Harmsögur ævi minnar

30.6.09

Í dag eru nákvæmlega þrjú ár síðan ég dröslaði Sambó með mér heim af djamminu. Hann átti ekki afturkvæmt þaðan blessaður, nema auðvitað þegar ég lufsaðist í meistaranám handan hafs og hann neyddist til að setjast upp á móður sína aldraða meðan hann beið mín.

Mér þykir það ansi vel af sér vikið hjá okkur að lifa af árs aðskilnað eftir að hafa verið kærustupar í þrjá mánuði. En við vorum náttúrulega svo ofboðslega að deyja úr ást að við gátum varla mætt í vinnu. Árið sem ég var úti í Englandi eyddum við svo mörgum tugum þúsunda í símtöl að hann hefði sennilega getað flogið til mín vikulega. Og stundum var ég svo aðframkomin af söknuði að ég hélt ég myndi ekki lifa það af.

Við höfum nú aðeins tónað þetta niður, getum t.d. farið í búðina án þess að kyssast og eins gist sundur annað slagið án þess að það sé eins og himinn og haf sé að farast. Það er mjög gott. Ef lífið væri alltaf eins og fyrstu mánuðirnir þá kæmi maður væntanlega aldrei neinu í verk. En mikið afskaplega er ég samt ánægð með hann.*



*Ég áskil mér réttinn til þess að blogga væmið endrum og eins. En þó bara endrum og eins; ef það fer að verða of mikið af hinu góða bið ég fólk vinsamlegast um að sparka fast í sköflunginn á mér.

23.6.09

Ég er búin að komast að því að eina ástæðan fyrir því að ég er með heimasíma er til að geta hringt í gemsann þegar ég finn hann ekki. Og jú, líka til að tala við Gallup og svoleiðis.

21.6.09

Jæja, spurning um að drífa sig í matjurtagarðinn... erum bara búin að setja niður kartöflur og eigum eftir að setja niður hundrað tegundir af exótískum fræjum, þ. á m. rautt grænkál og fjólubláar gulrætur. Ég vildi líka setja niður aspasfræ og banana en það virðist ekki vera neinn metnaður í þessum ræktunarfélögum mínum. Þá er bara að vona að það sé ekki of seint að setja niður fræ... ekki okkur að kenna þar sem það er búið að vera hávaðarok eða grenjandi rigning eða bæði síðan við keyptum fræin. Helvítis skítaveður hérna alltaf hreint.

19.6.09

16.6.09

Á morgun er 17. júní. Það var rosalega skemmtilegur dagur þegar maður var lítill en er frekar slappur dagur þegar maður er fullorðinn. Í fyrra fór ég samt niður í bæ... aðallega reyndar til að leita að hoppukastala fyrir fullorðna. Það var ekkert svoleiðis auðvitað. Svo borgaði ég trilljónkall fyrir pulsu sem ég þurfti að setja áleggið á sjálf. Versta við 17. júní eru samt þessar viðurstyggilegu brjóstsykurssnuddur sem allir krakkar eru með hangandi um hálsinn. Öll útklístruð og útslefuð... oj. Ef ég eignast einhvern tímann börn þá fá þau aldrei svona, ég sver það.

14.6.09

8.6.09

Bleeeeeeeööööhhh...jakk... ég vissi svosem að það kæmi að þessu einhvern daginn en það var samt grautfúlt að fá fyrstu rukkunina frá LÍN.

4.6.09



2.6.09

Oft hef ég blótað því að hafa ekki verið aðeins eldri árið 1992. Þá væri smá séns að maður hefði farið á helvítis Reading.