Harmsögur ævi minnar

27.8.09

Ég lufsaðist upp í matjurtagarð áðan ásamt nokkrum fjölskyldumeðlimum. Þar var náttúrulega flest myglað, ormétið og/eða arfakæft. Maður uppsker víst eins og maður sáir og verður að rækta garðinn sinn og svoleiðis. Hinir klöppuðu hver öðrum á öxlina og sögðu að þetti gengi bara betur næsta sumar. Ég á nú eftir að sjá okkur nenna þessu aftur.

Við eigum reyndar nóg af kartöflum, smá kál og hvað? Jú, auðvitað radísur. Hressandi. Ég tók með mér kál og kartöflur heim en nú liggur þetta í poka frammi í gangi. Ég andast af leiðindum bara af því að hugsa um að skola þetta og þurrka og troða í poka. Fyrst þyrfti ég þá líka að vaska upp sem ég nenni alls ekki. Sambó er í sturlaðri skóla- og vinnutörn fram í miðjan september. Er ég viðurstyggilegur maðkur ef ég geymi uppvaskið þangað til? Am I?! Svona hugsunarháttur er ekki mér að kenna og ég er ekki svona löt... fíngerðar og viðkvæmar hendur mínar eru bara ekki gerðar fyrir svona erfiðisvinnu og subberí, alveg satt. Það eina sem þær ættu að gera allan daginn er að halda á kampavínsglasi (önnur) og munnstykki með sígarettu (hin).

Mig langar aftur til Sardiníu. Þessi haustsuddi leggst ekki vel í mig.(Mynd samviskubitslaust stolið af http://turismo.trovaofferte.net/)

17.8.09

Um daginn sat ég á klósettinu (einu sinni sem oftar) og tók þá eftir brúnu klístri á gólfinu. Ég þurrkaði það upp með klósettpappír en stóðst svo ekki mátið og þefaði. Þá var þetta súkkulaði. Ég hóaði náttúrulega í Sambó og spurði af hverju í fjandanum hann væri að éta súkkulaði inni á baðherbergi. Þá fyrtist minn við og sagðist sko ekki hafa borðað sælgæti inni á baði í langan tíma og a.m.k. ekki síðan við komum heim frá útlöndum. Þá spurði ég hann hvort hann væri virkilega að éta nammi inni á baði svona yfirleitt. „Ekkert frekar“, sagði hann kindarlegur og lét sig hverfa. Ætti ég að hafa áhyggjur?

12.8.09

Mér líður kjánalega... systir mín bölvuð píndi mig til að keyra sig fársjúka á læknavaktina. Ég var með hausinn út um gluggann alla leiðina til að anda ekki að mér sýklum en það virkaði greinilega ekki. Ég vildi að þetta veika fólk myndi láta mig með mitt slaka ónæmiskerfi (ég var nefnilega svo stutt á brjósti) í friði. Nú er ég augljóslega komin með svínaflensu eða einhverja helvítis óværu. Og ef fólk ætlar að að smita mig af einhverju vil ég fá eitthvað úberkúl eins og fransós. Það fær enginn fransós lengur - ekki einu sinni Glókollur frændi af því hann er kominn með kærustu. Samt er það svona rollsinn í kynsjúkdómum. Svekkjandi.

Góðar fréttir eru þær að ég virðist ennþá vera á ítölskum tíma og er því rokin á lappir fyrir sex á morgnana. Þetta er bráðskemmtilegt og þá sérstaklega vegna þess að mig hefur alltaf dreymt um að vera A-manneskja. Ég hef meira verið svona Ö-manneskja. Og í morgun braut ég saman þvott, fór í langa sturtu og út í búð og var samt mætt í vinnu hálf átta. Bjútífúl.

7.8.09

Og nú er ég bara komin úr því aftur. Fyndið mar.