Jááása... við hjásvæfan fjárfestum bara aldeilis í nýjum svefnsófa í dag. Það fylgir sá galli stúdíóíbúðum (auk maaaargra annarra) að til að þykjast vera með bæði stofu og svefnherbergi þarf maður að vera með svefnsófa. Í mörg ár er ég búin að kúldrast á einhverjum garmi frá pabba sem var mjög fínn og rándýr þegar hann var keyptur en orðinn ansi þreyttur. Það var hola í miðjunni þannig að maður svaf alltaf í U-i og þar sem ég sef yfirleitt á maganum var þetta farið að fokka hryggjarsúlunni á mér verulega upp. Auk þess voru alls konar gormar og stangir að borast inn í mig liðlanga nóttina og það getur nú ekki verið gott feng-shui (og ég merst líka auðveldlega).
En góðir svefnsófar eru rándýrir svo við ætluðum bara að láta okkur hafa það... þangað til við sáum auglýsta einhverja megaútsölu í húsgagnaverslun hér í borg. Við brunuðum þangað í hádeginu og sáum þennan fína gula sófa á 130 þúsund kjell með 40% afslætti og eftir að hafa ímyndað okkur tvö ár í viðbót (já, sénsinn að ég hafi efni á því að flytja af stúdentagörðum fyrr en eftir a.m.k. það) á gamla garminum, ákváðum við að skella okkur á hann. Allt á vísa rað auðvitað, eins og sönnum Íslendingum sæmir. Þannig að það lítur út fyrir það að maður fái loksins góðan nætursvefn, og það án marinna innyfla.
Ég vil nota tækifærið og þakka gamla garmi, sem nú hvílir lúin járn í Góða hirðinum, fyrir margar góðar stundir við bjórdrykkju, þynnkulegur, sjónvarpsgláp og annað skemmtilegt dundur með hinum og þessum. Vertu sæll gamli vinur.
(Og það er ekki laust við að ég sé með samviskubit en það er út af því að ég binst dauðum hlutum tilfinningaböndum. Ég er að vinna í því.)