Harmsögur ævi minnar

29.11.10

Michelle með Bítlunum er í útvarpinu. Þetta er fallegt lag en algjörlega ömurlegt val fyrir tvær skrækar stelpur að syngja í karókí. Ég og Svölungur litla systir tókum þetta á Live Pub einhvern tímann og ef ég hefði ekki verið ofurölvi þá hefði ég skammast mín sjúklega mikið. Ég eiginlega skammast mín samt, þó ég hafi verið ofurölvi. Ég held meira að segja að það hafi verið púað á okkur. Af hverju eru allar mínar verstu (ó)minningar tengdar annaðhvort karókí eða tekíla (nú eða í verstu tilfellunum bæði karókí og tekíla)?

Nú er Færibandið hans Bubba byrjað á Rás 2. Hjálpi mér allir heilagir hvað það er leiðinlegur þáttur. Ég held ég máli frekar vegg og horfi á hann þorna.

26.11.10

Ég ætla að skella mér á pöbbkviss á eftir... og það þó ég sé með mjög einkennilegan verk í lifrinni sem ég er búin að reyna að leiða hjá mér í allan dag.

24.11.10

Ég þjáist af gríðarlegu andleysi akkúrat núna. Ég er næstum því viss um að fullt af nammi mun lækna mig. Verst að ég er alltaf í vandræðum með líkamsmarkmiðin mín. Eina stundina langar mig að grennast og hina stundina langar mig að ná þriggja stafa tölu en hvorugu verkefninu hef ég nennt að sinna af nokkurri alvöru svo ég dandalast bara áfram í einhverri ömurlegri meðalmennsku. Nú er spurning um að fara að herða sig og standa við eitthvað af því sem maður segir. En fyrst ætla ég að læra að spila á nárafiðlu. Getur einhver lánað mér eina slíka?

22.11.10

Ég hef tekið til í tenglum. Þeir sem hafa ekkert bloggað á árinu fengu að fjúka. Og hananú. Dáldið fátæklegt svona en það verður bara að hafa það. Letingjar.

Tilhugsunin um mánudag er ömurleg en mánudagurinn sjálfur er ekkert svo slæmur. Leiðinlegt að þessi tilhugsun skuli eyðileggja fyrir manni alla sunnudaga. Skárra væri þá bara að hafa mánudaginn leiðinlegan. Nú er tilhugsunin um að ég þurfi að kynna mér frambjóðendur í kosningum til stjórnlagaþings að sliga mig. En kannski er tilhugsunin verri en raunverulegi atburðurinn. Vonandi. Ég nenni engan veginn að byrja á þessu.

19.11.10

Föstudagur Hauksson, ó hve heitt ég elska þig!

15.11.10

Ætlar maður ekkert að vaxa upp úr því að hata mánudaga? Ég sver það. Nú ætla ég að horfa á sætu hvolpana og vona að dagurinn verði fljótur að líða.

11.11.10

Ég er búin að finna draumabrúðarkjólinn minn. Eins og glöggir lesendur muna þá var það þessi:

En nú er ég eiginlega búin að lofa vinkonu honum þannig að ég ætla að fá mér svona:

Ég bara spyr: Hvað gæti hugsanlega farið mér betur? Ekki neitt. Ég ætla reyndar bara að setja bjórvömbina í gatið, ekki óléttubumbu. Ég hugsa að það gæti jafnvel verið flottara.

Já já já, ekki nokkur spurning. Þetta er svakalegt.

9.11.10

Sjiiitt hvað þetta væri sniðugt á stúdentagarðana:

8.11.10

Oj, veðrið í morgun var þannig að mig langaði að loka augunum aftur og vakna hér:



Svo ég snúsaði og snúsaði en allt kom fyrir ekki.

6.11.10

Ég virðist hafa blikkað augunum og allt í einu er árið 2010 að verða búið. Í tilefni af því ætlaði ég að fara yfir áramótaheitalistann minn og sjá hverju ég hefði áorkað. Ég hélt ég hefði bloggað lista en nú finn ég ekki neitt. Ég veit þó að ég bakaði naan-brauð en ég veit líka að ég lærði ekki að spila á gítar. Bæði þessi atriði voru á týnda listanum en ég man ekki eftir neinu öðru. Þá ætla ég bara að búa til nýjan lista fyrir 2010:

- Fitna um 5 kíló. Check.
- Drekka 700 bjóra. Check.
- Búa ennþá í 35 fermetrum. Check.
- Lesa margar skemmtilegar bækur. Check.
- Slasa mig í hnénu í fótbolta. Check.
- Hanga mikið með ótrúlega skemmtilegu fólki. Check.
- Ekki eignast börn. Check.

Fínn listi, og nei, það er ekki svindl að gera lista aftur á bak. Þetta er mitt blogg og ég segi það.

Annars er fínt að fá vetur. Jól og svona. Lífið er algjörlega dásamlegt þessa dagana.