Harmsögur ævi minnar

24.1.10

5.1.10



Þetta var í Fréttablaðinu einhvern tímann í nóvember. Ég verð að vera ósammála stelpunum. Mér finnst frekar lítið spennandi að sjá hvort það finnist ekki ný „skvísu-mennta“ stjarna. Svona „bókmenntir“ eru jafn hressandi og þynnkuprumpsbremsufar í langri strætóferð. Ein Sophie Kinsella er alveg nóg fyrir heiminn. Satt best að segja er ein Sophie Kinsella einni of mikið.

* * *

Að öðru: Helvítis lyktarúðinn á klósettunum í vinnunni er að fara með mig. Hvers á ég að gjalda? Af hverju fæ ég ekki að sitja á klósettinu í friði? Af hverju þarf að úða yfir mig viðurstyggilegri piparmyntufýlu? Ég sver það, ég hata þessa lykt meira en Framsóknarflokkinn.

3.1.10

Það er greinilegt að fregnirnar af næturævintýrum mínum um daginn hafa breiðst út um svæðið þar sem það er komið upp nágrannavörsluskilti við Ara- og Oddagötu. Íbúar hverfisins geta sofið rólega á meðan ég fylgist með.

Úff, þetta er búið að vera frábært en er líka alveg komið gott. Ég hvorki get né vil borða/drekka/letingjast meira. Nú má nýja árið byrja almennilega með öllu því sem fylgir... þ. á m. innantómum loforðum um að borða hollari mat, fara meira í ræktina, lesa meira, vera betri manneskja og það allt. Já já, þetta er mjög spennandi allt saman. Ég ætla bara að setja mér einhver létt markmið eins og taka lýsi (geri það hvort eð er) og kannski æi, hækka um nokkra sentimetra. Það er óþarfi að rífa sjálfan sig niður yfir hlutum sem maður veit að aldrei gerast. Eins og maður verði eitthvað betri manneskja á nýju ári, hohoho, I think not my friend.