Harmsögur ævi minnar

26.9.07

Ég veit að þetta gæti virst frekt en fólk er endalaust að spyrja mig hvað ég vil í afmælisgjöf, svo ég hendi bara ótrauð inn lista yfir dót sem mig langar í:
  • Bækur; skáldsögur (þó ekki vísindaskáldsögur), matreiðslubækur og bara alls konar bækur
  • Sniðugt og fallegt eldhús- og matreiðsludót (t.d. vantar mig ísvél, pressukaffikönnu og George Foreman heilsugrill (þetta er fyrir fjáðari gefendur eins og t.d. foreldra)).
  • Köku- og brauðform úr sílíkoni (svona sem er hægt að beygja og ekkert festist í)
  • Náttföt, sokkar og nærbrækur eru alltaf í uppáhaldi, og þá helst með krúttlegu barnamunstri
  • Ég er úrasjúk (líka fyrir fjáðari gefendur)
  • Rauðvínsglös
  • Úff... ég bara man ekki eftir fleiru. Eiginlega finnst mér allt bara fallegt og skemmtilegt.
  • Uppfærsla: Fallegt glingur og skart er líka vel þegið :)
  • Uppfærsla 2: Aaaarg, steingleymdi að ég er megasökker fyrir snyrtivörum og alls konar kremadrasli.

15.9.07

Ég held ég sé bara öll að koma til. Ég vaknaði meira að segja í morgun með mikla löngun í súkkulaðimorgunkorn sem er góðs viti. Ég og hjásvæfan ræddum það í þaula hvaða morgunkorn við (lesist: hann) ættum að kaupa og urðum loksins sammála um Weetos því það er jú sykurminnsta súkkulaðimorgunkornið á markaðinum. Núna myndi Snorri halda því fram að það væri svipað og að segja: "Syphilis - The best of the sexually transmitted diseases".

Burtséð frá því þá var Weetosið ekki einu sinni neitt spes... eini kosturinn er að maður fær ekki sár í góminn eins og af Kókópöffsi. Kókópöffs er samt miklu betra. Hmmm... sífilis eða klamydía? Held ég fái mér bara ristað brauð á morgun.

14.9.07

Þar sem ég er sárlasin og hef ekkert annað að gera en að þjást úr beinverkjum og stara ofan í ælufötuna er tilvalið að setja inn smá skets fyrir Snorrann sinn:


Þegar Snorri kom að heimsækja mig til Cambridge fannst okkur ægilega sniðugt að leika þetta atriði með aðstoð saklausra vegfarenda sem áttu sér einskis ills von. Í óþökk flestra en þó ekki allra. Crazy good times maður.

6.9.07

Ég byrjaði í gríðarlegu heilsuátaki í dag því ég sá svo fallegan kjól í gær sem mig langar til að vera í á afmælinu mínu. Með gríðarlegum viljastyrk horfði ég á hjásvæfuna slafra í sig pepperónípítsu í hádegismat meðan ég át surimisalat og egg. Eftir mat fór ég með fjölskyldunni að heimsækja ömmu í sumarbústað. Amma var búin að elda lambalæri og með því sem ég neyddist auðvitað til að borða. Bömmer. Og fyrst að dagurinn var hvort eð er ónýtur fékk ég mér tvær tegundir af ostaköku í eftirrétt. Og nammi á leiðinni heim. Og popp og kók í bíó áðan á Astrópíu (sem er mjög skemmtileg b.t.w.).

Þá byrja ég bara hollustuna galvösk á morgun og vona að átsjúkir ættingjar reyni ekki að draga mig með sér í svaðið. Þetta lið sko og það sem á mann er lagt. En ég er að minnsta kosti ekki jafn óheppin og Öli vinur minn sem má ekki krossleggja lappirnar það sem eftir er því þá deyr hann.