Harmsögur ævi minnar

28.7.08

Ég og hjássi vorum að ræða það áðan að við þyrftum að fara að halda partý. Það er aðallega vegna þess að við viljum ekki venja nágrannana á að geta sofið vært allar helgar. Þá verður fólk bara frekt. Nú er alveg mánuður síðan við héldum partý síðast og ég er bara svei mér þá steinhissa á því að það sé ekki búið að hringja á lögregluna til að tékka á því hvort við séum á lífi.

Annars var þetta bara grútmyglaður mánudagur að vanda. Hér er því lag sem er svo hresst að það gæti fengið Björn Bjarnason til að hrista á sér skankana sem óður maður væri. Ég, Glói og Snorrinn dönsuðum einmitt við þetta á föstudaginn. Og ef þið heyrið einhvers staðar að ég hafi verið ein að dansa við þetta og þeir að hlæja að mér þá er það lygi. Haugalygi.



24.7.08

Það á ekki að segja:

Hlægja heldur hlæja (það er auðvitað til sögnin að hlægja en það er ekki það sama og að gefa frá sér hlátur)
Víst að heldur fyrst að (og þessi villa fer óendanlega í taugarnar á mér... hverjum datt þetta í hug?)

Og af hverju er ég að röfla yfir þessu? Æi, ég bara nenni ekki að vaska upp. Átt ÞÚ þér uppáhaldsmálfræðivillu? Ég vil ólm heyra hana.

(Hver veit svo nema Hið íslenska málfarsfasistafélag verði vakið af værum blundi með haustinu... reyndar veit ég ekki hvort það er hægt að vekja eitthvað úr dvala sem aldrei var vakandi, en það er kannski ekki aðalatriðið. Fröken formaður doktor Djalla...?)


Ég fór til læknis í dag og ætlaði að láta brenna þennan vörtuviðbjóð af fætinum af mér. Heyrðu... nei nei nei... þetta er ekki varta... ÞETTA ER LÍKÞORN! LÍÍÍÍKÞOOOORN!!! Hvaða djöfulsins fíflalæti eru þetta? Líkþorn?! Það er víst ekki til nein lækning við þessum hryllingi heldur, þannig að læknirinn sagði mér að vera í víðum skóm og passa að tærnar nudduðust ekki saman. Bless bless eiginlega allir skórnir mínir, halló crocs-ógeð eða eitthvað þaðan af verra. Bless bless grimma veröld.

(Það má kannski bæta því við að mér væri sko skítsama um þetta líkþorn ef ég væri ekki alveg að fokkíng drepast í fætinum og farin að haltra um götur borgarinnar eins og gamalmenni sem er búið að skíta á sig.)

23.7.08

Mig langar ótrúlega í rauðvínsglas en það er ekki til. Hins vegar er til hálf flaska af 10 ára gömlu heimabrugguðu rabarbaravíni með korkbitum sem bróðir hjásvæfunnar lét hann hafa. Ég veit svei mér þá ekki hvort ég legg í það.

---

Ég verð að fara að drullast í klippingu. Svona þunnhærðlingar eins og ég verða að vera almennilega snyrtir, annað er nú bara ekki hægt. Ég er að auki búin að fylgjast grannt með litaþróuninni á strýinu og til allrar hamingju sýnist mér ég ekki vera að verða rauðhærð eftir allt saman.

15.7.08

Ef hjássi væri ekki skítsæmó þá myndi ég vilja giftast Nönnu Rögnvaldar. Matreiðslubækurnar hennar eru náttúrulega ekki af þessum heimi.
---
Hvaða djöfulsins bull er alltaf í sjónvarpinu þessa dagana? Ekkert nema eintómur viðbjóður. Og ég næ alltaf að missa af því pínkulitla sem er þess virði að horfa á. En ef ástandið fer ekki að lagast, þá, og ég segi það og skrifa, þá fer ég að taka upp bók!

Eða horfa á sjónvarpsþætti á netinu.
---
Helvítis tánöglin hangir enn á litlutánni á mér. Það er nú meira sem þetta er þrautseigt kvikindi. Hún er samt laflaus... eða svo segir hjássi, ég þori ekki fyrir mitt litla líf að kíkja á þetta.
---
Oooog smá nostalgía í lokin:

8.7.08

Til frænda.



Góða ferð kallinn minn.

3.7.08

Oj oj oj oj! Tánöglin af annarri litlu tánni á mér er að detta af... þvílíkur hryllingur! Ég veit ekki af hverju í fjandanum... en mér dettur helst í hug holdsveiki eða eitthvað þaðan af verra. Ég hef ekki getað stigið í fótinn síðan ég komst að þessu fyrir nokkrum tímum, ekki út af sársauka nei nei nei, heldur klígjar mig svo við tilhugsuninnni. Þetta bætist ofan á allt annað sem er að mér, t.d. krónískur magaverkur og brjóstsviði, vöðvabólga, varta á milli tánna (sem ég er að fokkíng drepast í), unglingabólur á gamals aldri, bjórvömb og frekjuskarð. Í ofanálag er svo búið að taka úr mér hálskirtla, nefkirtla (tvisvar!), botnlanga, liðþófa og búa til nýtt krossband í hnéð á mér. Talandi um að skrapa úr botninum á genapollinum, skamm skamm mamma og pabbi.

2.7.08

Hjássi er ekkert smá lélegur í prumpukeppni. Ég tek hann í bakaríið kvöld eftir kvöld fyrir framan sjónvarpið. Kannski veit hann ekkert að við erum í keppni.