Harmsögur ævi minnar

30.12.02

Jæja þá er árið 2002 að renna sitt skeið á enda. Good riddance segi ég nú bara og reyndar fleiri sem ég þekki. Svona er þetta bara, sum árin góð og önnur ekki. Það verður að hafa það. Það er bara um að gera að hella duglega í sig annað kvöld og langt fram á næsta dag og byrja nýja árið með góðu djammi (og væntanlega ógeðslegri þynnku í kjölfarið). Verst að Nonni er ekki opinn á nýársnótt... það væri náttúrulega snilld að byrja 2003 með sveittum beikondrjóla með auka sósu.
Nýársheitið mitt var reyndar að stunda hollara líferni, borða hollari mat og jafnvel hreyfa mig eitthvað en núna þegar áramótin nálgast óðfluga sé ég geðveikt eftir því. Þetta var góóóð hugmynd í október en núna... tjah! Sjáum til. Ég fer a.m.k. ekki á einhverja hálfvita líkamsræktarstöð í spandexgalla. Kannski nenni ég að labba niður að tjörn og gefa öndunum. Ah well, GLEÐILEGT ÁR!!!!

29.12.02

Jæja....versti bloggari ever ætlar nú að reyna að vera samviskusamari. Hef eiginlega ekkert komist í tölvuna því út um allt hús eru skálar með Nóa konfekti sem láta mann éta sig og þá gleymir maður að maður ætlaði í tölvuna. Annars búið að vera fyllerí á fólki þessa síðustu daga. Unnustinn íhugar nú að senda mig í meðferð; finnst ég e-ð vera farin að halla mér ótæpilega að flöskunni. Það væri nú svosem ekkert vandamál ef leigubíll inn í Hafnarfjörð kostaði ekki fokking kr. 2040.- eins og ég komst að í nótt!!! Þetta verður hins vegar ekki vandamál eftir áramót þegar ég flyt í nýja fína stúdentagarðinn minn og get labbað heim úr bænum. Ég er búin að velja parket og flísar og blöndunartæki og konan hjá Félagsstofnun Stúdenta lofaði mér því að það yrði búið að ganga frá öllu áður en við flytjum inn. Ta ta.

24.12.02

Ekkert getað skrifað. Bara vinna og svo sofa. Ekki það að það lesi þetta einhver hvort sem er. Gleðileg jól!

20.12.02

Ég hélt að ég hefði drepist og farið til andskotans þegar ég heyrði "Hugurinn fer hærra", hið stórkostlega ömurlega jólalag með Íslensku "Dívunum". Skildi ekki og skil ekki enn hvað mótíverar fólk til þess að framleiða svona rusl...og hvað þá pakkið sem hlustar á þetta! En eníhú... Heyrði ENN ömurlegra jólalag í gær - og sá myndbandið með því. Þar var á ferðinni okkar ástkæra Helga Möller með grúppu af jólasveinum. Lagið er semsagt "Jólasósan", eða glataða Ibiza tómatsósulagið þarna með spænska hálfvitastelputríóinu, sem er búið að setja íslenskan texta á og breyta (eins og Íslendingum er einum lagið...) í jú, jólalag. Svo í ofanálag voru e-r krakkaræflar látnir dansa í myndbandinu trademark dansinn og önnur eins kóreógrafía hefur nú bara ekki sést síðan Þorvaldur Konráðsson dansaði nektardans í Hljómskálagarðinum. Þetta er nú það ódýrasta sem ég hef heyrt og séð lengi, aumingja fólkið sem þarf að fara með börnunum sínum á jólaball þetta árið og dansa þennan ömurlega dans. Ef börnunum finnst þetta þá skemmtilegt á annað borð, ég myndi nú gefa þeim meira kredit...
Jæja þarf að preppa mig fyrir Nágranna, seesya.

Varð nú bara að koma því að að ég sá Coldplay áðan á Kaffibrennslunni. Reyndi að glápa ekki geðveikt en stalst þó nokkrum sinnum til að gjóa augunum... maður er nú plebbi ha?

18.12.02

Einhverjir settu inn miður skemmtileg komment um Nágranna hérna í gær. Ég vil bara að þið (og þið vitið hverjir þið eruð) gerið ykkur grein fyrir því að þið eruð komnir á listann minn. Hér talar ENGINN illa um Nágranna.

En svona ef þið voruð að spá í það, þá lítur út fyrir að Libby jafni sig að fullu. Barnið hennar er líka heilt á húfi, er samt ennþá í hitakassa. Ég verð nú samt að segja að þetta er hraustlegasti fyrirburi sem ég hef séð... barnið sem leikur hann er a.m.k. fjögurra mánaða gamalt og finnst mér það heldur slappt og ótrúverðugt.

17.12.02

Engin smááá dramatík hjá Nágrönnum þessa dagana. Woody bara risinn upp frá dauðum og Steph veit ekkert hvað hún á að gera! Libby búin að fæða barnið en er núna í lífshættu. Ég vona að hún lifi þetta af, Drew er enginn maður í að ala einn upp barn. Hann er e-ð svo mikil gufa greyið.

16.12.02

Var að rifja upp atvik sem ég varð vitni að sem var sko miklu neyðarlegra en dettan mín um daginn. Þannig var mál með vexti að ég fór í sund í Vesturbæjarlauginni sem er nú ekki í frásögur færandi. EN þegar ég var í sturtunni á leiðinni uppúr, kom kona inn í sturtuklefann. Hún var semsagt á leiðinni ofan í laugina. Hún sturtaði sig með bros á vör, sjálfsagt hlakkandi til morgunsundsprettsins. Henni hafði þó láðst að taka eftir því að á milli rasskinnanna á henni var klemmdur a.m.k. hálfur metri af klósettpappír. Ég sagði ekki baun, ég meina.... HVAÐ hefði ég getað sagt?? Svo kerlingarræfillinn fór ofan í laugina með pappann hangandi aftan úr sér, en á þeim tímapunkti var hann orðinn soggí og fínn eftir sturtuna. Hvort hann hefur losnað úr henni þegar hún hóf sundið veit ég ekki en get þó sagt með vissu að ekki hefði ég viljað fá þetta í andlitið á mér eða jafnvel upp í mig ofan í lauginni.

15.12.02

Æ æ æ. Af hverju gat ég ekki unnið í helv.... lottóinu. Ég er búin að fá nóg af þessu. Próf fara líka illa með mann. Mig langar bara að henda bókunum og fara í frábært partý með skemmtilegu vinunum mínum og spila kannski smá og detta heavy í það og kaupa mér Nonna. Beikon Nonna. Og dansa soldið líka. Eða a.m.k. fara út úr húsi og hafa tjáskipti við e-n annan en manninn sem ber út Fréttablaðið hjá okkur. Jahá....þetta er aldeilis aumt líf stundum.

14.12.02

Það ættu allir alltaf að vera í fríi í desember. Þetta er fúll mánuður - annaðhvort er maður að vinna allan sólarhringinn eða í einhverjum andskotans prófum. Þetta er auðvitað ekkert líf. Það á bara að slökkva á þjóðfélaginu í desember svo enginn þurfi að stressa sig. Kaffihús mega samt vera opin... þau myndu náttúrulega stórgræða ef enginn væri í vinnunni og allir væru bara að slæpast.

Ætli starfsfólki Frjálsrar verslunar sé ekki boðið á þetta sama jólahlaðborð??

13.12.02

Vissuð þið að starfsmenn Viðskiptablaðsins og Fiskifrétta fara saman á jólahlaðborð? Það er nú svosem rökrétt þegar maður spáir í því þar sem þessi blöð eru eiginlega í sama flokknum... þ.e.a.s. í flokknum Tegundir-af-blöðum-sem-er-alltaf-nóg-af-á-öllum-læknabiðstofum. Ekki veit ég hver sér um blaðainnkaup hjá þessum blessuðu læknum. Eru þessi blöð kannski ókeypis?

Fann tvo góða ættingja til viðbótar sem fóru framhjá mér í gær. Þessir eru meira að segja prestar...ekki amalegt það!

Einar "yngri" Oddsson, 1690.
"Prestur í Borgarfirði, dæmdur frá embætti fyrir barneign. Síðar prestur á Akranesi, en var þá aftur dæmdur fyrir að hafa verið drukkinn við útdeilingu sakramentis."

Jón Torfason, 1657.
"Prestur í Fljótshlíð. Geðbilaður síðustu tíu ár ævinnar og oftast rúmfastur, en er kona hans andaðist 1716, batnaði honum."

Þetta ættartal er því miður rétt. Ég er bara ekki fínni pappír en þetta.

12.12.02

Mamma var að láta mig hafa ættartalið mitt lengst aftur í rassgat. Mér finnst yfirleitt mjög gaman að grúska í svona hlutum en mér var nú hreint ekki skemmt þegar ég kíkti á þetta. Meðal forfeðra og -mæðra minna eru:

Einar Magnússon, 1857, sveitarómagi á Valþjófsstöðum.
Jórunn Jónsdóttir, 1796, fátæklingur á Steinum í Suðursveit.
Guðmundur Bjarnason, 1799, niðursetningur í Ásmúla, Ássókn.

Þetta getur hreinlega ekki verið! Af mörg hundruð manns var bara einn lögréttumaður og einn kirkjumeðhjálpari. Það var nú það besta sem ég fann. Engir fógetar eða forsetar... PUH! Ég verð nú að hringja í þessa svokölluðu "Íslendingabók", þar vinnur greinilega fólk sem ekki er starfi sínu vaxið!

11.12.02

Gleymdi að segja að ég gerði mig að algjörum hálfvita uppi í skóla um daginn. Ég var semsagt geðveikt að flýta mér út úr einni stofunni, greip úlpuna mína, trefilinn, vettlingana og húfuna, henti skólatöskunni á bakið, var með fartölvuna í fanginu og tók svo á geeeðveikan sprett. Það vildi þó ekki betur til en svo að trefilsandskotinn lufsaðist niður og tróð sér undir skóinn minn; ég steig á hann, flaug beint upp í loft og PLAMM! Eins og algjöööör bjáni beint á rassgatið. Ég sýndi þó ótrúlegt snarræði í loftinu - náði að snúa mér aðeins á hlið og forða þannig fartölvunni frá bráðum bana.
Það voru nú sem betur fer ekki margir sem sáu þetta en þeir sem voru viðstaddir hlógu mikið og hátt.

10.12.02

Af hverju getur fólk ekki farið í próf án þess að vera í jogging-galla og með skítugt hárið? Anyone? Það er allt morandi af svona lummuliði uppi í Háskóla. Ég gæti nú barasta ekki einbeitt mér í prófi maskaralaus og angandi af svitafýlu. Subbupakk.

9.12.02

Það er víst einhver bloggari að krítísera Jóhönnu vinkonu mína fyrir að skrifa of flókna texta í bloggið sitt! Það finnst mér nú skrýtið þar sem ég er vel fyrir neðan meðalgreind og skil samt allt sem hún skrifar!

P.s. ef einhverjum er illa við mig þá get ég bent þeim sama á að gefa mér geisladiskinn "Frostrósir" með "Íslensku dívunum". Hef reyndar bara heyrt tvö lög af honum en guð minn góður! Þvílík endemis ÖMURLEGHEIT!!!

Búin að kaupa næstum allar jólagjafir, pakka inn og merkja. Heittelskaður sambýlismaður sá eini sem er eftir. Það vill þannig til að téður sambýlismaður á líka afmæli á jólunum þannig að þetta er alltaf helvítis bögg. Og hver á svosem pening í desember?? Gat hann ekki fæðst í júlí eða eitthvað??!! Ég var svo tillitssöm að fæðast í september þannig að allir eiga afgang af sumarhýrunni sinni þegar ég býð í veislu. Mjög praktískt. Látið ykkur þetta að kenningu verða - þið vetrarafmælispakk!

8.12.02

Þá er maður búinn að baka smákökur fyrir jólin og fínerí. Ég var samt geðveikt fúl því yfirleitt þegar ég baka þá heppnast það svo vel að kökurnar gætu verið á forsíðu Gestgjafans. En ekki í þetta sinn óóóónei. Nú litu þær út eins og einhver hefði hrækt á plötuna, hent henni inn í ofn og bakað of lengi í ofanálag.
Þær eru samt góðar sko... a.m.k. er ég búin að hakka þær í mig og þurfti meira að segja að hneppa frá efstu tölunni á gallabuxunum mínum í gær!

6.12.02

Jæja þá er ég loksins í takt við tímann og komin með mitt eigið blogg og allt saman! Ekkert smá fínt að vera með HTML snilling á heimilinu. Þá er ég að sjálfsögðu að meina minn betri helming. Ekki það að ég eigi neitt heimili... en það er allt önnur saga. Kannski rætist úr því bráðum.