Þann 10. október í fyrra var ég samkvæmt blogginu að sturlast úr geðvonsku „af ýmsum ástæðum sem ég nenni ekkert að tíunda hér“ (já, eða þar öllu heldur). Nú er ég sjúklega forvitin. Hvað gerðist? Hverjar voru þessar ástæður? Var það þjónninn sem drap hann? Var brjóstahaldarinn í skápnum vinstra megin?
28.10.09
26.10.09
Nei nei nei, nú liggur sambýlismaðurinn uppi í rúmi/stofusófa (einn og sami hluturinn á okkar heimili) og engist um af magaverkjum og almennri vanlíðan. Ætli þetta sé flensa? Hvert er hægt að flýja þegar maður býr í stúdíóíbúð? Og hugsa sér, ég fór í sleik við hann í gær og fleira. Ojojoj, þetta líst mér aldeilis ekki á. Ég er að spá í að éta heilan hvítlauk og skola honum niður með sjö lítrum af appelsínusafa með extra C-vítamíni. Svo mun ég maka mig út í lýsi til að búa til sýkladrepandi hjúp áður en ég leggst til hvílu við hliðina á smitberanum.
Ó, en ég flyt nú aldeilis ekki bara slæmar fréttir. Ég bjó til ótrúlega gott naan-brauð áðan. Eyþór Arnalds má fara að vara sig. Þá þarf ég bara að læra á gítar og eitthvað smá fleira... þetta er allt að koma.
20.10.09
Alltaf er maður að passa sig á flensu... ég er t.d. mjög dugleg að þvo mér um hendurnar og er ekkert að vasast ofan í fólki að óþörfu. Á flensuvarnarplakötunum sem hanga uppi í vinnunni er fólki líka bent á að hósta hvorki né hnerra framan í aðra. Hnuff, hugsaði ég, hvaða rumpulýður hóstar og hnerrar framan í aðra?! Lítið vissi ég þá.
Í gær var ég með fjögurra ára næturgest. Í morgun vorum við frænkurnar að finna okkur til fyrir vinnu/leikskóla og litla þurfti að pissa eins og gengur og gerist. Þegar ég var að girða upp um hana, kraup ég þannig að ég var í augnhæð við barnið og andlitið á mér svona fimm sentímetrum frá hennar. Hvað gerir litla dýrið þá? Jú, hnerrar auðvitað af öllum lífs og sálar kröftum, með frussi og öllu. Hún hnerraði sem sagt ekki á mig, hún hnerraði upp í mig. Skelfingarsvipurinn á mér hlýtur að hafa verið óborganlegur. Og hvað gerir maður eftir svona miskunnarlausa sýklaárás? Þvær sér um hendurnar? Niii, ætli það þýði nokkuð. Ef hún er með eitthvað þá er ég svo sannarlega komin með það líka.
15.10.09
Ég er að sturlast úr taugaveiklun í öllu þessu flensutali. Ég er svo sem ekkert hræddari við að fá svínaflensu en aðra flensur... mig langar bara ekkert að fá neina flensu, bara alls ekki. Fyrir þessu eru aðallega þrjár ástæður:
1. Það er ógeð að fá flensu. Flensa er ekkert svona æi ég er dáldið slöpp, best að vera heima og horfa á vídeó-dæmi. Nei takk kærlega. Síðast þegar ég fékk flensu, og það eru nú ekki nema tvö og hálft ár síðan, lá ég svoleiðis nötrandi og skjálfandi úr bein-, haus- og allskonar verkjum, með sjúklegan hita og svo veik að ég komst varla á klósettið. Öll hljóð og ljós (þ.m.t. dagsbirta) var alveg off, og vídeógláp ekki einu sinni til að tala um. Þetta var líka sérstaklega nöturleg lífsreynsla vegna þess að ég bjó í útlöndum og hafði hvorki kærasta né foreldra til að vorkenna mér og búa til veikite með engifer og svoleiðis. Og ég var rúmliggjandi í andskotans tvær vikur. Þvílíkur viðbjóður.
2. Það er mikið að gera í vinnunni minni. Mér þykir vinnan mín skemmtileg en henni fylgir sá galli varðandi mörg verkefni að ef ég geri ekki það sem ég á að gera er enginn annar sem gerir það. Það bíður því yfirleitt haugur af vinnu þegar maður snýr aftur. Ég hef verið heima veik en þá var ég að kúka í buxurnar af stressi yfir því að allt færi í köku. Hvorki hressandi né afslappandi.
3. Ég er að fara á Airwaves. Og ég hlakka geðveikt til og ég verð hryllilega súr ef ég verð svo bara veik í staðinn.
Núna finnst mér eiginlega eins og ég sé að verða lasin. Samt er ég búin að vera ótrúlega varkár... held t.d. alltaf niðri í mér andanum ef fólk kemur nálægt mér og þvæ mér um hendurnar á tíu mínútna fresti. Djöfull vona ég að þetta sé ímyndun í mér.