Harmsögur ævi minnar

27.2.03

Blóð og aftur blóð...

Jæja ég og sambýlismaðurinn lufsuðumst í Blóðbankann í dag (loksins....). Konurnar tóku samt bara sýni og prufur til þess að athuga hvort maður megi gefa blóð. Ég er samt svo mikill lúser að ég fæ örugglega höfnunarbréf.

Konan sem tók úr mér sagði reyndar að ég væri með rosalega fínar æðar þannig að ef ég má ekki gefa blóð þá get ég a.m.k. átt farsælan feril sem sprautufíkill.
Svo fengum við að fara á kaffistofuna frægu... geðveikt girnilegt. Við þorðum samt bara að borða lítið því það var tekið svo lítið blóð úr okkur. Maður má örugglega bara éta í samræmi við það sem er tekið úr manni sko.

Ég er samt ekki ennþá búin að komast að því í hvaða blóðflokki ég er í. Kannski skrifa þau það í höfnunarbréfið. Ég er orðin mjög forvitin, Jóhanna er í A+ sem mér finnst soldið kúl, Haddi er í B- sem er líka svalt því það er geðveikt sjaldgæft. Þröstur í B+ sem er svona la la og Guffi í O+ sem mér finnst ekkert sérstakt. En hann er í einhverjum sjaldgæfum undirflokki (að hans sögn...). Fleiri veit ég ekki um þannig að ef þið nennið megið þið kommenta mér blóðflokkinn ykkar hérna fyrir neðan. Líka þið foreldrar mínir ef þið lesið þetta því þið hringið aldrei í mig svo ég geti spurt ykkur. Þá get ég séð hvar ég lendi kannski.... pabbi þú varst nú að monta þig af því að vera eitthvað sjaldgæfur var það ekki?

26.2.03

Annars ætla ég að troða mér í heimsókn í kvöld og horfa á ER. Ég er ekki búin að sjá einn einasta þátt í marga mánuði. Þegar ég bjó heima hjá pabba mátti ég heldur eiginlega ekki horfa á þá því honum fannst þeir svo heimskulegir og leiðinlegir. Ég held samt að hann hafi bara verið hræddur við blóðið.

Anyway... Aðdáun mín á þáttunum er ekki síst að þakka karlpeningnum í þáttunum sem er ansi hreint sexý. Þar eru þó fremstir meðal jafningja króatíska kyntröllið Dr. Luka Kovac og félagi hans poor-little-rich-kid Dr. John Carter. Þeir eru ótrúlega klárir læknar og geðveikt kynþokkafullir. Annað eins hefur ekki sést síðan Dr. Doug Ross hætti að gleðja augu okkar á skjánum.

Dýralæknirinn vinkona mín kommentaði um myndina hér fyrir neðan og þykist geta séð að hér sé konuhestur á ferð. Ég trúi nú ekki að það sé bara hægt að sjá það sisvona. Getur ekki einhver rifist yfir þessu og komið með rök fyrir því að myndin sé af karldýri?

25.2.03


Bandvefsmyndun í gömlum merum (don't get smart now - ég er ekki að tala um mig)

Charlotta æðislega vinkona mín kemur heim um páskana JIBBÍ!!!
Svo er nú gaman að segja frá því að hún ætlar að gera doktorsverkefnið sitt í dýralækningum um bandvefsmyndun í leginu hjá gömlum merum.
Ég spurði nú Chazz hvað bandvefur væri og þá er það víst húðin sem kemur þegar maður fær ör. En ef hann myndast í leginu á blessuðum merunum þá geta þær ekki eignast folöld.
Sem er slæmt og löngu tímabært að einhver fari að athuga þetta mál.


Mig langar svo í bíó. Er e-r búinn að sjá þessa Ring þarna?

Það er gaman í bíó. Þar getur maður líka keypt sér nammi. Eins og ég hef áður bent á er nefnilega geðveikt langt í næstu sjoppu heiman frá mér. Annars ekkert í gangi. Meira að segja rykinu leiðist heima hjá mér.

Hvernig er það með þetta veður, getur það ekki hoppað upp í rassgatið á sér?

24.2.03

Svangur.

Jæja loksins búin að fá lykilorðið í Íslendingabók en fann svosem ekkert til að tala um. Er bara skyld öllum í 7. - 10. ættlið. Mér létti þó að sjá að ég og Tobbi erum bara skyld í sjöunda, ef við eignumst börn þá verða þau a.m.k. ekki með aukafót út úr bakinu eða eitthvað álíka.
Það hefði nú verið gaman að uppgötva að maður væri þremenningur við e-n vin sinn. Svona e-ð til að spjalla um sko. Ég held áfram að leita.

23.2.03

Ekkert smá gaman í afmæli hjá Óla um helgina, æðislega góður matur og svona.
Svo var líka gaman að fá loksins að spila nema liðið mitt tapaði tvisvar í Gettu Betur. Ég man bara svei mér þá ekki hvort ég hef einhvern tímann verið í vinningsliðinu í því spili... ég held bara ekki. Ég fékk þó smá uppreisn æru undir morgun þegar ég vann afmælisbarnið og Frist í Triviali með því að giska á að það væru milljón attí e-ð í einu nanó e-ð.
Við vorum nú samt aðallega fegin að klára helvítis spilið, þetta var nefnilega gamla Trivialið og þær eru nú ansi strembnar sumar spurningarnar. Við vorum örugglega í þrjá tíma með þetta eina spil. En áfengisdrykkja og kjaftagangur hefur kannski hægt aðeins á okkur. Samt gaman.

21.2.03

Robert Townsend er nú bara fyndinn gaur.
Þorsteinn Guðmundsson er líka ógeðslega fyndinn.
En Íslendingar eru hálfgerð fífl.

20.2.03

Haldiði að ég hafi ekki bara fundið mynd af hæstvirtum Bjórmálaráðherra á netinu!

LEIÐRÉTTING

Hæstvirtur bjórmálaráðherra hefur bent mér á fáránleika spurningar minnar hér fyrir neðan. Ég verð bara skella skuldinni á langvarandi daglega brennivínsneyslu og almennt febrúarþunglyndi. Ég skal því umorða: Af hverju er Rh + algengara (N.B. hjá ÖLLUM) en Rh - ?? Og hvaða máli skiptir þetta annars?

Takk fyrir og afsakið enn og aftur heimskuna, en eins og ég var áður búin að útskýra eru forfeður mínir og -mæður eintómir niðursetningar, ómagar og geðsjúklingar svo það er kannski ekki við miklu að búast af manni.

Ja hérna! Var að lesa á doktor.is að aðeins 15% kvenna eru Rhesus neikveiðar, semsagt í - blóðflokki. Eru þá flestir karlmenn í + ? Og af hverju?

Blóð

Í næstu viku ætla ég að fara í Blóðbankann.
Það er sko alveg rétt sem Spörri Sjeríós segir að það er borgaraleg skylda allra sem það geta að gefa blóð. Maður veit aldrei, kannski þarf maður einhvern tímann að fá blóð og yrði þá feginn góðmennskunni hjá öllum sem hafa látið pumpa úr sér í gegnum árin.

En svona fyrir utan það þá er ég líka svo ógeðslega forvitin að vita í hvaða blóðflokki ég er. Það er nú bara hálf asnalegt að vera 25 ára og vita ekki í hvaða blóðflokki maður er.

Ég vildi að ég ætti kökuform og pönnukökupönnu og vöfflujárn. Þá þyrfti ég aldrei að fara út og þið gætuð öll alltaf komið til mín í kaffi og með því. Vöfflur með rjóma og súkkulaðikaka mmmmm.........

Nú þarf ég að fara að berja manninn sem ber út Fréttablaðið hjá okkur. Það er aldrei komið fyrr en tíu eða ellefu! Á meðan sit ég bara með tóman kornflex disk því ég nenni ekki að lesa aftan á mjólkurfernuna í þúsundasta skiptið. Og það er ekki hægt að borða morgunmat án þess að lesa e-ð. Eða sko.... EF ég væri vöknuð sæti ég og biði. En það er ekki málið. HANN veit ekkert hvenær ég vakna. Ég gæti farið á fætur klukkan hálf sjö for all he knows. Og þá myndi ég vilja fá Fréttablaðið mitt.

19.2.03

Kærastinn minn bauð mér á uppistand á föstudaginn með engum öðrum en snillingnum sem gerði Meteor Man. Hann var sko örugglega með samviskubit yfir öllu þessu fyrirsætustússi.
Hann fékk reyndar miðana ókeypis en það er víst hugurinn sem gildir. Það er sama hvaðan gott kemur...

Calendar-girl
Nú er hjásvæfill minn orðinn ástfanginn af einhverri austur-evrópskri fyrirsætu. Kartika heitir hún og er svona page-three slut. Er eiginlega bara fræg fyrir að gefa út dagatöl með sér fáklæddri. Þurfti örugglega að láta taka brjóstamyndir af sér til þess að fá landvistarleyfi á Ítalíu þar sem hún býr núna.
Bara að segja þér þetta Kartika: ef þú kemur nálægt kærastanum mínum ertu dauð!

Friðsemd frænka (sem var týnd en er núna komin í leitirnar) var að tilkynna mér að önnin væri hálfnuð og því komin tími til að læra eitthvað áður en prófin byrja. Ansans ári! Hálfnuð??!! En en en... hvar er ég eiginlega búin að vera? Þetta er rosalega skrýtið mál. Og ég er sko í engu stuði til að setjast við lestur. Ég er hins vegar í miklu stuði til að spila GETTU BETUR sem ég býst fastlega við að verði gert í afmælinu hans Óla um næstu helgi. Ég verð að vinna í þessu helvítis spili... ég held að ég hafi alltaf verið í tapliðinu. En það er þá auðvitað hinum að kenna að við töpum. Jú jú. Ég er rosa klár sko, ég næ bara svo sjaldan að láta ljós mitt skína. Svo hægir rauðvínið oft á manni. Ææææi hvern er ég að blekkja. Ég veit ekki baun í bala.

18.2.03

Af e-m ástæðum hef ég fundið lífsgleðina á ný. Var bara í skólanum og PÆNG! Fór að brosa eins og bjáni. Er núna full af metnaði og ætla að ryksuga, þvo þvott og læra.

Vá hvað mig langar í Sims! Ég er ekki búin að spila hann lengi lengi og ég er að verða veik ég sakna hans svo mikið.... Ég var nefnilega alltaf að spila hann heima hjá pabba mínum en á endanum held ég að við systkinin höfum ofspilað hann því hann henti manni bara út úr tölvunni í tíma og ótíma. Leiðindi smeiðindi. Ef einhver kaupir Sims og fattar þegar hann kemur heim að hann langar hreint ekkert í hann þá má sá hinn sami gefa mér leikinn. Takk takk.

Nú er ég alveg búin á líkama og sál, get ekki setið kyrr (eða staðið ef því er að skipta) í fimm mínútur án þess að sofna. Þetta er farið að minna ískyggilega mikið á ár mín í Menntaskólanum í Reykjavík. Þar var einmitt mikið sofið en lítið lært, og árangurinn eftir því. Ég þrái þá andlegu örbirgð sem stanslaust sjónvarpsgláp veitti mér einu sinni. Þá gat maður dreift huganum almennilega og þurfti aldrei að hugsa neitt. Nú er ég ekki með sjónvarp og er þess vegna dæmd til að sullast í sjálfsvorkuninni. Vei mér. Mín næstu áform eru að stofna hvíldarheimili/heilsuhæli fyrir örþreytta stúdenta. Leirböð og nudd og svona. Á eyju í Kyrrahafi. Djöfull væri nú ljúft að stinga af í eins og mánuð.

17.2.03

Aaaahh djöfull hlakka ég til að horfa á e-a grútleiðinlega þriggja tíma artí fartí ítalska bíómynd á eftir... einmitt það sem maður nennir að gera á mánudegi dauðans. Ég vil bara liggja fyrir a.m.k. fram á miðvikudag. Legg til að það verði svissað á dögum þ.e.a.s. að helgarnar verði fimm dagar og aðeins tveir virkir dagar í viku. Maður er nefnilega oft svo þreyttur. Hvað er ég að segja? Ég er í skóla og get bara skrópað!!!

Djöh...! Aftur fjórir dagar á milli blogga! Ég er náttúrulega versti bloggari ever. En það skiptir ekki máli - það gerist hvort sem er ekkert. Systkini mín gistu hjá mér á föstudagskvöldið og ég bakaði fullt því á laugardaginn komu ömmur mínar í heimsókn að skoða íbúðina. Svo fór ég í ítölskupartý um kvöldið og dansaði lengi lengi. Já þannig var nú það!

13.2.03

Jæja, eyddi svolitlu í IKEA og er bara ekki frá því að mér líði betur. Ég veit samt sem er að þetta er hamingja sem á ekki eftir að vara lengi, eða u.þ.b. þangað til ég skoða VISA-yfirlitið á netinu. Ég verð því að leita annarra leiða til að finna týndu gleðina. Góður matur og sælgæti klikkar aldrei, best að snúa sér að því af fullum krafti.

Jæja... nú er svo komið að ekki einu sinni beikon hressir upp á anda Deezu. Vil ég skora á ykkur vini mína að senda mér brandara og annað gleðiefni. Ætla reyndar að fara í IKEA og sjá hvort smá peningaeyðsla í hinu sænska musteri gleðji mig. Annars er það bara landflótti.

11.2.03

Þá er búið að setja nýja fyllingu í tönn dauðans. Og hvað kostuðu herlegheitin? Jú, rúmar sex þúsund krónur takk fyrir! Ég hef það alvarlega á tilfinningunni að það hafi verið leikið á mig. Munið nú að hugsa vel um tennurnar á ykkur börnin góð! Og alltaf að nota tannþráð.

10.2.03

GLUTTONY

Guð er byrjaður að refsa mér fyrir syndir mínar. Hverju byrjaði hann á? Jú gömlu góðu græðginni. Þannig var mál með vexti að ég var að versla í Krónunni með hjásvæfu minni og það var stór stafli af konfekti á afsláttarverði um leið og maður kom inn. Ofan á staflanum var opinn kassi til að maður gæti smakkað konfektið. Tobbi smakkaði og ég ætlaði líka að smakka en gat ekki látið mér nægja einn mola og laumaðist til að taka tvo. Og viti menn... í refsingarskyni losnaði silfurfylling úr einum jaxlinum og þegar ég læsti tönnunum í konfektið fékk ég þvílíkan sársaukastraum í gegnum allan líkamann að það hálfa væri nóg. Fari það grábölvað. Ég er nú sem betur fer að fara til tannsa á morgun; ég er búin að þurfa að borða allt nammi bara hægra megin í nokkra daga. Eini gallinn er að nú þarf ég að borga honum morð fjár til þess að gera við eitthvað sem hann gerði illa í upphafi. Eða annars hefði fyllingin ekki losnað eða hvað?

Ætli maður blaðri ekki eitthvað. Ég verð nú að segja eins og Jóhanna...ég er orðin hálfleið á þessu bloggi. Hún er líka að fara að hætta sniff sniff. Sjáum til....

Annars er svo ógeðslegt að reyna að lifa í svona veðri - maður á svaka bágt. Ég og Tobbi erum þess vegna lögst í híði og fórum og keyptum okkur beikon og franskar til að setja í frysti og stórt stykki af parmigiano og nokkra mozzarella. Svo ætlum við að liggja heima sofandi (ég skrópaði einmitt í morgun svona til að þið vitið að mér sé alvara) og ef við vöknum þá fer annað hvort okkar (jú...sennilega Tobbi) og nær í ost og beikon og við tyggjum það þar til það líður yfir okkur aftur. Svo má einhver hringja í okkur í maí - júní til þess að segja okkur að kjarnorkuveturinn sé genginn um garð. Þá förum við að vinna og eigum péééééninga!!!

6.2.03

Svo vil ég hvetja alla til að skrifa í gestabókina mína. Ég veit að það er bölvað bögg en það tekur enga stund og mér finnst þið svo fyndin.
Ef þið hafið ekki skrifað vegna þess að þið kunnið það ekki þá ýtið þig bara á "Sign My Guestbook" með bendlinum. Það er skrifað með rauðum stöfum hér til vinstri fyrir ofan commentakassann.
Takk fyrir.

P.s. Og Jóhanna þú mátt skammast þín. Ég hélt að þér þætti vænt um mig.

Ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarið hvað hafi orðið um hæstvirtan bjórmálaráðherra. Var ég næstum því viss um að téður ráðherra stundaði nám við Háskóla Íslands eins og undirrituð en þó hafði ég ekki orðið hans vör síðan í byrjun janúar. Rakst síðan á kauða reykjandi upp við ógeðs-Lögberg í dag og brá svo mikið að ég gleymdi að spyrja hvar hann hefði alið manninn. Mér þykir nefnilega vænt um bjórmálaráðherra því hann er líka frændi minn. Því vil ég biðja hann ef hann les þetta að minna mig á næst þegar við hittumst að spyrja hvað sé títt.
Og svo er líka óhollt að reykja. Og dýrt.

Þá er að byrja ótrúlega skemmtilegt tímabil í Háskólanum: KOSNINGAR!!!
Það er ekkert eins skemmtilegt og að fylgjast með stúdentapólitíkinni á vorin. Öll dagblöð landsins fyllast af greinum frá uppskrúfuðu og ömurlegu liði um það hvernig þau ætla að bjarga Háskólanum á undraverðan hátt og hvað hinn flokkurinn er nú búinn að standa sig illa. Ég verð nú að játa það að ég sé engan grundvallarmun á baráttuefnum þessara hópa. Það ætla nefnilega allir að:

Hækka námslán.
Auka framboð af stúdentaíbúðum.
Auðvelda börnum stúdenta að komast inn á leikskóla.
Gera Háskólann að fjölskylduvænu samfélagi.
Auka námsframboð.
O.s.frv. o.s.frv.

En þetta á að takast án þess að innheimta skólagjöld við HÍ. Ég veit semsagt ekki hvaðan peningar eiga að fást til að framkvæma þessa hluti. Enda virðist manni sem þessar stjórnir geri yfirleitt voða lítið annað en að stofna e-r nefndir sem svo gera ekki neitt. Og þó - það eru nú haldin nokkur bjórkvöld þar sem Vöku-liðar fá að fara í jakkaföt og hinir róttæku Röskvu-liðar í lopapeysurnar sínar.
Ég las nú í e-m háskóla flyer að von væri á nýju framboði þetta árið...við bíðum spennt.

5.2.03

Jæja nú fer mann að langa til að taka í spil. Mig minnir að það hafi ekki verið spilað síðan á jóladag og er það fulllangt. Minn ofurtapsári og metnaðarfulli inner-self skorar hér með á einhvern að plana slíkt kvöld innan tveggja mánaða. Ég nenni nefnilega ekki að gera það sjálf....

4.2.03

Friðsemd þó! Þú ætlaðir að vera heima á föstudagskvöldið!!!

Lamdi gesti og starfsmenn

"Aðfaranótt laugardags hafði lögreglan afskipti af ölvaðri konu sem reyndi að sparka í starfsmenn og gesti eins skemmtistaðarins í miðborginni. Var henni ekið til síns heima."
Fréttablaðið 04.02.03

Skammastín bara.

3.2.03

Djööööfull eru mánudagar fúlir maður!
Ef ég ætti ekki kúrekaminningarnar síðan á föstudag þá myndi mér hundleiðast! Og í beinu framhaldi af því þá tók það mig þrjá daga að greiða úr hárinu á mér eftir partýið. Það er nú erfitt venjulega en eftir túperingu er það horror. Ætti ég ekki bara að krúnuraka mig? Kann ekki að setja inn könnun en þið getið bara svarað þessu beint!

1.2.03

Jæja mamma reddaði nú aldeilis kúrekaoutfitti fyrir gærkvöldið.... kom færandi hendi með þessi fínu kúrekastígvél (sem voru ekki einu sinni neitt drasl heldur bara Ecco-gæðaskór takk fyrir!), æðislega skyrtu, brúnt vesti og tóbaksklút um hálsinn. Hana minnti meira að segja að hún ætti spora e-s staðar en fann þá því miður ekki! Svo ég skellti mér í múnderinguna, girti gallabuxurnar ofan í bootsin, túperaði á mér hárið (þið munið kannski eftir Hófí-vængjunum...) og setti vel af andlitsfarða í ýmsum litum. Svo í ofanálag skutlaði hún mér í partýið svo ég og rauðvínsflaskan kæmumst heilar á húfi á áfangastað. Já hún mamma mín getur nú verið mesta gæðablóð!

Nema hvað að ég mætti galvösk í veisluna, það var enginn mættur sem ég þekkti en það sem verra var er að það var enginn í kúrekabúningi!!! Gestgjafinn Tinna var reyndar í kúrekagalla og seinna um kvöldið kom stelpa með kúrekahatt. Andskotans pakk! Ef það er þemapartý þá auðvitað klæðir maður sig eftir því - annað er nú bara glataður mórall! Mér leið hálf afkáralega svona ein í búningi - soldið eins og Bridget Jones þegar hún mætti í garðveisluna í Playboy-bunny fötunum. Ég reyndi því að láta lítið fyrir mér fara en það tókst ekki því það glumdi í cowboy stígvélunum við hvert fótspor.

Við enduðum svo bara á því að skemmta okkur þrælvel og hinir voru frekar sauðslegir yfir því að hafa ekki komið í uniformi. Það er heldur ekkert annað að gera í svona stöðu en að stinga þumalputtunum í buxnastrenginn og línudansa inn í nóttina eins og versta hjólhýsapakk. Og kæra sig kollóttan um annarra álit.