Harmsögur ævi minnar

30.10.04

Er ekki eitthvað undarlegt ef það er 94% raki í andrúmsloftinu? Ekki skrýtið þó maður sé hálf tuskulegur.

En að öðru...
Mér líður stundum, t.d. núna, skringilega eftir að hafa étið McDonalds... best að leigja Supersize me við tækifæri. Ég er ekki viss um að þetta sé holl fæða þó það standi á diskamottunum. Forheimskandi. A.m.k. er starfsfólkið algjörlega tómt í augunum og svo hægt stundum að ég gæti farið út í sveit, keypt naut, slátrað því og hakkað kjötið í borgara áður en ég fæ helvítis menjúinn. Svo stendur þetta bara og gapir ofan í djúpsteikingarpottinn. Hver veit hvar þeir finna staffið sitt. Undarlegt... Enda var einu sinni massíft hár í borgaranum mínum hérna. Einhver aulinn gleymt að setja á sig hárnetið því hann var að pota í naflann á sér með röri. Ég fór með borgarann til baka til að fá nýjan og fékk ekki einu sinni ís í kaupbæti eða neitt. Bara glápt á mig með sama tóma augnaráðinu.

En nú er kominn tími til að skella sér í pah-teeee.

Fór á pöbbinn í gær, drakk 3 gin og tónik og var alveg vel létt. Og að dreeeepast úr hausverk í morgun. Maður er nú orðinn meiri helvítis auminginn. Þolir ekkert. Enda bauðst ég til að vera bílstjóri í kvöld.

Var spurð ráða af þremur kunningjum. Frönsk stelpa hafði víst hringt í einn þeirra til að spyrja hvort hún mætti koma og heimsækja hann (til að sofa hjá honum sögðu þeir því einn þeirra er með vinkonunni og vissi meira). Hann var alveg ráðalaus greyið því hann vissi ekki hvort hann vildi sofa hjá henni. Karlmenn.

29.10.04

Fékk tölvupóst frá pabba mínum um daginn sem byrjaði svona: Halló litli kútur. Ég las hins vegar: Halló litli KÚKUR. Mér fannst það ekki skemmtilegt.

Er annars bara hálflasin, ligg yfir sjónvarpinu með heita aspiríndrykki og súkkulaði. Hundleiðinlegt. Hugsa að ég fari samt út í kvöld. Ég bara verð að komast út úr húsi. Heyrði í Doktornum mínum áðan, það var snilld.

Svo er ég búin að setja inn veðurpönkara, okkur öllum til mikillar gleði væntanlega. Eða a.m.k. mér til mikillar gleði þegar þið getið séð hvað er heitt hjá mér meðan þið þurfið að vera í öööömurlegu veðri á Íslandi. Nei ég segi nú bara svona... eins og áður hefur komið fram fer ég lítið út úr húsi þannig að þetta skiptir engu máli. Svo er líka oft of rakt. Jæja, fokk it, farin að finna einhvern til að kíkja á pöbbinn.

28.10.04

Ég var að koma út af kínverskum veitingastað um daginn og hvern haldið þið að ég hafi rekist á? Engan annan en Gigi Riva. Það er allt morandi í celebs hérna, fyrst Zola og nú þetta. Hver verður það næst? Michael Jackson?

27.10.04

Ég hélt ég myndi aldrei segja þetta en ég held að ég hafi étið yfir mig af ís...

Tók strætó snemma í morgun upp í Auchan (Hagkaup Sardiníubúa) til að næla mér í 200 GB harðan disk fyrir 149,90 evrur. Ekkert smá ánægð með þetta; loksins getur maður byrjað að dánlóda klámi eins og fagmaður.

Tölvudruslan var að drepast úr plássleysi, enda gömul lufsa (á tölvumælikvarða) og ekki nema 20 GB, puuhhh. Kettlingur.

Á leiðinni heim úr búðinni var allt of mikið af fólki í strætó fyrir minn smekk. Maður hefur svosem lent í því heima líka (140 Hafnarfjörður-Garðabær-Kópavogur-Siðmenning var nú oft ansi þéttsetinn hérna í den). Gallinn er bara sá að Sardiníubúar kunna ekki alheimsstrætóreglurnar sem allir fara eftir. Semsagt:



  1. Þú horfir ekki í augun á neinum.
  2. Þú talar ekki við neinn.
  3. Þú stendur/sest ekki nálægt neinum ef það er ekki alveg nauðsynlegt.

Nei nei, ekkert svona takk fyrir. Það er bara troðist inn, beint inn í persónulegu loftbóluna, og andlitinu jafnvel snúið að manni. AÐ MANNI!!! Þannig að ef maður rekur út úr sér tunguna sleikir maður ennið á hálfvitanum sem tróð sér upp að manni. Svo andar þetta framan í mann. Ógeðslegt. Og alveg óásættanlegt fyrir tilfinningafrosinn og líkamsfælinn Norðurlandabúa. Eins gott að ég þarf sjaldan að taka strætó.

26.10.04

Tók mitt fyrsta fjarpróf í dag á alþjóðaskrifstofu háskólans hérna í Cagliari. Enskar bókmenntir var það heillin. Gekk meira að segja bara vel fannst mér. Og það var sko aldeilis fagnað; pasta úr hádeginu í gær, franskbrauð með mæjónesi og afsláttarhvítvín. Mmmmm...

25.10.04

Ég þoli ekki lengur að læra... eða sitja og þykjast læra og átta mig svo á því eftir 20 blaðsíður að ég hef ekki hugmynd um hvað ég var að lesa. Einbeitingarskorturinn algjör. Tók eftir því í dag að mávar eru farnir að sveima mikið fyrir utan og jafnvel farnir að gerast full aðgangsharðir; setjast á svalirnar og svona. Þeir finna væntanlega af mér nályktina út um opnar svaladyrnar.

Óska annars Jo til hamingju með 24ra ára afmælið í dag. Ef mig minnir rétt á líka Skuldur sá er við Hö er kenndur afmæli í dag og er þá væntanlega 27. Til hamingju allir bara.

22.10.04

Það var 30°C hiti og sól í dag og ég inni yfir tölvunni. Það verður svo pottþétt rigning þegar ég losna úr þessari törn að það er ekki fyndið.

Why does God hate me?

Er það af því að ég er með frekjuskarð?

21.10.04

Duttu mér allar dauðar lýs úr höfði í morgun. Var þá ekki mættur til Cagliari Jonas minn Biveroni. Fyrir þá sem ekki vita er Jonas Svisslendingur sem var með mér úti á síðasta ári og er algjör snilld af manni. Mér þykir vænt um Jonas.

Hérna erum við saman í Barcelona síðasta sumar (Adam Ungverji fór að skoða Sagrada-Familia kirkjuna en þar sem okkur Jonasi fannst hún hörmulega ljót að utan ákváðum við að hún væri jafnvel ljótari að innan (og svo kostaði líka inn!) og héngum í einhverjum garði á meðan. Það kom svo í ljós að við höfðum rétt fyrir okkur... Adam var mjög vonsvikinn meðan við vorum mjög glöð):



20.10.04

Hún Rita landlady (sem býr einmitt í íbúðinni á móti) er ágætis kelling fyrir utan það að hún er gjörsamlega þrifasjúk. Ég er engin subba svosem en öllu má nú ofgera. Hún sendi e-a kellingu til að þrífa hjá okkur um daginn, hún gerði það ekki nógu vel svo hún sendi aðrar tvær; ekki gekk það nú heldur, svo að á endanum kom sú fjórða og þá loksins varð mín ánægð. Þetta var, að hennar sögn, til að ná upp uppsafnaðri fitu og ryki eftir misþrifasama leigjendur. Jú jú allt ágætt með það... nema þegar hún byrjar að segja við okkur: "Svo er mjög mikilvægt að hver og einn þrífi eftir sig og gangi frá og svona... og helst ættuð þið að hafa eitthvað system á þrifunum líka."

What??? Þetta er bara nákvæmlega eins og það er hjá okkur, hver gengur frá eftir sig (augljóslega...) og svo þrif einu sinni í viku. Mind your own business kellingartuðra, það er ekki okkur að kenna að Michael Þjóðverji komi hérna þrisvar á ári og maki íbúðina út í steikingarfitu og óhreinum diskum.

Um daginn (eftir ræstingakonu nr. 2) kom Rita yfir, ég var ein heima og nýbúin að steikja mér kjúkling og kartöflur sem voru í pönnu á eldavélinni. Hún fer að rannsaka eldhúsið og kemur augu á einhverja fitubrák á borðinu fyrir ofan ofninn. Og herregud... það var bara eins og hún yrði andsetin af djöflinum sjálfum. Hún hljóp fram, náði í kassa af brúsum með ammoníaki, klór og alls konar óefnum og byrjaði að úða yfir allt saman (þar á meðal kvöldmatinn minn). Eftir þriggja kortéra skrúbb varð hún sátt og drullaði sér heim til sín með hreinsiefnin. Eins gott þar sem ég var komin að yfirliði af hungri (og já, ég át kjúllann samt... kaldan í ammoníakslegi).

En ég get sagt ykkur það, að það sem ég sá í augunum á þessari konu þetta kvöld, var ekki mannlegt.

19.10.04

Hún Anna sem býr með mér er ágætis stúlka að flestu leyti þótt hún sé 80 ára gömul kelling föst í líkama 25 ára huggulegrar stúlku. Einn hefur hún þó gallann (og það stóran...) og það er að hún setur dömubindi og túrtappa EKKI í klósettpappír áður en hún hendir þeim í ruslið. Það þykir mér frekar ógeðslegt.

Pirruð... var búin að blogga í gær en helvítis bloggerinn eyddi því. Er annars bara að reyna að læra. Sé alveg fyrir mér plottin á kaffistofu háskólaprófessora á Íslandi: -"Hey, ég ætla að hafa próf á þriðjudaginn sem gildir 50%", -"Ókey, þá ætla ég að hafa deadline á ritgerðina á mánudaginn, múhahaha!". -"Ég vil líka vera með... ég ætla að hafa verkefnaskil þá... segjum bara sama dag og prófið." -"Alltílæ, en þá ætla ég að láta skila annarri ritgerð daginn eftir prófið, ah ha ha ha, þetta verður fyndið!"

Er annars ofsótt af pöddum þessa dagana. Það var ormur í eplinu sem ég var að borða um daginn, Tikka Masala kryddið sem ég ætlaði að nota til marineringar var stútfullt af svörtum bjöllum og meira að segja austurlensku núðlurnar sem ég át í gær (eða a.m.k. 2/3 af þeim) innihéldu e-ð dautt skordýr. Heimsendir er í nánd.

17.10.04

Haldið þið að Katalóna I (a.k.a. Laura, fyrrverandi sambýliskona mín) sé ekki bara í heimsókn á eyjunni. Ég meig svosem ekkert á mig af spenningi enda muna glöggir lesendur kannski eftir því að hún var farin að fara ansi mikið í taugarnar á mér undir lokin.

Nenni svosem ekkert að fara út í smáatriði en við getum bara sagt að hún sé mjög týpískt einkabarn. ÉG ÉG ÉG ÉG um MIG frá MÉR til MÍN. Svo er hún líka einn af þessum einstaklingum sem er alltaf einhver andskotinn að. Alltaf veik, alltaf með hálsbólgu, vöðvabólgu, túrverki, hausverk and you name it. Hún má t.d. ekki borða neitt kalt því hún er með e-ð krónískt hálsástand. Og svo er hún svo mjó vesalingurinn af því hún er alltaf svo stressuð og með svo mikla vöðvabólgu og kemur bara engu niður.

Ég veit ekki hvort þetta er einhver innbyggður íslenskur truntuskapur en ég nenni bara ekki að vorkenna svona fólki. Úlfur úlfur anyone??

Einu sinni fór hún í fjallgöngu með fjórum öðrum vinum okkar. Á leiðinni heim komu þau við í bókabúð og þar inni leið yfir kvikindið. Öll þessi líkamlega áreynsla og hún greyið er svo mjó og var bara ekkert búin að borða ræfilstuskan. Ég glotti nú út í annað þegar þau báru hana hérna inn um dyrnar (skv. henni mun nær dauða en lífi). Hún mældi sig og OH MY GOD... 37,5 gráður!!! Henni féllust alveg hendur yfir þessum ógnarhita þangað til ég hreytti í hana að 37,5 gráður væri svo nálægt eðlilegum líkamshita að það teldist nú varla hiti. Svo skildi ég hana eftir í herberginu sínu með Nutella dollu og fór út. Þá varð nú Rita landlady fúl, þ.e.a.s. að ég skyldi ekki sinna greyinu betur. Oooo nei, ég er engin helvítis hjúkka, hún hefði bara getað verið heima hjá sér ef hún vildi fá e-a þjónustu.

Úff... sem betur fer gistir hún ekki hjá okkur.

15.10.04

Meðan ég man, þetta er ágætis skemmtun ef þú ert í smá pásu frá vinnu, lærdómi eða tjah, bara daglegu amstri:
Build a better Bush

Ojjj, þetta var nú meira svindlið með sjónvarpið á netinu. Maður getur bara horft á fréttir, íþróttir og veður og svoleiðis prump!!! Hverjum er ekki skítsama um það? Kastljósið? Táknmálsfréttir? Handboltakvöld? Mósaík?!? Já nei takk. Mér leiðist ekki svona mikið. Farið þið bara í rassgat ríkissníkjudýrin ykkar með þessa fúlu dagskrá. Fyrr má nú rota en dauðrota.

Samt gaman að hlusta á Rás 2 sko, vil alls ekki vera vanþakklát.

14.10.04

Vil ég svo nota tækifærið og bjóða
Chazz velkomna aftur til leiks en hún náði þeim merka árangri að blogga ekki í þrjá mánuði. Geri aðrir betur!

Bara að láta ykkur vita að ef þið eruð að hugsa um að plokka takkana af lyklaborðinu ykkar (svona í einhverju dundi, t.d. ef þið eruð að læra...), ekki gera það. Þeir eru fullir af örhlutum sem detta úr og það getur sko verið þrautinni þyngra að koma þeim á aftur.

Ja hérna... vissuð að það er hægt að horfa og hlusta á RÚV á netinu? Ekki ég, veit það samt núna. Tók til í herberginu mínu áðan með dúndrandi Rás 2 í gangi. Af hverju í ósköpunum sagði mér enginn frá þessu?

Og farið svo að fá ykkur Skype svo ég geti hringt í einhvern.

11.10.04

Jæja, það var aldeilis frábært hjá mér á föstudagskvöldið. Sátum hérna heima og sötruðum, fórum síðan á pöbbinn og ég var komin heim klukkan eitt. Júhúúúú, maður er alveg trylltur sko.

Fór svo í partý á laugardagskvöldið. Hitti strák sem ég hef ekki séð í þónokkurn tíma og hann segir við mig: "Nei, þú ert aldeilis komin með bollukinnar, maður borðar greinilega vel á Íslandi, ha?!" (það má bæta því við að til áherslu kleip hann svona krúttlega í aðra þeirra).

WHAT??? WHAT DID YOU SAY???!!! Sé það núna að ég hefði átt að reka hnefann á bólakaf í barkakýlið á honum en ég var bara of hissa til að bregðast við. Ja hérna... það sem fólki dettur í hug að segja.

Well, best að halda áfram að læra. Þ.e.a.s. ef mér tekst að sjá á tölvuskjáinn fyrir öllum þessum kinnum.

8.10.04

Jæja, nú er ég komin með nóg af enskri 18. aldar ljóðlist í bili. Ég er sko alltaf að læra. Eða við getum kannski frekar sagt að ég eyði miklum tíma í að læra. Mér verður samt voða lítið úr verki einhvern veginn. Enda er The Norton Anthology of English Literature þykkari en biblían og með þynnri blaðsíðum. Og örsmáu letri. Seeeiiiinlesið helvíti. Ég ætti kannski bara að fara í lýðháskóla þar sem ég get fengið að föndra og teikna.

En anyhoo þá er klukkan að verða sjö og ég ætla að drífa mig í rússkinnsbúttsin, setja á mig svitalyktareyði og varalit og skella mér á happy hour. Sem byrjar reyndar ekki fyrr en eftir þrjá tíma but who gives. Held ég eigi rósavínsflösku einhvers staðar.

Góða skemmtun í kvöld allir!

P.s. komin með nýjan erasmus-nema sem sambýling; hálf Breta/hálf Napóletana. Hann er voða fínn og almennilegur, en stundum með skítugt hár.

7.10.04

Þetta fann ég í e-i "Hverju svarar læknirinn" - bók frá 1980 heima hjá ömmu minni:

Getur maður fengið botnlangabólgu af því að gleypa rúsínusteina?

Nei, það er misskilningur, sem á rætur að rekja til skurðlækna fyrr á tíð. Við botnlangauppskurð er það ekki botnlanginn, sem er numinn burt, heldur ormlaga botnlangatotan (appenix vermiformis). Í henni eru stundum litlar, harðar kúlur, sem líta út eins og rúsínusteinar. Sumir handlæknar héldu að þetta væru raunverulegir rúsínusteinar, en það reynast vera glerharðir hægðakögglar, sem hafa komist niður í botnlangatotuna. Og þar eð totan er lokuð í annan endann, komast þessir kögglar ekki lengra. Þótt maður gleypi rúsínusteina, fara þeir venjulega rétta leið.


Svo er rosalega krúttleg mynd af botnlanga + totu og lítið sparð fast í totunni. Svo er ör sem bendir á það og segir "innilokaður hægðaköggull".

Það er nú ekki hægt annað en að elska lífið þegar maður les svona gullmola.

6.10.04

Jæja drullaðist áðan og keypti mér líkamsræktarkort. Það er eitthvað að þegar neðri maginn á manni er farinn að líta út eins og rass.

Ég ætla ekkert að skammast mín, fólk sem er að verða þrítugt verður bara að fara að hugsa um heilsuna.

Samt líst mér ekkert á þetta reykleysi. Nú er komin rúm vika og ég er svosem ekkert þjáð en ég nenni bara varla að reykja ekki. Ef þið skiljið hvað ég á við...

4.10.04

Þennan póst fékk ég (og væntanlega aðrir nemendur HÍ) sendan í dag:

Ágætu stúdentar!

Í fjárlagafrumvarpinu er kveðið á um tillögu þess efnis að hækka
skráningargjöld í ríkisreknum Háskólum um 38,5%. Skráningargjaldið er í
dag 32.500 kr. en yrði eftir hækkunina 45.000 kr. Í frumvarpinu segir að í
kjölfarið myndi skapast svigrúm fyrir Háskólann til að auka útgjöld sín um
rúmlega 100 milljónir króna.

Stúdentaráð mun berjast af fullum krafti gegn því að Háskólinn sæki sér
tekjur úr vasa stúdenta.

Stúdentar verða látnir vita um frekari framvindu málsins.

Með kveðju,
Jarþrúður Ásmundsdóttir
formaður Stúdentaráðs



So? Hverjir eiga svosem að borga til Háskólans ef ekki fólkið sem er að nýta sér þjónustuna? Mig munar ekkert um það að punga út nokkrum þúsundköllum í viðbót þó ekki væri nema til þess að það yrði keypt almennilegt kaffi í helvítis sjoppuna.

1.10.04

Ég gleymdi að minnast á að okkur var boðið í partý í réttunum:





En fyndið. Búin að vera að velta fyrir mér í allan dag einhverri skrýtinni lykt sem virðist fylgja mér. Ekki svitalykt og ekki táfýla og ég var hreinlega að gefast upp á þessu. Svo var ég að skoða bloggið mitt og rak augun í peysuna sem ég var í í réttunum. Lögðust þá saman tveir og tveir maður. Ég er nefnilega í þessari sömu peysu núna og man EKKI eftir því að hafa þvegið hana. Svona er nú lífið sniðugt!

Nú er ég bit...!
Er búin að vera að læra í næstum tvo tíma!! Kann einhver skýringu á þessari geðveiki?

Annars eins gott að það er ekki verið að sýna Bráðavaktina hérna, ég hefði sko orðið brjáluð ef ég hefði þurft að horfa upp á hann Luka minn deyja (já Guffi passar að halda manni við efnið...). Af hverju dó hann annars? Og hvað er í gangi í America's next top model (Jó...?)?? Held ég þurfi að kaupa mér gervihnattadisk.

Argasta.

Jæja nú er þriðji dagur í reykleysi runninn upp og ég verð nú að viðurkenna að þetta er auðveldara en ég hélt. Er reyndar svolítið óstabíl í skapinu, æsi mig yfir minnstu smáatriðum og á það til að bresta í grát ef fólk stoppar ekki fyrir mér á gangbraut og svona. En það á nú vonandi allt eftir að líða hjá.

Verð reyndar að taka fram óánægju mína með það að ég er ekkert sætari og húðin á mér ekkert fallegri heldur en þegar ég reykti. Ef eitthvað er ég tuskulegri en ever. Það finnst mér ekki sanngjarnt.