Harmsögur ævi minnar

29.4.08

Jááása... við hjásvæfan fjárfestum bara aldeilis í nýjum svefnsófa í dag. Það fylgir sá galli stúdíóíbúðum (auk maaaargra annarra) að til að þykjast vera með bæði stofu og svefnherbergi þarf maður að vera með svefnsófa. Í mörg ár er ég búin að kúldrast á einhverjum garmi frá pabba sem var mjög fínn og rándýr þegar hann var keyptur en orðinn ansi þreyttur. Það var hola í miðjunni þannig að maður svaf alltaf í U-i og þar sem ég sef yfirleitt á maganum var þetta farið að fokka hryggjarsúlunni á mér verulega upp. Auk þess voru alls konar gormar og stangir að borast inn í mig liðlanga nóttina og það getur nú ekki verið gott feng-shui (og ég merst líka auðveldlega).

En góðir svefnsófar eru rándýrir svo við ætluðum bara að láta okkur hafa það... þangað til við sáum auglýsta einhverja megaútsölu í húsgagnaverslun hér í borg. Við brunuðum þangað í hádeginu og sáum þennan fína gula sófa á 130 þúsund kjell með 40% afslætti og eftir að hafa ímyndað okkur tvö ár í viðbót (já, sénsinn að ég hafi efni á því að flytja af stúdentagörðum fyrr en eftir a.m.k. það) á gamla garminum, ákváðum við að skella okkur á hann. Allt á vísa rað auðvitað, eins og sönnum Íslendingum sæmir. Þannig að það lítur út fyrir það að maður fái loksins góðan nætursvefn, og það án marinna innyfla.

Ég vil nota tækifærið og þakka gamla garmi, sem nú hvílir lúin járn í Góða hirðinum, fyrir margar góðar stundir við bjórdrykkju,
þynnkulegur, sjónvarpsgláp og annað skemmtilegt dundur með hinum og þessum. Vertu sæll gamli vinur.

(Og það er ekki laust við að ég sé með samviskubit en það er út af því að ég binst dauðum hlutum tilfinningaböndum. Ég er að vinna í því.)

28.4.08

Maður fær bara ekkert að hanga á netinu þessa dagana... hjásvæfan í prófum og heimtar að nota tölvuna í lærdóm, fuss og svei. Ég þarf greinilega að fara að taka fram prjónana eða læra Tae-bo.

16.4.08

Má ég enn eina ferðina pirra mig á Rachael Ray... úff og æ æ. Djöfull er hún óóóógeðslega leiðinleg. Maðurinn hennar (sem hún þreytist ekki á að tala um) hlýtur að vera bæði blindur og heyrnarlaus. Að þessi sígjammandi antíkristur skuli yfir höfuð festast á filmu er mér algjörlega óskiljanlegt. Og já já ég veit - ég þarf ekkert að horfa á þetta. En ég slysast nú samt stundum til þess.

13.4.08

Ég og hjásvæfan fórum út að skemmta okkur á föstudaginn (einu sinni sem oftar). Við tókum leigubíl heim seint á föstudagskvöldið... tjah, eða snemma á laugardagsmorguninn; eftir því hvernig á það er litið.

Eníhú... ég er búin að komast að því að hjásvæfunni finnst óþægilegt að sitja í þögn í leigubíl og hann virðist líta á það sem heilaga skyldu sína að spjalla við bílstjórann á leiðinni... eitthvað sem ég nenni nú yfirleitt ekki að gera. A.m.k. ekki á leiðinni heim af djamminu þegar maður er dauðþreyttur og lítur út eins og Courtney Love á slæmum degi.

Ekkert að þessu svosem, nema... hvað talar hjásvæfan um á þessum heimferðum? Jú, hann byrjar alltaf að babbla eitthvað um hestöfl, tog og knastása. Ég veit ekki hvaðan þetta bílaröfl kemur því eftir því sem ég best veit hefur hjásvæfan nákvæmlega engan áhuga á bílum; hefur átt eina Micru-druslu á ævi sinni og myndi ekki þekkja spindilkúlu þótt hún sparkaði í rassinn á honum.

Þess vegna er mér alveg fyrirmunað að skilja hvaða karlmennskuflóðgáttir opnast um leið og við setjumst inn í leigubíl. Annað hvort heldur hann að leigubílstjórar hafi ekki áhuga á neinu nema bílum, eða þá að hann er laumubílaáhugamaður og þetta eru hans einu tækifæri til að ræða... ahm, hestöfl og tog við einhvern. Ég held að það sé hið fyrra.

Reyndar var þetta hin besta skemmtun... ég hélt svei mér þá að ég myndi drepast við að halda niðri í mér hlátrinum, enda hef ég bara aldrei heyrt annað eins.


9.4.08

Ég efast ekki um að Skólahreysti sé ofsalega skemmtilegt fyrirbæri fyrir keppendurna og bara grunnskólakrakka almennt. En sá sem hélt að þetta yrði skemmtilegt sjónvarpsefni hefur verið að reykja eitthvað sterkara en Camel.
---
Við hjássi fórum í ræktina áðan. Hann þurfti svo að horfa á fótbolta á bar svo ég fór heim og ætlaði að elda. Mig langaði bara ekkert, ekkert, ekki neitt í soðinn fisk og soðnar kartöflur svo ég grillaði mér djúsí margra hæða samloku með osti, skinku, sósum og allskonar og tveimur spældum eggjum ofaná. Núna er ég með nagandi samviskubit og þorskurinn liggur bara þarna og glápir á mig með ásakandi augnaráði.

Ætli það séu örlög mín að éta mig til dauða?

8.4.08

Grjónagrautur er með því betra sem ég fæ, en grjónagrautur með rúsínum er með því verra sem ég fæ. Samt finnast mér rúsínur góðar. Hvernig stendur eiginlega á þessu?
---
Þegar ég og hjásvæfan vorum á leið heim frá Akureyri um daginn á 30 km/klst. í brjáluðum snjóstormi og hálku hlustuðum við á Bítlaþáttinn með Ingólfi Margeirs. Það var fínasta afþreying en það stakk mig svolítið að alltaf þegar hann talaði um Yoko Ono í eignarfalli sagði hann Yokos; „Dóttir Yokos“ o.s.frv. Hefði ekki verið eðlilegra að hafa það annað hvort óbreytt eða þá Yokoar?

Svo sagði hann reyndar líka albúm þar sem ég hefði frekar notað plata en það er nú kannski meiri tittlingaskítur.

7.4.08

Í gær gerðust þau undur og stórmerki að ég eldaði í fyrsta skipti lambalæri með brúnuðum kartöflum og brúnni sósu. Þó að ég sé orðin þrítug, hafi flutt að heiman fyrir trilljón árum og sé meira að segja vel mellufær í eldhúsinu þá kann ég bara ekki að elda venjulegan, íslenskan hátíðarmat. Mér er alltaf boðið í mat til skyldmenna eða tengdafólks á jólum og páskum og svoleiðis partýdögum þannig að ég hef í mesta lagi hjálpað mömmu með sósuna og svo ekki söguna meir.

Nema hvað að við hjásvæfan áttum þetta fína læri ofan í frystikistu og það var barasta ekki eftir neinu að bíða. Við vorum reyndar með mömmu stanslaust í símanum og hún leiddi okkur í gegnum þetta skref fyrir skref. Svo buðum við Glókolli og Snorra í sunnudagslæri og meððí og Royal-búðing með þeyttum rjóma í eftirrétt. Þjóðlegra gerist það nú varla.

Ég gerðist meira að segja svo kræf að nota sparistellið sem ég var pínd til að byrja að safna þegar ég var í sambúð með öðrum manni (ekki af honum þó heldur ömmu og föðursystrum), en hef aldrei, ALDREI notað. Það er nú bara af því að ég er alltaf á flakki og allt draslið mitt í kössum. Og líka af því að það er rán-fokkíng-dýrt og ég er skíthrædd um að brjóta eitthvað úr því. En það brotnaði ekki neitt og það var bara þrælgaman að borða matinn sinn af svona ljómandi fallegu stelli.

Nú þarf ég bara að læra að elda hamborgarhrygg og þá er ég alveg skotheld.