterí til að draga mig niður á ljómandi fínum laugardegi, sei sei já. Nú er bara að drífa sig í bæinn, fá sér kaffi, kíkja í Kolaportið og skoða vínil. Sei sei já.

19.3.09

Sambó lætur sko ekki sitt eftir liggja í kreppunni. Núna í vikunni stakk hann upp á því að við framleiddum okkar eigin súkkulaðirúsínur og rommkúlur. Nú veit ég ekki hvort það yrði mikill sparnaður af þessari nammigerð hjá okkur en hins vegar er alltaf ánægjulegt þegar fólk sýnir frumkvæði.

Cyanide and Happiness, a daily webcomic
Cyanide & Happiness @ Explosm.net

14.3.09

Að ropa lýsi er ógeðslegt. Að ropa lýsi með gervilegu sítrónubragði er hreinasta viðurstyggð.

11.3.09

Í gær lenti ég í vandræðum með fjarstýringuna að bílnum mínum. Ég var að koma úr Bónus með fangið fullt af pokum og helvítis bíllinn vildi ekki opnast. Ég hugsaði með mér að rafhlöðurnar í fjarstýringunni hlytu að vera búnar en ég nennti ómögulega að stinga lyklinum í. Ég setti því pokana á jörðina og ýtti og ýtti á takkann eins og ég ætti lífið að leysa. Það var samt ekki þá sem ég fattaði að þetta var ekki bíllinn minn... ekki einu sinni sama gerð af bíl heldur bara svipaður litur. Nei nei nei, ég fattaði það ekki fyrr en eigandi bílsins sem ég var að reyna að stela kom líka út úr Bónus og benti mér vingjarnlega á það. Mér til varnar var minn bíll í næsta stæði... og þeir voru næstum því eins á litinn.
---
Systir mín elskuleg lánaði mér fyrir nokkrum árum míní-sjónvarpið sem hún keypti sér fyrir fermingarpeningana sína. Þessi sama litla systir flutti að heiman í fyrradag og tók sjónvarpið. Ég missti því af úrslitaþættinum af Top Design í gær og vantar upplýsingar um það hver vann. Vonandi ekki mellan hún Clarissa.

2.3.09

Jæja, ég tók loksins niður jólaseríuna. Eiginlega fannst mér ekki taka því... það eru nú ekki nema tæpir tíu mánuðir í jólin.