Harmsögur ævi minnar

31.8.06

Ég er örþreytt... brjálað að gera í vinnunni og svo er maður algjörlega vansvefta út af Rockstar. Svo er matarboð í kvöld, kviss á morgun og vinnupartý á laugardaginn. Aldrei friður. En samt er ég yfir mig hamingjusöm og ástfangin. Mig langar barasta ekki rass til útlanda.

28.8.06

Herregud! Er sumarið bara alveg að verða búið? Ég er svo aldeilis hlessa. Vinna og starfsmannapartý um næstu helgi, svo afmælispartýið hans Glóa (og mitt örugglega líka) í bústað helgina 15-17, en réttirnar eru auðvitað sömu helgi. Ég hætti í vinnunni 15. og verð einmitt að skila af mér holunni sama dag. Úff. Hvaða bull er þetta, og hver ætlar að hýsa mig þangað til ég fer út?

Er maður ekki bara kominn aftur í vinnu eftir helgina, jibbí jei. Ég var annars að spá í hvort ég ætti ekki að fara að leita mér að húsnæði í útlöndum en ég nenni því varla fyrr en ég fæ úr prófinu. Glatað að vera kominn með eitthvað og þurfa svo bara að fara eitthvað annað.

Annars held ég að þetta verði bara góður dagur. Mánudagar eru svalir dagar. Ég ætla að plata ástmanninn til að elda plokkfisk í kvöld.

23.8.06

Það er brjálað að gera í vinnunni sem er alltaf mjög gott. Það hefur þó ekki hindrað mig í því að finna tíma til að velta mér upp úr því hvað ég er með stóran haus. Hann er bara HUGE!!! Hvernig stendur á því að ég held höfði?

22.8.06

Alltaf er maður nú að lenda í ævintýrum í Kringlunni. Ég varð ótrúlega pirruð áðan þegar fimmta Amnesty-manneskjan stoppaði mig á göngunum í leit að styrkjum. Það væri náttúrulega sjálfsagt að gefa þeim pening ef allt mitt lausafé færi ekki í brennivín og sígarettur. Maður getur ekki leyft sér allt.

Svo kom ég sjálfri mér stórkostlega á óvart skömmu síðar þegar ég var í einhverri draslbúð að kaupa drasl. Sá ég þá ekki þúsundkall á gólfinu og í staðinn fyrir að stela honum rétti ég afgreiðslustúlkunni hann og sagði að einhver hlyti að hafa misst þetta. Ég er greinilega ekki jafn óheiðarleg og ég hélt. Kannski verður maður svona þegar maður vinnur í banka.

21.8.06

Ojojoj, þetta blessaða próf gekk nú bara svona og svona. Ekkert illa svosem en ég er nú ekki viss um að ég nái 110/120. Hvað gera bændur þá? Já maður spyr sig... ég er svosem alveg með inni í öðrum skólum líka og tékka þá bara á því. Og daaajöööfull var þetta langt helvíti! Ég var alveg búin að missa einbeitinguna strax á fyrsta klukkutímanum. Sem er slæmt.

Restin af helginni fór svo í gríðarlega gleði - partý á föstudag og brúðkaup með ástmanninum á laugardag. Og ýmislegt annað undarlegt sem ég ætla nú ekkert að útlista hér.

17.8.06

Á morgun fer ég í þetta blessaða TOEFL próf sem tekur marga klukkutíma og eftir því sem ég get bezt skilið þarf ég að ná 110 stigum af 120 til að komast inn í skólann minn. Ég ákvað því í kvöld að tékka á heimasíðu Hr. TOEFL til að athuga hvenær ég ætti að mæta og þess háttar. Rakst ég þá ekki óvænt á einhverjar spjallsíður og komst að því að fólk er búið að vera að læra fyrir þetta bévítans próf svo mánuðum skiptir. Hvernig í andskotanum lærir maður fyrir stöðupróf í ensku? Það er náttúrulega alltof seint fyrir mig núna að gera nokkuð í þessu, og fokkmí að ég fari að kaupa einhver helvítis æfingapróf. Í staðinn þvoði ég meiköpp-penslana mína svo ég verði nú örugglega sæt á laugardagskvöldið þegar ég rúlla niður Laugaveginn alveg haugafull.

Óska ég hérmeð eftir sjálfboðaliðum til að passa að ég fari mér ekki að voða, þar sem ástmögurinn verður í brúðkaupi lengst úti í rassgati og verður að minnsta kosti í jafnslæmu (og líklegast verra) ástandi þegar hann snýr aftur til siðmenningarinnar.

Að lokum legg ég til að TOEFL próf og Violent Femmes verði lögð í eyði.

Jæja, er ekki einhver til í að sletta úr klaufunum á laugardaginn?

15.8.06

Nú fer að verða of seint að hætta við útlandið. Ég bókaði nefnilega flugfar í gær fyrir mig og hjásvæfuna, en hann var einmitt valinn sérlegt burðardýr fyrir draslið mitt úr stórum hópi umsækjenda. Ég fékk miðana á gríðarlega góðu tilboði hjá Icelandexpress og ætla núna að fara og eyða mismuninum í ógeðslega flotta skó sem ég sá í Zöru áðan. Það er svo ótrúlegt hvað ég er alltaf að spara.

Díses, í gærkvöldi þreif ég baðherbergið og bakaði svo kanilsnúða. Ég skil ekki hvaða djöfulsins myndarlegheit þetta eru. Ætli ég sé ólétt?

13.8.06

Djöh, lenti í rugli á föstudagskvöldið... eða ruglið lenti í mér eins og Snorri snillingur myndi segja. Get samt engum um það kennt nema sjálfri mér og þessum ömurlega félagsskap sem ég er í. Ekkert nema bölvað vesenislið. Það er því ekkert að gera nema kljúfa sjálfa mig í herðar niður með faxvélinni í vinnunni á morgun, þ.e.a.s. ef ég ætla að standa við það sem ég sagði. Hins vegar var þrusugaman svo við sjáum bara til.

Ég bætti þetta reyndar aðeins upp með því að vera öfgadugleg í dag; bakaði köku, straujaði og braut saman þvott og tók til í holunni. Djöfull hata ég samt sunnudaga út af lífinu... algjör viðbjóður. Ef ég hitti einhvern tímann þann sem er ábyrgur fyrir þessum degi satans þá ætla ég að lemja viðkomandi í hnéskelina með felgujárni.

11.8.06

Ég var að tala við fyrrverandi í síma áðan. Hann sagði að ég hljómaði ennþá eins og gamall róni eftir verzlunarmannahelgina. Honum fannst það subbulegt; mér finnst það hins vegar bara mjög sexý. Það er ekkert svalara en að vera með góða viskýrödd. Svo finnst mér alveg nauðsynlegt að maður láti aðeins á sjá eftir almennilegt sukk. Svona battlescars sko. Ég er t.d. ennþá með gríðarlega töff ör á sköflungnum eftir að ég datt ofan í kjallaragluggann um hvítasunnuhelgina. Smart smart.

Þá er þessi ör-vika loksins að klárast. Djöfull ætla ég að liggja í leti alla helgina með beikon og mæjónes í bala og spólu í tækinu. Reyndar langar mig helling að kíkja upp í bústað en ég nenni varla umstanginu sem fylgir því... fara í búð, keyra uppeftir, pakka aftur í töskur o.s.frv., o.s.frv. Það er vesen og stundum er ég bara svo viðbjóðslega löt að ég er steinhissa á því að ég nenni yfirhöfuð að draga andann.

9.8.06

Hólímólí hvað þetta er skuggalega þreyttur dagur. Ég sé fram á það að vikan fari í það að jafna sig eftir ósköp helgarinnar. Og ég á ennþá eftir að taka uppúr töskunum og þvo hundrað þvottavélar og setja allt á sinn stað. Meeen hvað næsta helgi verður róleg... vídeó í mesta lagi. Ég mun drepa hvern þann með sveðju sem dregur mig í eitthvað rugl. Það má bara alls ekki.

Og eitt atriði til ykkar hringingaóða fólks (aðallega foreldrar mínir): Ef ég er ekki búin að svara í símann eftir 57 bíííb, þá er ég ekkert að fara að svara og lítið þýðir að láta hringja út í hið óendanlega. Það er þá spurning um að senda bara sms og biðja mig um að bjalla þegar færi gefst. Takk fyrir.

Ég held ég sé komin í vinnuna... ég sit a.m.k. við skrifborð einhvers staðar. Hugur og líkami eru reyndar langt frá því að vera í toppstandi en það verður að hafa það.

Helgin var bara brjáluð. Okkur tókst að fara aldrei í rúmið fyrir hádegi og gleyma að borða svo dögum skipti, þvílíkt var fjörið. Annars gengu hlutirnir stóráfallalaust fyrir sig, fyrir utan sunnudagskvöldið þegar ég þurfti að fara heim með hjásvæfuna sökum ofurölvunar, og ökuferðina heim, en þá fékk ég svo heiftarlega í magann að ég hélt að ég myndi ekki lifa það af. Guði sé lof fyrir Imodium og viðbjóðsleg þjóðvegaklósett. Úff.

Þetta var semsagt frábært og get ég með sanni sagt að Akureyringar eru snargeðveikir og stórfurðulegir. Restin er óprenthæf, set kannski inn myndir við tækifæri. En eiginlega gleymdi ég alltaf að taka myndir þegar það var eitthvað til að taka myndir af. Fokkitt.

3.8.06

Heja Sverige, búin að fara í ríkið og búin (næstum því) að pakka. Nú er bara að henda sér í klippingu og þá er maður fær í flestan sjó held ég. Þetta verður vonandi gaman. Gleðilega verzlunarmannahelgi allir saman!!!