Harmsögur ævi minnar

29.1.09

Nú er ég komin með nóg af kreppu og vonleysi þannig að ég ætla að skreppa til Englands og knúsa Tommann minn. Og drekka helling af bjór og kaupa banka og verslanakeðju. Jedúddamía hvað það verður næs.

Ég hélt reyndar í smástund að einhver leiðindapest ætlaði að eyðileggja þetta fyrir mér... týpískt maður. En svo var nú ekki, nei nei nei, einhver galdrakerling í Manni lifandi tróð mig fulla af dularfullum jurtaremedíum og ég hef bara aldrei verið hressari. Mér líður soldið eins og ég hafi ekki sofið í nokkra daga en engir beinverkir og ekkert hor þannig að fokkitt... ef ég helst hraust yfir helgina þá er ég góð.

Svo vil ég ekki að þið séuð að draga Sambó í eitthvað fyllerí og vitleysu... hann þarf að læra.

21.1.09

Og enn heldur Gísli Freyr áfram.

Ég sá í blöðunum í morgun að viðskiptabankarnir eru að keppast um að bjóða heimilunum í landinu fjármálaráðgjöf. Við erum náttúrulega aumingjar sem ekki kunna að fara með peninga. Piff... held að þeir ættu frekar að halda innanhússnámskeið.

Afskaplega var röksemdafærsla Gísla Freys máttlaus í Kastljósinu í gær. Helga Vala tók hann algjörlega í nefið. Reyndar skil ég ekki hvað Kastljósið var að spá með því að fá hann... maðurinn hafði ekkert að segja og kom málstað sínum svo sannarlega ekki til aðstoðar. Hann hefur hins vegar fullt að segja á blogginu sínu og vil ég eindregið hvetja fólk til að kíkja á það. Og nei, ég held að þetta sé ekki grín.

14.1.09

Úr Beverly Hills 90210 rétt í þessu... íslensk þýðing í sviga:

-Are you alone Kel?
(Ertu ein Kel?)

-No I'm meeting someone.
(Nei ég er að hitta einhvern.)

Þetta þykir mér nú vægast sagt vafasöm íslenska.

12.1.09

Hvaaað er þetta, veit enginn hvort hægt er að nota íslensk kreditkort í Englandi þessa dagana?

Bætt við aðeins síðar: Vá hvað ég er orðin þreytt á þessum Byrs-auglýsingum með Páli Óskari. Ég á líka fullt af eldgömlum fötum og mér finnst það barasta ekkert merkilegt. Og hvaða handapat er þetta alltaf hreint?

11.1.09

Ái hvað það er sársaukafullt að snúa sólarhringnum við. Ég er búin að vera algjörlega svefnlaus vegna þess að ég ríf mig upp klukkan 7 á morgnana en get hins vegar ekki sofnað fyrr en 3-4. Annars hef ég ekkert merkilegt að segja... janúar er alltaf svolítið andlaus og myglaður. Svo dynja á manni endalausar kreppufréttir og að auki bætast við sorgarsögur utan úr heimi og það er bara hálf erfitt að láta sér detta eitthvað sniðugt og skemmtilegt í hug.

Hins vegar ætla ég að skreppa til Cambridge í lok mánaðarins og kíkja á Thomasinn minn og fleiri gamla skólafélaga. Það verður vonandi til að bæta, hressa og kæta. Og í tilefni af því... hefur einhver lent í vandræðum með íslensk kreditkort í Englandi? Eða virkar þetta allt saman?

Ó já, ég ætlaði líka að setja inn nokkrar myndir frá gamlárs (sem var klikkaðslega mergjað) en ég nenni ekki að setja inn nema eina... jólaskrautið starir á mig og vill endilega fá að fara ofan í kassa. Ég elska jólin en það er alltaf ágætt að pakka þessu dóti niður.