Í dag eru nákvæmlega þrjú ár síðan ég dröslaði Sambó með mér heim af djamminu. Hann átti ekki afturkvæmt þaðan blessaður, nema auðvitað þegar ég lufsaðist í meistaranám handan hafs og hann neyddist til að setjast upp á móður sína aldraða meðan hann beið mín.
Mér þykir það ansi vel af sér vikið hjá okkur að lifa af árs aðskilnað eftir að hafa verið kærustupar í þrjá mánuði. En við vorum náttúrulega svo ofboðslega að deyja úr ást að við gátum varla mætt í vinnu. Árið sem ég var úti í Englandi eyddum við svo mörgum tugum þúsunda í símtöl að hann hefði sennilega getað flogið til mín vikulega. Og stundum var ég svo aðframkomin af söknuði að ég hélt ég myndi ekki lifa það af.
Við höfum nú aðeins tónað þetta niður, getum t.d. farið í búðina án þess að kyssast og eins gist sundur annað slagið án þess að það sé eins og himinn og haf sé að farast. Það er mjög gott. Ef lífið væri alltaf eins og fyrstu mánuðirnir þá kæmi maður væntanlega aldrei neinu í verk. En mikið afskaplega er ég samt ánægð með hann.*
*Ég áskil mér réttinn til þess að blogga væmið endrum og eins. En þó bara endrum og eins; ef það fer að verða of mikið af hinu góða bið ég fólk vinsamlegast um að sparka fast í sköflunginn á mér.