Harmsögur ævi minnar

24.8.10

Ég hef verið að pæla í því hversu oft er eðlilegt að fara fram úr rúminu á kvöldin til að athuga hvort útidyrahurðin sé læst og slökkt á eldavélinni, áður en það fer að teljast þráhyggja. Ég myndi segja svona fimm sinnum.

19.8.10

Nei, fjandinn hafi það, nú er hávaðinn í garnagaulinu alveg að gera út af við höfuðið á mér. Þetta kalla ég ekki góða samvinnu á milli deilda. Hver stjórnar þessu eiginlega?

Nú er illt í efni. Ég er ógeðslega svöng en til þess að búa mér til eitthvað að borða þyrfti ég fyrst að vaska upp. Því nenni ég alls ekki. Í ofanálag er ég með djöfullegan hausverk en eina verkjalyfið sem er til á þessu heimili er Parkódín Forte (síðan Sambó fór í einhvern uppskurð). Ég kýldi eina svoleiðis í kokið á mér áðan... kannski slæ ég bara tvær flugur í einu höggi; losna við hausverkinn og dett í lyfjadá. Þá þarf ég náttúrulega ekkert að fá mér að borða. Sem væri snilld.

6.8.10

Ef farið er til Agureirys er um að gera að skreppa á Mongó-sportbar. Og já, hann er til í alvörunni.
- - -
Annars getiði bara lesið færsluna hans Dr. Gunna frá 03.08.10 ef þið viljið lesa ferðasöguna mína frá því um daginn. Við fórum eiginlega á alveg sömu staði. Nema hann lét taka sig í rassinn á Café Margréti (fyrir utan Breiðdalsvík) þegar hann var rukkaður um ógeðslega marga peninga fyrir nokkrar malakoff-sneiðar. Ég fékk mér sem betur fer bara kaffi. Hjúkk.

3.8.10

Ég ætla að fara í jóga með Fridzanum mínum á morgun. Kannski verður það einhvern veginn svona:


D: Þú veist væntanlega að hnignun viðtengingarháttar þýðir hnignun samfélagsins eins og við þekkjum það?
S: Af hverju ertu ber að neðan?
D: Væri samfélagið ekki aðeins betra ef við værum öll alltaf ber að neðan?
S: Jú. Hvað á ég að kaupa í sjoppunni?
D: Sígarettur og frosna pítsu og kók.
S: Ókei. Farðu í buxur.

2.8.10

Næstsíðasti dagur í sumarfríi. Tilhugsunin er óbærileg.