Harmsögur ævi minnar

15.10.10

Nú er Airwaves sem er svaka stuð fyrir marga. Ég er ótrúlega óhipp og ókúl og hef bara einu sinni farið, og það með ótrúlega glötuðum árangri. Það var í fyrra. Þá fórum við á svakalegt fyllerí á föstudeginum í Listasafni Reykjavíkur. Röðin á klósettið var sjö kílómetra löng svo ég eyddi megninu af kvöldinu í að míga fyrir utan Grillhús Guðmundar með góðfúslegu leyfi dyravarðanna á listasafninu. Svo varð ég full og dröslaði einhverjum Belgum með mér heim í eftirpartý* og missti þar með af einu hljómsveitinni sem ég ætlaði alls ekki að missa af. Í eftirpartýinu drukkum við vodka og hlustuðum á Botnleðju meðan ég svitnaði yfir því að við værum bara fjögur ("People are coming, I promise! Don't go!"). Á endanum kom eitthvað lið í partý en úllarnir stungu fljótlega af, enda allir orðnir vel sósaðir. Eitthvað sötruðum við fram eftir nóttu og ég var svo skelþunn daginn eftir að ég komst ekki neitt út. Það má því eiginlega segja að þessum peningum sem fóru í miða hafi ekki verið sérstaklega vel varið. Áfram Airwaves!

*Það er spurning með orðið eftirpartý... klukkan var svona 23:00 en þetta var vissulega á eftir einhverju öðru.

2.10.10

Ég held ég verði að hætta að drekka. Jafnvægisskyn mitt virðist eitthvað vera að minnka og þá sérstaklega ef ég fæ mér í glas. Um daginn fékk ég mér afmælisdrykk og var að tala við Sambó á meðan ég hjólaði heim. Vildi þá ekki svo illa til að ég hjólaði beint út í blómabeð og stakkst á bólakaf í rennblauta drullu. Drullan var þó skárri kostur en Tjörnin sem var líka rétt hjá. Í gær var ég svo með góðu fólki að sötra nokkra bjóra. Þegar við ætluðum að rölta af stað frá barnum missti ég hjólið mitt (ég var að reiða það) og datt ofan á það eins og fífl. Það var hrikalega vandræðalegt. Í dag er ég með risastóran bólguhnúð á vinstra lærinu en það er eiginlega bara gott á mig. Klaufabárður Hauksson.