Harmsögur ævi minnar

28.11.06

Ég er komin í Subway-megrun. Muniði ekki eftir Jared sem fór í Subway-megrun og missti 70 kíló eða eitthvað álíka? Mér líst gríðarlega vel á það. Ég er reyndar ekkert viss um að Jared hafi beðið um þrefalt beikon og lítra af mæjónesi á bátana sína en hvað um það, það verður nú að vera eitthvað helvítis bragð af þessu.

Faðir minn hringdi í mig áðan. Hann er alltaf hræddur um að ég sé að svelta þegar ég væli yfir því að eiga ekki pening. En ég svelt eigi, ó nei. Þó að debbinn sé tómur á ég tvö kreditkort með himinháum heimildum og sit í þessum töluðu orðum og borða Babybel osta og Mozartkúlur. Ég þarf samt að fara að eyða minni peningi í bjór. Þó ekki væri nema fyrir þessa hroðalegu vömb sem er farin að hanga yfir buxnastrenginn hjá mér.

26.11.06

Ég þarf sprautu við krónískri leti. Morten kemur að heimsækja mig á eftir og mér finnst ekki taka því að læra í þessa tvo tíma sem ég hef þangað til. Það er rugl og ég er hálfviti. Í staðinn dunda ég mér við það að hita te og reykja margar sígarettur. Auk þess hringi ég í ástmanninn á svona hálftíma fresti. Alltaf yndislegt að spjalla við ástmanninn en fyrir allan peninginn sem við eyðum í símtöl gæti hann sjálfsagt komið að heimsækja mig tvisvar í viku.

Ég er að kúka á mig af peningaáhyggjum. Ég fékk synjun á debbann í hraðbanka um daginn og hef ekkert þorað að kíkja á heimabankann síðan. Og ég á eftir að kaupa allar jólagjafirnar. Það reyndar detta út tvær gjafir í ár því pabbi þurfti að selja tvö yngstu systkini mín til að geta lánað mér fyrir þessum himinháu skólagjöldum. Það er svosem ekkert víst að fólk taki eftir því, þau eru bæði svona semí-rauðhærð þannig að við höfum ekkert verið að flagga þeim neitt sérstaklega. En eins og ég sagði, tveimur gjöfum minna að kaupa, bara flott mál.

23.11.06

Árlega hissukastið: "Hvah! Önnin bara að verða búin?!". Merkilegt hvað það kemur manni alltaf mikið á óvart.

Ég fór á aðalbókasafnið hjá háskólanum um daginn. Hef alltaf látið litla krúttlega deildarbókasafnið duga, en þurfti að þessu sinni að leita að greinum sem ég fann ekki þar. Og óóómægooood... það er huge... HUGE SEGI ÉG!!! Ég þurfti að hringja í Söru sænsku til að koma inn með mér því ég þorði ekki ein inn, enda hefði ég sennilega týnst og síðar drepist úr hungri í einhverri álmunni þarna. Í miðjunni á þessari tröllabyggingu er svo 15 hæða turn sem við megum ekki fara uppí. Erum við því nokkuð viss um þar sé allt klámið geymt.

Síðan er allt brjálað að gera í félagslífinu. Mun hitta Völund á morgun, afmæli hjá vinkonu tattúveruðu, götóttu konunnar á laugardag og Morten hinn danski kíkir við á sunnudag. Og svo var Sara að dobbla mig í heimsókn í kvöld. Það er nú kannski ekkert skrítið að maður komi litlu í verk!

20.11.06

Ég ætlaði að kaupa mér mandarínur í búðinni í dag og þá mundi ég allt í einu að það er til ógeðslega mikið af svona mandarínudóti sem heitir eitthvað annað. Það voru t.d. til sjö tegundir af mandarínu/klementínuættingjum í dag og mér féllust alveg hendur. Ég vil bara eitthvað sem er á bragðið eins og mandarína og er ekki með steinum, mér er slétt sama hvað það heitir. Ég keypti poka af einhverju, vonandi er það gott. Æsispennandi, æsispennandi alveg!

Ég keypti líka poka af hnetum. Utan á honum stendur:

Sainsbury's
unsalted nut selection
-a blend of brazil nuts, almonds,
hazelnuts and peanuts.

Aftan á stendur svo feitletrað og alles:

Allergy advice
Contains peanuts & nuts

Það var nefnilega það.

(Sorrý Jónsi, ég veit að þetta er líkt hnetustangarsögunni þinni, en þetta var bara of fyndið)

18.11.06

Ég get ekkert einbeitt mér að lestri því það eru svo mikil læti í maganum á mér. Ég fékk mér súkkulaði en það lagaði ekkert.

Svo gengur mér ekkert með þessa ritgerð sem ég er að reyna að lesa. Ég les bara: "bla bla bladí bla bla bla". Reyndar hugsa ég að námsritgerðir séu yfirleitt ekki skemmtilegar aflestrar fyrir annan en höfundinn... og kannski tvo, þrjá aðra nörda. En úff og sveiattan. Og Sara ætlaði að reyna að plata mig í ruglumbull í kvöld. Sjáum til, sjáum til.

Hljóðfræðikennarinn minn (eins mikið og ég dýrka hann) hefur greinilega smitast af einhverri illkvitni eftir Harry Potter ævintýrið. Ég fór nefnilega til hans í gær og sagðist vilja skrifa stærri ritgerðina mína um hljóðfræði, og þá helst íslenska. Rauk hann þá á fætur, sagði að það væri lítill tími til stefnu (við eigum að skila ritgerðartitlum á mánudag), plantaði mér fyrir framan tölvu og sagði mér að taka upp fullt af drasli sem ég veit ekki hvað heitir á íslensku. Nú ég tók mig upp alveg hægri vinstri og bjó svo til spektrógröm og mældi alls konar drasl, mjög áhugavert allt saman... EN það var nú föstudagur! Og ég komst ekki heim fyrr en um kvöldmat. Stalst svo út í 3 bjóra með Söru, kærastanum hennar og Tim. En ég má víst ekkert fara út meira, eða svo sagði allaveganna kennarinn. Ekki einu sinni þegar ég fer til Íslands... piff, sjáum nú til með það góði minn.

En nú þarf ég að lesa doktorsritgerð eftir einhvern dúdda í Svíþjóð. Ég veit ekki hvað ég er búin að koma mér í. Helst dettur mér í hug að það hafi verið stór mistök að fara í mastersnám. Sérstaklega svona gríðarlega praktískt mastersnám eins og ég er í. Ætli það séu lausar stöður á McDonalds?

17.11.06

Já og svo komst ég að því í partýinu í gær að hljóðfræðikennarinn minn bjó til snákatungumálið í Harry Potter. Það þykir mér merkilegt. En ég hef reyndar hvorki lesið bækurnar né séð myndirnar þannig að ég get ósköp lítið dæmt um merkilegheitin.

16.11.06

Oj, ég er hálfþunn og viðbjóðslega fúl í skapinu eins og venjulega þegar þannig stendur á hjá mér. Næ ekki í elskhugann í síma til að vorkenna mér og er búin að vera þusandi yfir því við sjálfa mig í allan dag. Enda skil ég ekki að fólk þurfi að vera að hanga í einhverri vinnu þegar ég þarf að tala við það. Og það myndi nú ekkert drepa hann að senda eins og eitt vorkenni-sms.

Svo er fyrirlestur sem mig langar á uppi í skóla eftir hálftíma, nenni bara ekki út úr húsi. Ætli ég hangi ekki bara hérna inni og drepist úr leiðindum.

Update: kærastinn hringdi akkúrat meðan ég var að skrifa þetta. Það gladdi mig óendanlega mikið. Er samt hálf fúl yfir því að hafa ekki gert rassgat í bala í allan dag, en það þýðir víst lítið að velta sér upp úr því...

13.11.06

Um daginn þegar elskhuginn var hjá mér, sátum við á púbb með Tim og Söru (að vanda). Sagði þá Tim blessaður að hann langaði ekkert smá að vera einhvern tímann í Reykjavík yfir áramótin. Ég og elskhuginn tókum nú bara Íslendinginn á þetta og sögðum honum endilega að skella sér... maður var náttúrulega kenndur og þá kemur ýmislegt uppúr manni sem maður spáir svo ekkert frekar í. En hann bara pantaði far fyrir sig og vinkonu sína, bara sisvona! Ég vona svo sannarlega að það verði pláss á sófanum hjá Glókolli þarna rétt yfir áramótin. Ef það reddast þá er þetta náttúrulega hið besta mál.

En það er þá líka eins gott að það verði almennilegt partý - það er ekkert smá sem maður er búinn að gorta sig af því hvað það er alltaf skemmtilegt hjá okkur.

Jæja, þetta hafðist með mikilli þrautseigju og þolinmæði... eins fokking gott því allt kvöldið fór í þetta. Það er semsagt glæný skyggnusýning á mæspeisinu.

12.11.06

Djöfulsins andskotans helvítis helvíti!! Af því ég á nú að vera að læra, þá datt mér í hug að skipta út myndunum á þessari blessuðu mæspeis síðu. Nú ég byrjaði, og þetta tekur óóóratíma því maður þarf að setja eina mynd í einu. Þegar ég er rúmlega hálfnuð þá bara búmm! Slekkur ekki helvítis explorerinn á sér og allt búið. Ég hélt alveg ró minni (enda orðin svo rosalega þolinmóð í ellinni) og byrjaði aftur. Nei nei, ég var alveg að verða búin þegar þetta gerðist aftur. Djöfull var ég fúl... þetta er búið að taka fokking tvo tíma og ekkert... EKKERT! Engar nýjar myndir, bara volæði og leiðindi. Ég ætla sko ekki að reyna aftur... andskotans.

11.11.06

Ég er svo mikið að dandalast alltaf. Er búin að hanga inni í herberginu mínu að horfa á fréttir og Sigtið, borða Subway og smákökur, spjalla við Doktorinn minn í síma, skipta um á rúminu og þvo þvott, ryksuga gólfið og bara alls konar.

Brunaði reyndar á bókasafnið áðan til að ná í tvær hljóðfræðibækur sem mig vantaði svo nauðsynlega... en er reyndar ekki búin að taka þær upp úr töskunni ennþá. Ég man ekki hvað lá svona á.

Ég er líka að spá í að skipta um nafn á hjásvæfunni. Faðir minn kallar hana aldrei annað er piltbarnið og mun ég gera slíkt hið sama héðan í frá.

Slæmu fréttir dagsins eru þær að ég er með bólu á hökunni sem er svo stór að hún býr í öðru póstnúmeri en ég. En mér er skítsama því hún verður löngu löngu horfin þegar ég hitti Piltbarnið um miðjan desember. Og mér verður líka skítsama ef hún verður ekki horfin því ég hlakka svo til að rölta um bæinn í frostinu, drekka heitt kakó og leiðast og knúsast. Verst að Piltbarninu þykir ekkert gaman að hanga í bókabúðum, en ég get svosem alltaf geymt hann á barnum á meðan.

10.11.06

Jessss, nú er ég komin með netið heim og þarf þar að leiðandi ekki lengur að vera með samviskubit yfir því að vera ekki að læra. Neibb, ég get bara skoðað rusl allan daginn. Gleði gleði.

8.11.06

Þá er hjásvæfan komin og farin og skemmtum við okkur bara feykivel. Matur, bjór, keila og skemmtilegheit.

Hápunktur helgarinnar var þegar hjásvæfan var óvart skilin eftir með rúmlega þrítugri þriggja barna móður í eftirpartýi meðan ég og Sara hin sænska vorum á megatrúnói inni í stofu. Nú, kona þessi var skuggaleg nokkuð; húðflúruð frá toppi til táar og með marga lokka í andlitinu. Ekkert að því svosem, en aftur að sögunni. Hjásvæfan og konan sátu semsagt spjallandi inni í herbergi með yngsta barninu, sem var u.þ.b. 3-4 ára, og haldiði að konan hafi ekki bara vippað út júllunum og gefið krakkanum brjóstamjólk eins og ekkert væri sjálfsagðara? Hjásvæfunni leist ekkert á þetta en sagði nú ósköp fátt. Gaman að þessu. Barnið hét líka Gimsteinn Ljósaskipti eða eitthvað svoleiðis... kid's gonna have some issues maður.

Og hjásvæfan getur sjálfri sér um kennt, ég hefði sko aldrei lent í svona skuggalegu eftirpartýi ef hún hefði ekki verið hérna.

3.11.06

Bloggleysi mitt stafar ekki af leti, heldur af því að um mánaðarmót forðast ég hið svokallaða alnet eins og pestina því annars neyðist ég til að kíkja á heimabankann minn.

Fréttir eru helstar þær að þessi hjólabísness er nú kannski ekki eins sniðugur og ég vildi vera láta; ég straujaði næstum því íkorna um daginn þar sem ég brunaði heim úr skólanum og varð um og ó. Svo er ég oft að gleypa pöddur og öll fötin mín eru útötuð í smurningi... ekki það að það skipti miklu máli - ég er nefnilega komin með svo ógeðslega sver og mössuð læri að ég kemst ekki í neitt nema strigasekk. Ég þarf eitthvað að endurskoða þetta.

Svo er ég reyndar með gleðifréttir, en þær eru að hjásvæfan ætlar að koma til mín á morgun og vera í alltof fáa daga. Það verður megasnilld.

Góða helgi lömbin mín... heimabankinn bíður.