Harmsögur ævi minnar

31.3.05

Oj barasta, það réðst á mig hálft risapáskaegg... mér er geðveikt óglatt. Það er út af þessu sem ég reyni að kaupa mér ekki sætindi, mér er gjörsamlega fyrirmunað að fá mér bara smá. Andskotans græðgi alltaf hreint.

Á ég að horfa á CSI eða læra? Horfa á CSI? Þögn er sama og samþykki, bæjó.

Ég er farin að taka upp á því að vefja mér sígarettur... mun ódýrara og betra. Er samt að lenda í hellings vandræðum með vafningana. Ég vafði mér alltaf sígarettur í Skotlandi '97 og man ekki betur en að það hafi gengið bærilega. Núna er þetta algjört klúður og ég virðist ekki ætla að komast upp á lagið með þetta aftur.

Það lítur út fyrir að það sé auðveldara að gera góða sígarettu með pínku óhreinar hendur (upp á rúlleríið sko) en ég er alltaf nýbúin að þvo mér um hendurnar eða vaska upp þegar mér dettur í hug að reykja. Ég fer reyndar á klósettið á hálftíma fresti þannig að það er hæpið að ég sé nokkurn tíma með skítugar hendur. Ég reyndi áðan að skíta út á mér hendurnar með því að nudda þeim á sveitta bletti á líkamanum en það gerði bara illt verra. Það er nóg að reykja ógeðslega ljóta og gisna sígarettu þó það sé ekki svitafýla af henni í ofanálag.

En ég hef mikla trú á því að æfingin skapi meistarann og er sko ekki af baki dottin. Ég er með ýmis ráð í pokahorninu. Að sjálfsögðu megið þið deila með mér upplýsingum ef þið kunnið einhver töfraráð.

30.3.05

0-0. Ætli það sé ekki ásættanlegt... var viðbúin verra. Skítaleikur samt.

....Og svo vil ég líka nota tækifærið og óska móður minni TIL HAAAAMIIIINGJU MEÐ AFMÆLIÐ!!!!

Jæja, Ísland-Skítalía í kvöld. Fer að horfa á leikinn á bar með brjáluðum ítölskum knattspyrnuaðdáendum. Er eiginlega hálf stressuð... ég er búin að stríða þeim óspart á ósigrinum síðasta sumar og hef einhvern veginn á tilfinningunni að ég þurfi að éta allt ofan í mig í kvöld. Serves me right. Djöfull væri annars ógeðslega svalt að vinna þá aftur. En hvar er Eiðsi kallinn?

29.3.05

Þau undur og stórmerki gerðust í dag að veðurgotinn hér til hægri brá sér í stuttbuxur og hlýrabol í fyrsta skipti síðan síðasta haust. Það þýðir að hitinn fer upp í 20°C og ekkert nema gott um það að segja. Reyndar hef ég lesendur grunaða um að fylgjast ekki nógu vel með veðrinu hjá mér (eins og mér finnst sjálfri gaman að fylgjast með veðrum annars staðar). Því hef ég ákveðið að færa veðurgotann lengst upp til að þið komist ekki hjá því að skoða hann.

Svo er ég í dálitlum vandræðum með það hvort ég á að halda veðurgotanum (hann er nú krúttlegur í NIN átfittinu) eða skipta um fíguru... fá mér jafnvel huggulega léttklædda veðurdömu? Hvað segja bændur þá?

Tjah, mér finnst nú líklegast að fólki sé skítsama.

28.3.05

Arg, sumir dagar eru þannig að mann langar hreinlega til að drepa þá. Svoleiðis var laugardagurinn hjá mér. Byrjaði á því að baka marengstertu sem féll (væntanlega af því að Rita klaufi opnaði ofninn meðan á bökun stóð...). Eyddi svo 8 tímum í að spila Axis & Allies og skíttapaði í ofanálag (dýrmætur lærdómstími sem fór þar til spillis). Svo tók þvottavélin upp á því að leysa upp í öreindir einhver tuskuhelvíti sem ég var að þvo og tætlurnar stífluðu allar leiðslur með þeim afleiðingum að íbúðin fylltist af vatni. Seinna ætlaði ég að prenta út glósur en prentarinn gerði uppreisn og prentaði 300 blaðsíður af kvaðratrótarmerkjum og svörtum kössum. Svo í lok dags ætlaði ég að blogga um ófarirnar en þá tók tölvufíflið upp á því að frjósa og allt eyddist út.

Á móti kemur þó að ég átti frábæran páskadag. Fór í matarboð og át hráskinku, salami, heimalagaðar ólívur, ravioli með ricotta og spínati og grillað svín og lamb. Marengstertan vakti heilmikla lukku þrátt fyrir að vera í þynnri kantinum og þetta fór bara allt á besta veg. Eftir matinn fór ég svo að skoða hesta og geit sem hélt að hún væri hundur. Gaman að því.

Nú er bara læri lær á fullu... mér er reyndar illt í maganum af páskaeggjaáti en það hlýtur að líða hjá.

24.3.05

Ég er að reyna að ákveða mig hvort ég á að fara út í bakarí eða ekki. Það er nefnilega bara eitt bakarí hérna nálægt... og það er meira að segja geðveikt nálægt mér en það er e-ð svo krípí fólk sem vinnur þar. Heil fjölskylda af einhverjum vírdóum. Maður gengur inn og þau standa öll (10 manns eða eitthvað) fyrir aftan búðarborðið og glápa. Bjóða ekki góðan daginn eða neitt... glápa bara á mann með X-Files tónlist í bakgrunninum. Eins og Children of the Corn fullorðin. Svo taka þau brauðið upp með berum höndunum púff... og alveg svona lið sem þvær sér ekki um hendurnar og klórar sér í handarkrikunum. En brauðið er reyndar bilað gott þannig að þetta er erfið ákvörðun að taka.

Vesen að vera til stundum.

23.3.05

BEEEEEFCAKE!!!

Djöfull var gaman í eróbikki áðan. Ég er orðin þvílíkur masókisti að það hálfa væri nóg. Love the pain. Ég heyri meira að segja lagið úr Chariots of Fire þegar allt er á suðupunkti.

Er að spá í að slá lán svo ég geti gert það að fullri vinnu í sumar að fara í ræktina. Þá kæmi ég heim með ógeðslega breiðan háls og geðveikislegt augnaráð. Og þyrfti að labba með hendurnar langt frá búknum. Það væri kúl.

22.3.05

Ég skaust út í apótek rétt í þessu til að ná mér í eyrnatappa - þessir helvítis iðnaðarmenn ætla ekki að hætta. Nema hvað að ég ákvað að henda mér á apóteksvigtina sem mælir hæð og þyngd og BMI og ég veit ekki hvað og hvað. Ég hef hvorki þyngst né lést en hins vegar hef ég hækkað um heilan sentimetra. Það eru náttúrulega frábærar fréttir. Hver veit... kannski verð ég orðin nógu stór í vor til að taka þátt í fegurðarsamkeppni. Eða eitthvað.

21.3.05

Ég er bara svei mér þá ekkert að jafna mig á þessari bíómynd. Hef ekkert getað lært í allan dag!

Fór á Million Dollar Baby í gærkvöldi. Guð minn aaaalmáttugur, það hefði nú einhver mátt vara mig við. Gat ekkert einbeitt mér að seinni helmingnum því ég var allan tímann að berjast við að bæla niður ekkasogin. Ég er sko enginn bógur í svona dramatík - það þurfti meira að segja að leiða mig út í bíl eftir myndina því augun á mér voru svo bólgin.

Ég ætla bara á gamanmyndir í bíó héðan í frá. Vissara að taka svona myndir á leigu svo maður geti grátið í friði heima hjá sér.

20.3.05

Óóóóó hvað mig langar í McDonalds.

Hvað er það í þynnku sem veldur því að mann langar alltaf í e-ð steikt og sveitt? Aldrei langar mig t.d. í brauðsneið með tómötum eða kornflex þegar ég er þunn.

Ég ætla að fara og sleikja fituleifar úr pönnunum.

Jaaahssoo... Djöfull vorum við full í gær. Ætla ekkert að ræða það neitt frekar.

Hvaða hálfviti fann upp á sannleikanum eða kontor? Og hvað er að fólki að fara í þann grábölvaða leik? Það býður nú bara hreinlega upp á vandræði.

19.3.05

Vááá, ég bloggaði um það síðasta haust að ég hefði ruglast á augnfarðahreinsi og nakklalakkshreinsi þegar ég ætlaði að þrífa framan úr mér glyðruandlitið og brenndi næstum úr mér bæði augun.

Nú, ég var að lesa gömul blogg frá mér (já þegar maður er búinn að fara blogghringinn 7 sinnum og ekkert í gangi þá byrjar maður bara að lesa gömul blogg frá sjálfum sér, sad but true), og haldiði ekki að sama dæmið hafi komið fyrir mig 2003??? Hvað er þetta maður, spurning um að vera stupid eða stupid. Best að setja stóran hauskúpulímmiða á acetonflöskuna svo þetta endi ekki með stórslysi.

Annars er ég að mygla hérna... nennti ekki að læra því ég vaknaði 5 í morgun, lagði mig svo í klukkutíma fyrir hádegismat og maður verður ferlega skrýtinn af því að sofna svona á daginn. Allur hálf skakkur e-ð. Svo ég hékk bara á netinu og horfði á skautakeppni í sjónvarpinu. En núna er ég náttúrulega með geðveikt samviskubit.

Ætli maður slái þessu ekki bara upp í kæruleysi og hói í Trivial og öl eða eitthvað. Eða vodka, kominn tími á að fá sér almennilega í báðar tærnar. Verst að þetta pakk kann ekkert að fá sér í glas og ég enda alltaf ein full. Það er frábært.

Eða þannig.

Kannski þýðir þetta þá að þetta pakk KANN að fá sér í glas. Hmmm.... þýðir samt ekkert að pæla í því þegar ég er að spila. Ég sturlast alltaf úr metnaði og keppnisskapi og sturta í kokið á mér af jafnmikilli hörku og ég kasta teningnum og pirra fólk með píkuskrækjum. Enda ældi ég einu sinni heima hjá Jóhönnu eftir hálftíma af Actionary... held samt að það hafi meira verið út af spilastressi og offorsa heldur en áfengisneyslu.

Best að blanda vatni í vínið strax svo ég verði mér ekki til skammar.

Ég steingleymdi þegar ég fór í bókabúðina um daginn að kaupa nýtt tímarit til að setja á baðherbergið. Ég er búin að vera að lesa sama Marie Claire-ið síðan í desember.

Anyway... áðan þar sem ég sat á dollunni og gekk örna minna gluggaði ég í sama blaðið enn og aftur og rakst þá á þessa auglýsingu:

London Welbeck hospital
Tel: 0207 224 2242

Breast Re-shaping
Facial Surgery
Liposculpture
Genital re-shaping & tightening

Jedúddamía... ætli margar konur nýti sér þessa þjónustu?

18.3.05

Mmmm... alltaf jafn notalegt að setjast á klósettið og finna að setan er volg eftir þann sem var inni á undan manni.

Fékk smá aur í vasa úr barnapössuninni og ákvað að gera mér glaðan dag með því að kíkja í oggu verslanaleiðangur.

Keypti brauð (gróft og fínt - mætti halda að það væru jólin!), ógeðslega girnilega eftirréttamatreiðslubók á 250 krónur og andlitsvatn.

Þetta með andlitsvatnið kostaði nú smá samviskubit þar sem ég var búin að lofa sjálfri mér að eyða ekki peningum í óþarfa, þar með taldar rándýrar snyrtivörur. En síðan ég hætti að nota áðurgreint andlitsvatn hefur húðin á mér tekið upp á því að unga út bólum í tugavís og núna lít ég út eins og bólótti afgreiðslustrákurinn í The Simpsons. Ég ákvað því að þetta væri vara sem ekki væri hægt að fórna.

Var reyndar hálf nervus að fara inn í snyrtivörubúðina svona útlítandi. Ég fór nefnilega einu sinni í snyrtivörubúð heima og spurði um e-ð gott meik. Afgreiðslukonan svaraði að bragði: "Jááá, ég er eiiiinmitt með frábært meik fyrir óhreina og bólótta húð!". Gee thanks. Ég veit ekki með ykkur en mér fannst nú að hún hefði getað orðað þetta aðeins snyrtilegar.

En ég lenti ekki í neinu veseni hérna, keypti andlitsvatnið og pillaði mér út. Fékk meira að segja prufur. Djöfull elska ég snyrtivöruverslanir sem gefa prufur.

17.3.05

Muniði eftir sögunni um Dísu Ljósálf? Ég á hana einhvers staðar... hef ekki hugmynd um hvar, ef litlu skrímslin systkini mín hafa þá ekki eyðilagt hana eins og flestallt dótið mitt (þar á meðal 12 manna sparihnífaparasett frá Barbie (og eiginlega allt Barbie smádótið), öll Andrésblöð frá upphafi íslensku útgáfunnar til ca. 1992 og allt Playmodótið mitt).

Var nefnilega að lesa um engla, og þá spratt Dísa upp í kollinn á mér. Ég fæ ennþá tár í augun við að rifja upp þegar karlandskotinn klippti af henni vængina... ömurlega sorglegt. Ef ég rekst á hann þá ætla ég að lemj'ann.

Ég er að verða þvílíkt góð í þessu lagningardæmi. Ég hvet allar kellingar (og aðra lagningarfatlaða einstaklinga) að koma sér út úr húsi fyrir allar aldir og æfa sig í ró og næði. Stuð stuð stuð.

15.3.05

Ég vann stórsigur á sjálfri mér í morgun, stórsigur segi ég.

Eins og allir vita geta kellingar ekki bakkað í stæði og er undirrituð þar engin undantekning. Á Íslandi er þetta yfirleitt ekki vandamál þar sem nóg er af plássi og ef maður kemst ekki inn í bakk-stæði finnur maður bara annað sem hægt er að keyra beint inn í.

Annars staðar í heiminum er þetta yfirleitt ekki svo auðvelt og stóð ég einmitt frammi fyrir slíku vandamáli í morgun. Ég var að fara að passa og eina bílastæðið í 5 kílómetra radíus frá heimili barnsins var oggulítið bil milli tveggja bíla sem var lagt upp við gangstétt.

Mín helsta hræðsla í þessari aðstöðu eru viðbrögð annarra ökumanna, sem byrja að flauta og öskra á mann um leið og maður tefur umferðina í 2 sekúndur. Það er sko ekki til að auðvelda manni verkið og ég hrökklast yfirleitt taugaveikluð og niðurlægð í burtu, með tárin í augunum.

Í morgun var hins vegar ró og næði því klukkan var ekki orðin 6 og ekki sála á ferli. Ég hafðist því handa, bakkgír, 1. gír, byrjað frá upphafi, bíllinn fyrir aftan aðeins snertur, bakkgír o.s.frv., o.s.frv... og VOILÁ, allt í einu var ég búin að leggja bílnum fullkomlega í ör-stæðið. Það voru í mesta lagi 3 sentimetrar sitt hvorum megin í næsta bíl; algjör snilld. Ég sá mest eftir því að hafa ekki verið með myndavélina á mér til að sanna mál mitt; mér á sjálfsagt aldrei eftir að takast þetta aftur... hef ekki hugmynd um hvernig ég fór að þessu.

Já, það eru þessir litlu sigrar sem gera lífið þess virði að lifa því.

14.3.05

Fór að passa kl. 6. Komin á fætur stundvíslega 5.10 og allt í stuði. Kom krakkanum í skólann á réttum tíma og var því laus e-ð um 8:30. Ég er með annan bílinn þeirra í láni þessa vikuna því mamman er á Íslandi.

Nú, hefði ég labbað heim hefði ég verið komin um 9-leytið. Á bílskrattanum gekk ég inn úr dyrunum kl. 11:30. Það tók mig fjandans 3 klukkutíma að finna stæði. Argasta helvíti og tímasóun þessar bíldruslur. Sjáum til hvernig gengur á morgun.

13.3.05

Ég er ekki einu sinni komin með BA próf og ég er strax farin að huga að framhaldsnámi. Allt til þess að þurfa ekki að vinna. Ekki það að mér þyki leiðinlegt að vinna, nei nei nei, ekki svona í sjálfu sér.

Það bara fylgir eitthvað svo mikil niðurnegling því að vera í vinnu. Maður þarf alltaf að mæta e-ð á ákveðnum tíma og kemst aldrei neitt og fer í sumarfrí í einhverjar fyrirfram ákveðnar 3 vikur á ári... hrollur. Það er svo mikil endastöð eitthvað. Svo þarf maður að kaupa sér íbúð í Grafarvogi og fá sér bílalán og vera með auka lífeyrissparnað og eitthvað húsgagnadrasl á Vísa-rað og á endanum drukknar maður í einhverju plebbamerbauparketsgubbi.

Ég get ekki hugsað þessa hugsun til enda einu sinni.

Ég er með stíflað nef og hausverk og nú er ég líka með illt í maganum því ég kláraði súkkulaðikökuna (úr afmælinu í gær) í morgunmat. Gott á mig kannski.

Ég ætlaði að glápa aðeins á imbann en það er nú ekki eðlilegt hvað það er ömurleg dagskrá í ítalska sjónvarpinu á sunnudögum. Ég get semsagt valið um: sunnudagsmessuna, stjörnumerkja/spámannsþátt, skíði, fótbolta, fótbolta, fótbolta, mótorhjólakappakstur, umræðuþátt um stjórnmál, fréttir og fræðsluþátt um kafbáta. Kommonn!!! Er ekki hægt að sýna bíómyndir eða ömurlega bandaríska gamanþætti eins og heima??

Svo má nú bæta því við að virku kvöldin eru stútfull af eðal kvikmyndum sem maður annaðhvort gleymir eða má ekki vera að því að horfa á. Allt Berlusconi að kenna örugglega.

Svo er ég að fara að passa á morgun kl. 6!!!! 6!!!!!!!!!! Hólímólí...

12.3.05

Ég sit við skrifborðið mitt og í hvert skipti sem ég anda frá mér kemur svona kuldagufa. Ég er að fokking frjósa. Og orðin kvefuð aftur. Vona að ég nái að halda bragðskyninu fram yfir kvöldmat, við ætlum nefnilega út í pizzu.

En það eru a.m.k. engin skordýr meðan það er kalt. Kannski rykmaurar bara.

Nautsj, ég var komin á lappir tæplega 10 í morgun og skellti mér í bæinn með meðleigjanda. Við gúffuðum í okkur djúpsteiktum bollum með vanillukremi og cappuccino á kaffihúsi og fórum svo í verslunarleiðangur þar sem Stefano, kærastinn hennar Önnu meðló á ammmæli í dag.

Meðleigjandanum (verandi karlkyns og óhæfur til búðarráps) tókst að pirra mig eftir 2 mínútur þannig að eftir að gjöfin var fundin taldi ég öruggast að halda heim á leið til að forðast frekari leiðindi. Merkilegt að geta ekki farið í nokkrar búðir án þess að byrja að röfla eins og smákrakki. Karlmenn.

Svo bætti ég inn nokkrum bloggurum til viðbótar. Check it out. Er líka alltaf á leiðinni að setja inn fleiri myndir en það ætlar að ganga e-ð hægt...

11.3.05

Hvort ætli það sé betra að vera feitur eða hrukkóttur???

Ég er ekki búin að reykja neitt í dag... spurning um að hætta? Fyrir fullt og allt??? Get eiginlega ekki ímyndað mér það, verð svona hálf stressuð við tilhugsunina. Ég er samt að verða hrukkótt og svoleiðis og ekki seinna vænna að fara að grípa í taumana. Við skulum a.m.k. prófa. Held ég eigi súkkulaði e-s staðar ef allt fer til andskotans.

Eitthvað er maður andlaus... geeeeisp. Nenni ekki að læra á föstudegi - hvað er þetta alltaf með e-a deddlæna á föstudagskvöldum?

En gleymdi að segja frá því um daginn að ég fór að grenja úr hungri. Ég var nefnilega að versla í risabúð með meðleigjanda og mundi allt í einu að ég var ekki búin að borða í heillangan tíma (á minn mælikvarða). Ég ætlaði þess vegna að skella mér á McDonalds sem er í sömu byggingu en það var búið að loka. Þvílík vonbrigði. Ég hefði getað sleikt afgreiðsluborðið því ég var gjörsamlega að deyja. Ég bað þá um að henda a.m.k. í mig litlu mæjonesboxi en nei, búið að loka. Við fórum þá á næsta McDonalds með vatn í munni og fitulykt í vitum en var þá ekki búið að loka þeirri helvítis búllu líka!! Og það var semsagt á þessum tímapunkti sem ég fór að grenja og stappa niður fótum. Mjög þroskað... og það er nú heldur ekki eins og maður sé e-ð vannærður! En samt, mér líður bara svo illa þegar ég verð svöng. Kannski er ég bara sykursjúk? Það er sko ekkert gamanmál!

Ojjj, sátum og spiluðum Trivial í gær, sötrandi vín... voða rólegheit. Nema hvað ég vaknaði með þessa hörmulegu þynnku aaarrrggg. Glatað dæmi... það er nú óþarfi að refsa manni fyrir örfá rósavínsglös! Svo var ekki einu sinni til þynnkumatur og ég þurfti að borða brauð, vatn og súkkulaði í morgunmat.

En það er ágætt að fá þetta bara frá, þá getur maður notað helgina í aðra og uppbyggilegri hluti en að liggja uppi í rúmi.

Ég ætla svo aldeilis að fá mér popp og kók yfir CSI í kvöld, rifjaði upp um daginn að það er ógeðslega skemmtilegt að poppa upp á gamla mátann. Ég er geðveikt spennt. Já maður is living on the edge...

Viljiði svo útskýra hvað allir eru að senda mér í ímeili, invitations um e-ð drasl, sms eða e-ð... ég nenni ekki að opna þetta.

10.3.05

Var að ryksuga áðan með gömlu ryksugunni hennar Ritu... það er ógeðsleg lykt af loftinu sem kemur úr pokanum; svona kjötlykt einhver. Kannski ryksugaði hún hundinn.

Hún fékk annars ryksugusölumann í heimsókn um daginn... kom meira að segja með hann yfir til okkar. Hann reyndi að hræða úr okkur líftóruna með háskasögum af rykmaurum sem sitja víst í öllu. Sonur hans var víst nærri dáinn úr rykmauraofnæmi þangað til þau byrjuðu að ryksuga dýnuna hans með þessari ofur-ryksugu. Þetta minnti mig nú bara á söguna sem Dóra frænka sagði mér um e-ð rykmaurapróf sem var framkvæmt heima á Íslandi. Það voru tekin sýni úr 300 rúmum og fundust hvorki meira né minna en 2 rykmaurar; þar af annar stórlega fatlaður og útlimalaus. Það getur varla verið svo hættulegt.

Við létum sölumanninn samt ryksuga rúmið hans Subba (sem var ekki heima). Hann er nefnilega subbulegur og með exem og þurra húð svo það veitti ekki af að renna yfir dýnuna. Við litum nú frekar á það þannig að við værum að bjarga rykmaurunum frá Subba en ekki öfugt. Skelfilegt með þessi grey sem geta ekki borið fálmara fyrir höfuð sér (tala nú ekki um ef þeir eru útlimalausir). Maður á alltaf að vera góður við dýrin.

Spurning um að ættleiða rykmaur? Ég myndi frekar ættleiða rykmaur en hval.

8.3.05

Í dag er víst konudagurinn á Ítalíu. Anna gaf mér blóm en ég gaf henni ekki baun í bala. Nú neyðist ég til að kaupa e-ð handa henni ef ég fer út í búð á eftir. Mjög ósanngjarnt þar sem hún er nýbúin að eiga afmæli og ég þurfti að punga út fullt af pening í gjöf handa henni. Ætli ég splæsi ekki bara í Kinderegg- það er nú voða krúttlegt.

Ætli það sé hægt að fara í undirhöku-trimform?

Veðrið í morgun var: Reykjavík 8°C, Cagliari 2°C.

???

7.3.05

FITUBOLLA!!!!

Ég og Anna sitjum inni í eldhúsi að grúska í tölvunum okkar... hún að vinna og ég að... mmm... já eitthvað svipað. Svona vinna eitthvað.

Við gerðum okkur heitt kakó áðan til að þíða okkur aðeins í gaddinum (við erum líka með kveikt á bakarofninum til að kynda) en það var ekki nógu mikið súkkulaðibragð af því svo við fylltum bollana af M&M í ofanálag. Er þetta eðlilegt? Mann langar alltaf í eitthvað hitaeiningaríkt í svona kulda... þó maður sé með næga einangrun fyrir.

Pantaði flug, heim 20. apríl og út aftur 1. júní. Já ég veit að ég er óþekktarangi að ætla út aftur, eigandi ekki bót fyrir boruna á mér. En ég ætla bara að ýta hugsuninni á undan mér og vona að allt fari vel á endanum. Þetta hlýtur að reddast einhvern veginn. Er það ekki? ER ÞAÐ EKKI????

Jæja, hárlitun fór ekki svo illa eftir allt saman. Þegar ég skolaði litinn úr leit hárið á mér út fyrir að vera ljósappelsínugult með gráum strípum en eftir þurrkun varð það bara venjulega ljóst... eiginlega. Kannski aðeins gult en í öllu falli skárra en ég bjóst við. Svo klippti ég mig og er bara svaka pæja. Júhú!

Ég var að kvarta yfir því við Ritu um daginn hvað hárið á mér væri mislitt. Það var nefnilega mjög ljóst eftir sumarið en það sem hefur sprottið eftir það er bara svona fallega einskis litað; hinn frábæri íslenski sauðalitur. Nema hvað, þetta var nú ekkert stórt vandamál fannst mér... sauðaliturinn er alls ekki ljótur þannig séð... svo þegar sól fer að hækka á lofti lýsast lokkarnir á ný. En Rita tók málin í sínar hendur og keypti fyrir mig hárlit. Ó já... og það sko ekkert hálfkák heldur Nordic Colors: Biondo Platino. Ég fékk taugaáfall þegar ég sá þetta, það er e-r sænsk gála með hvítt hár framan á pakkningunni. Pjúra aflitun... fokk, þetta verður vægast sagt hræðilegt. Nema ég endi eins og Gwen Stefani, það væri nú ekki leiðinlegt.

4.3.05

Æi nú þarf ég að skrifa ritgerð og nenni ekki. Ég er líka algjörlega vansvefta út af þessum helvítis iðnaðarmönnum á hæðinni fyrir ofan. Klukkan 7 á morgnana byrja þeir að bora, negla, skafa og berja. 7 Á MORGNANA!!! Þetta er ekki hægt. Ég á yfirleitt í vandræðum með að sofna á kvöldin en núna er þetta hell því ég er svo stressuð yfir því að þeir vekji mig snemma að ég get ennþá síður sofnað. Ég er sko orðin ein taugahrúga og vafra um íbúðina í náttsloppnum með kaffibolla í einni og sígarettu í hinni (og hárið út í loftið), tautandi og röflandi við sjálfa mig. Það er enginn friður neins staðar. Ekki einu sinni eyrnatappar virka á þennan helvítis hávaða. Ég hata þetta.

2.3.05

En ánægjulegt!

Ég ákvað að vigta mig mér til gamans. Ég vigtaði mig nefnilega í byrjun febrúar þegar ég byrjaði í ræktinni og var nokkuð forvitin að vita hvort einhver árangur hefði náðst. Og þvílíkur árangur... ég hef þyngst um 2 kíló. Jibbí fokking jei. Það er nú ágætt að maður er hvorki að sóa tíma né peningum í líkamsrækt... fussumsvei... held ég færi mig bara aftur yfir í venjulegt kók, svei mér þá. Why does god hate me?

Subbi kom heim í gær. Byrjaði ekki vel... ég gekk inn á hann á klóinu í morgun. Hann var sitjandi. Scarred for life I tellsya. Kannski sat hann því hann vill ekki skíta út með pissuslettum. En miðað við aldur og fyrri störf þá er mér það til efs. Jagra.

1.3.05

Jæja, nú má sko alveg fara að hlýna aðeins. Ég er eiginlega orðin leið á því að sofa alklædd og með húfu. Samt soldið kósí, eiginlega eins og að vera í útilegu. Nema maður er inni. En það er þá væntanlega ekki útilega lengur...