Harmsögur ævi minnar

30.11.05

Hérna er jólaóskalistinn minn:

  • Nóa-Síríus súkkulaðibókin
  • Risa matreiðslubókin hennar Nönnu
  • Uppáhaldsbrjóstahaldarinn minn (fæst í Debenhams og heitir Chubby & Charming eða Fat & Fabulous eða eitthvað svoleiðis)
  • Maskari
  • Sápur og kremdót úr Lush eða Body Shop
  • Gallabuxur
  • Bækur (skiptir varla máli hvað því það er alltaf hægt að skipta, þó langar mig mikið í The Language Instinct eftir Steven Pinker)
  • Geisladiskar, nenni ekki að telja upp allt, mig vantar svo marga
  • Inneignarnótur í Bónus
  • Pictionary
  • Dýrindis karfa með ostum, kaffi, súkkulaði og góðu víni
  • 2 stk. BA ritgerð
  • Hipp og kúl bolur eða peysa
  • Svo langar mig að hitta alla vini míni og hafa það huggulegt og spjalla og spila og drekka rauðvín.
  • Heimsfriður (verður maður ekki að setja eitthvað svoleiðis líka?)

29.11.05

Djöfull er Morten fyndinn.

Pröf búið, hana nú. Skrifaði heillanga romsu um aðlögun og tungumálakennslu innflytjenda á Íslandi. Ég er viss um að ég fái 10. Eða eitthvað.

Annars verð ég kærasta um jólin. Jahá, fæ einingar fyrir það og allt. Þetta er hluti af einhverju Mentor-verkefni uppi í háskóla. Sumir fengu grunnskólabarn til að föndra með einu sinni í viku og aðrir lásu fyrir gamalt fólk. En ég verð kærasta. Það er fínt maður, þetta er rétt í þrjár vikur, alveg heppilegt fyrirkomulag fyrir svona fólk eins og mig sem hefur engan áhuga á sambandsveseni en vill samt ekki vera eitt yfir hátíðirnar.

Ætli það sé ekki hægt að fá lánaðan krakka einhvers staðar svo maður geti haldið almennileg fjölskyldujól? Æi það er kannski einum of. Já, látum bara hér við sitja. Maður vill nú ekki neyðast til þess í ofanálag að leggja frá sér bokkuna, svona fyrst maður hefur loksins tíma til að detta í það. Þetta verður huggulegt.

28.11.05

Oj, próf á morgun. Ég er komin með ógeð á prófum og prófin eru ekki einu sinni byrjuð. Sem betur fer tekst mér kannski að sleppa við ógeðs ítölskukúrs á vorönn. Vonandi. Ég er engan veginn að nenna þessu.

27.11.05

Úps braut bindindið í gær, en það byrjar semsagt frá og með deginum í dag. Vorum hvert öðru fyllra og hefur annað eins rugl ekki sést í langan tíma. Nenni ekkert að fara út í smáatriði, man hvort sem er ekki mikið og það sem ég man er hreinlega of neyðarlegt til upprifjunar. Skelfilegt.

Lufsaðist nú heim um fjögur-leytið. Eitthvað var maður orðinn þreyttur því ég lagði ekki í það að opna svefnsófann. Ég lagði heldur ekki í það að fara úr fötunum. Ég fór samt úr sokkunum. Af hverju í andskotanum veit ég ekki. Rugl.

24.11.05

Stal þessari snilld af Beddu. Maður er alltaf í rokna stuði.

23.11.05

Ooooo, bara upprifjunarþáttur í ANTM. Horfði samt... So you think you can dance er hvort sem er að byrja. Æi þurfti ég ekki að skrifa BA ritgerð???

Æi, mig dreymdi í nótt að ég hefði farið í próf í seinni hluta bókmenntakúrsins sem ég er í (erum búin að taka próf úr fyrri hlutanum sem gekk ágætlega). Nema hvað að kennarinn lét mig hafa prófið og ég fékk fimm!! Ég stóð lengi vel með tárin í augunum og horfði á prófdrusluna, ætlaði svo að biðja hann um að fara yfir það aftur til öryggis. Ég var að vona að hann hefði gefið vitlaust, mér fannst mér hafa gengið svo vel. En svo vaknaði ég þannig að ég kemst víst aldrei að því.

Spurning um að tapa sér úr stressi?

21.11.05

Allt í góðu, þrusutónleikar hjá Hvítum Strípum í gær. Var í stúku sem var ekki alveg nógu mikið rokk og ról, en þegar fólk er komið á minn aldur er þetta eina lausnin. Snilld bara.

Er reyndar í letikasti, allt of stutt í jólapróf og ég er lömuð af hræðslu. Ætlaði að búa til lærivikuáætlun en kom mér ekki einu sinni í það. Og borðaði fullt af súkkulaði sem er algjörlega bannað fram að jólum.

Gleðilegt að sjá að Tíkin er búin að fá sér glæsidress fyrir áramótin. Ég treysti að þið hin/ar sem ég ætla að detta í það með á áramótunum séuð að finna ykkur átfitt. Ég verð ekki í partýi með einhverjum lörfum þetta árið. Það virðist ekki vera lenska hjá Ítölum að fara í spariföt á jólum og áramótum og þ.a.l. er ég búin að vera eins og misheppnaður klæðskiptingur síðustu tvö árin á gamlárskvöld. Það er alveg nauðsynlegt að vera aðeins over-the-top á gamlárs, en þegar allir hinir eru í gallabuxum er það bara kjánalegt.

Þannig að farið að brúka greiðslukortin. Og Chazz: ég er hérna með silfurspandexsamfesting. With your name on it.

20.11.05

Ég er búin að vera svo skelþunn í dag að ég hélt í alvörunni að ég myndi ekki lifa það af. Pöbbkviss sem fór úr böndunum, uss uss. Áttaði mig á því um kvöldmatarleytið að líklegast myndi ég nú ekki drepast. Enda hafði ég alltaf á tilfinningunni að ég myndi deyja undir öllu dramatískari kringumstæðum. Til dæmis í loftbelgsslysi eða bjargandi litlu barni frá drukknun. Að deyja úr þynnku er alveg glatað.

Svo ég fór og leigði mér vídeó og keypti fullt af nammi. Maginn var ánægður með það enda galtómur eftir allt gubberíið. Ojbara, ég ætla aldrei að drekka aftur. Kannski eitt freyðivínsglas á gamlárskvöld og búið *hrollur*. Andstyggilegur andskoti.

18.11.05

Ég keypti mér gríðarlega fallegan áramótakjól í gær. Hann er örstuttur og með blúndu í staðinn fyrir bak (það er reyndar ekki hjartalaga gat í blúndunni, því miður). Þetta er kjóll sem er akkúrat passlega glyðrulegur fyrir gamlárskvöld, og auðvitað passar hann fullkomlega við gullskóna. Hmmmm...

16.11.05

Nú er illt í efni. Ég veit ekki hvort það er veðrinu eða einhæfu mataræði að kenna en húðin á mér er í tómu tjóni. Ég er öll að steypast út í ógeðslegum bólum og hársvörðurinn á mér er fullur af exemi og rauðum blettum. Ég er eins og geðsjúki vinurinn í "There's something about Mary". Skemmtilegt. Það fer víst enginn peningur í skó, nei nei, nú þarf ég væntanlega að punga út fyrir bólulækni. Ég get ekki gengið um götur borgarinnar eins og fílamaðurinn.

15.11.05

Ég er miður mín. Miður mín segi ég. Ég sá svo ofboðslega fallega skó í Bianco og hef hvorki getað nærst né hvílst síðan ég leit þá augum. Þeir eru gulllitaðir og með háum hæl og opinni tá. Ég á mjög sennilega ekki eftir að líta glaðan dag aftur nema ég eignist þessa skó.

14.11.05

Já og ég ætla að bæta því við að Paradise Lost er algjörlega í efsta sæti á óuppáhaldsljóðalistanum mínum.

Kúkur og piss. Það er komið að hálfsmánaðarlega óstuðs-kastinu hjá mér. Ég var svo pirruð og fúl í dag að það lá við að ég lemdi einhvern. Mánudagar eru náttúrulega grautfúlir og þreyttir dagar (næstverstu dagarnir á eftir ógeðs-sunnudögum).

Mér tókst þó að hafa hemil á skapinu og reifst ekki við neinn. Svo gerði ég þau mistök að telja yfir háskólaeiningarnar mínar, og að BA ritgerð meðaltalinni er ég með 59 einingar í ítölsku. 59!!!!!!!!!! Why God why??? Þetta þýðir þá væntanlega að ég þarf að hanga í einhverjum vangefnum kúrsi eftir áramót fyrir eina skitna einingu. Og ég sem ætlaði bara að vera í þessum tveimur kúrsum sem ég á eftir í ensku og dunda mér við BA ritgerðirnar. En neeeei, það var auðvitað til of mikils mælst að halda að það myndi ganga upp. Dauði og djöfull, ég ætla að fara og kýla nágrannahálfvitann. Henni var nær að kvarta undan mér, nú er komið að payday. Ég er sko sótsvört af bræði.

11.11.05

Af hverju fer sumt fólk í taugarnar á manni og sumt fólk ekki? Sumt fólk bara þoli ég ekki. Stundum hef ég ástæður fyrir því óþoli, misrökréttar þó, og stundum fáránlegar... en hver er svosem fullkominn? Stundum fer fólk líka í taugarnar á mér ekkert út af neinu sérstöku. Eða þ.e.a.s. það er væntanlega út af einhverju sérstöku en mér tekst ekki beinlínis að útskýra það. I guess some people just have a face you wouldn't get tired of hitting. Kannski fer ég meira að segja gríðarlega í taugarnar á einhverjum sem þekkir mig ekki neitt. Það væri nú aldeilis gott á mig.

Kannski er bara einhver pirringur í mér því ég er enn óbötnuð og þá get ég verið svolítið súr. Ég ætla að skrá mig næst í læknisfræði og finna upp eilífðarbólusetningu gegn beinverkjum. Beinverkir eru svo sannarlega verkfæri djöfulsins. Tobbalicious sagði að kannski væru þetta vaxtarverkir hjá mér, en mér er það stórlega til efs. Það væri samt frábært að bæta við sig eins og fimm sentimetrum.

9.11.05

Ég ætla aðeins að kvarta yfir málfari; hlægjandi kom tvisvar fyrir í Blaðinu í dag. Í sama viðtalinu. Svo sagði kallinn í Innlit/Útlit dekkorasjón og dekkoreita. Ég get ómögulega ímyndað mér af hverju hann gat ekki bara sagt skreyting og skreyta. Það er sjálfsagt ekki nógu hipp og kúl.

Annars er ég lasin - svona fer þegar maður sefur lítið og borðar óhollt. Ef einhver vill koma og hjúkra mér er það velkomið.

8.11.05

Próf í morgun. Próf próf próf. Ég er að spá í að drífa mig í því að verða ólétt. Ég er a.m.k orðin nógi asskoti æfð í því að vaka á næturnar. Það verður pís of keik að vera með krógann undir hendinni meðan ég strunsa um gólfin í stresskasti.

6.11.05

Ég fer á White Stripes og ekki orð um það meir.

Ástæðan fyrir því að ég er að blogga er ekki sú að ég hafi eitthvað að segja, heldur á ég að vera að læra fyrir próf. Þá vill hugurinn oft leita annað. Annars át ég illa upphitað kindabjúga áðan og líður hálf undarlega eftir það. Kannski er ég komin með einhverja sauðfjárveiki, riðu eða eitthvað þaðan af verra. En annars eiga þessi bjúgu að vera forsoðin þannig að það eru líklega ekki hundrað í hættunni. Jamm.

3.11.05

Mig langar svoooo á White Stripes. En ég hef eiginlega ekki efni á því. Nú er mikilvægt að sýna skynsemi í fjármálum; jólahátíðin framundan og þess háttar. Halda fast í budduna.

Ég er samt að fá magasár, mig langar svo gríðarlega. Það er þó bót í máli að ég get rúntað fram og til baka fyrir utan Laugardalshöllina meðan á tónleikunum stendur. Ekki allir svo heppnir.

1.11.05

Það er alveg hreint ótrúlegt hvað er hægt að gera með nútímatækni. Núna er ég til dæmis að blogga í Þjóðarbókhlöðunni!! Á mitt blogg, bara annars staðar frá. Trúiði þessu?

Og rétt í þessu var gellan við hliðina á mér að prumpa feitt. Ég þóttist ekkert taka eftir því. Mig langaði samt að hlæja. Hún var ekki einu sinni að reyna að fela hann, bara lét hann vaða eins og gamall sjóari. Gott ef hún lyfti ekki upp rasskinninni.

Og ég á nýjan bíl! Eða ekki nýjan þannig, bara nýjan fyrir mig. Það er svo sannarlega fallegasti bíll í heimi. Ég er yfir mig hamingjusöm með hann.