Harmsögur ævi minnar

28.12.09

22.12.09

Einhvern veginn virðist allt ætla að ganga á afturfótunum hjá mér í dag. Ég er að mygla eftir þessa svínasprautu og hef ekki komið mér í að þrífa fyrir sleni. Ég ætlaði að ganga frá uppvaskinu áðan en missti máttinn í sprautuðu hendinni þegar ég var að teygja mig og missti allt ofan í vaskinn aftur (pirr). Svo fór ég í blaðagáminn en hann var náttúrulega troðfullur þannig að ég þurfti að berja blöðin inn (pirrpirr). Allt sem ég tek upp virðist svo fljúga úr höndunum á mér og detta annað hvort á gólfið og brotna, eða ofan í eitthvað. Sem betur fer hefur ekkert dottið ofan í klósettið... ennþá. Þeir sem mig þekkja vita að það er einmitt mín sérgrein að missa hluti ofan í klósett. Hver elskar ekki t.d. að veiða málningardótið sitt upp úr dollunni? Tjah, eða lyklana? Þetta er gríðarlega skemmtilegt allt saman. Ég hef því ákveðið að gúggla myndir af sætum hvolpum og geyma allar frekari framkvæmdir til morguns. Sjitt, ég er Skrámur. Jóla-hvað?

Jemundur! Ég er í sögulega litlu jólastuði. Ég skil barasta ekki hvernig stendur á þessu. Jóla-Deeza verður að sjá um hressleikann fyrir mig, það er ég hrædd um.

15.12.09

8.12.09

Ég er komin með nýja klippingu og glænýjan platínuljósan lit. Það er þó greinilegt að hégóminn er farinn að taka sinn toll. Yfirleitt er ég ekkert viðkvæm fyrir neinum efnum og svoleiðis en í dag þegar hárdúddi setti aflitunarefnið í mig var eins og logar helvítis hefðu kviknað á höfðinu á mér. Þetta harkaði ég náttúrulega af mér en oj hvað það var vont. Mér sýnist ég líka vera öll rauð og sviðin í hársverðinum en ætla ekkert að skoða það frekar. Það leiðir hugann einungis að því að ég gæti einhvern tímann þurft að hætta að lita á mér hárið og ég get satt best að segja ekki hugsað þá hugsun til enda. Klippingin er stutt og flott; ekki drengjakollur en næstum því. Ég hef ekki verið með svona stutt hár síðan ég var sex ára og mamma lét einhverja illgjarna hárgreiðslukonu klippa í mig viðurstyggilegt sítt að aftan. „Business up front, party in the back“ er náttúrulega draumur hverrar sex ára stúlku, það segir sig sjálft. Mamma afsakaði sig alltaf með því að hárið á mér hefði verið svo þunnt og því ekkert hægt að láta það vaxa. Það var að sjálfsögðu rétt hjá henni en ég varð svo hvekkt eftir þessa lífsreynslu að nánast alla tíð síðan hef ég verið með næfurþunnar lýjurnar lengst niður á bak. En ég held að ég sé loksins að jafna mig á þessu öllu saman. Loksins.

2.12.09